Flugrekstur Play rekur nú tíu vélar, af gerðinni Airbus A320 og A321. Að sögn Birgis Jónssonar, forstjóra Play, stendur ekki til að fjölga vélum í bili. Þess í stað verður einblínt á vöxt í tekjum og bókunum á flugsætum.
Flugrekstur Play rekur nú tíu vélar, af gerðinni Airbus A320 og A321. Að sögn Birgis Jónssonar, forstjóra Play, stendur ekki til að fjölga vélum í bili. Þess í stað verður einblínt á vöxt í tekjum og bókunum á flugsætum. — Morgunblaðið/Eggert
Gísli Freyr Valdórsson gislifreyr@mbl.is „Tekjumódel okkar er nú að virka eins og upphaflega var áætlað og við erum farin að sjá árangur af því.“

Gísli Freyr Valdórsson

gislifreyr@mbl.is

„Tekjumódel okkar er nú að virka eins og upphaflega var áætlað og við erum farin að sjá árangur af því.“

Þetta segir Birgir Jónsson, forstjóri Play, í samtali við Morgunblaðið.

Play birti í gær flutningatölur fyrir maímánuð, sem reyndist metmánuður því aldrei hafa fleiri flogið með félaginu í einum mánuði, eða um 129.000 farþegar. Sætanýtingin í maí nam 85%. Flogið var til 26 áfangastaða í maí, samanborið við 17 áfangastaði á sama tíma í fyrra.

Í tilkynningunni var haft eftir Birgi að hliðartekjur félagsins á hvern farþega hefðu aukist verulega, eða um 28% á milli ára. Spurður nánar um þau ummæli segir Birgir að með betri bókunarvél hafi auknar tekjur skilað sér til félagsins, meðal annars í keyptum sætum, auknum farangri og öðru.

„Ferlið við að bóka stærri pakka hjá okkur er orðið einfaldara, til dæmis þar sem fólk bókar strax valið sæti með auknu fótarými, tösku til innritunar og svo framvegis. Við erum að sjálfsögðu með ódýrari leiðir til staðar þar sem fólk bókar bara sæti og handfarangur, en það að gera ferlið einfaldara hefur bæði skilað sér í auknum þægindum fyrir viðskiptvini og auknum tekjur fyrir félagið,“ segir hann.

Einfaldara ferli auki tekjur

– Þetta hljómar eins og vandamálið hafi verið á upplýsingatæknisviði, er það rétt?

„Já, kannski að hluta en þó ekki alfarið,“ segir Birgir í léttum tón.

„Við vorum alltaf með það markmið að einfalda ferlið við bókun og bjóða upp á ferli sem gæti aukið tekjur. Í stað þess að bóka sæti og fara síðan að kaupa meira fótapláss, innritaða tösku og annað getur fólk nú gert það með auðveldari hætti. Það eru engin geimvísindi en eins og ég hef áður greint frá, meðal annars í fyrri samtölum við þig, þá voru of margir þættir sem trufluðu þessa þróun á síðasta ári.“

Þar vísar Birgir m.a. til viðtals sem birtist við hann á mbl.is í nóvember sl. þar sem fram kom að hliðartekjur sumarsins hefðu ekki skilað sér eins og búist var við, meðal annars út af töfum og hægri afgreiðslu á flugvöllum víða sem og annarra þátta. Það sást í uppgjöri félagsins fyrir þriðja ársfjórðung í fyrra.

„Það sem skiptir máli er að við stefnum að þessu markmiði og erum nú að ná því,“ segir Birgir.

„Það tók langan tíma að byggja upp tekjuflæði. Það hefði sloppið fyrir horn í fyrra ef ekki hefði verið fyrir hækkandi olíuverð í kjölfar stríðsins í Úkraínu. Einingarkostnaður okkar er á áætlun og við höfum náð að halda honum lágum. Það er lykilatriði í flugrekstri.“

Gera ráð fyrir hagnaði á árinu

Birgir segir að mikil eftirspurn sé eftir flugi sem gerir það að verkum að markaðsverð á flugmiðum hefur hækkað fyrir sumarið. Þannig sé áberandi mikil eftirspurn frá Bandaríkjunum fyrir ferðalög til Evrópu sem hafi áhrif á verðþróun á markaði.

„Við erum í samkeppni við um 30 flugfélög og gætum þess að vera samkeppnishæf í verði,“ segir Birgir.

Hann segir að félagið geri ráð fyrir rekstrarhagnaði á þriðja fjórðungi þessa árs – og reyndar fyrir árið í heild – en setur þó þann fyrirvara sem eðlilegt er í rekstri flugfélaga.

„Útlitið er í það minnsta bjart, bókunarstaðan er góð, verð er hagstætt og bókunarferlið er betra,“ segir Birgir.

„Við erum með jákvætt fjárstreymi og teljum að félagið sé komið á sterkan stað eftir miklar fjárfestingar í örum vexti. Við erum nú komnir með tíu vélar og finnum fyrir því tekjuflæði sem þær skapa.“

Ekki stefnt að fjölgun véla

– Þú nefndir mikla eftirspurn frá Bandaríkjunum, hvað með aðra markaði?

„Þessi eftirspurn verður til staðar í sumar, við finnum það á bókunarstöðunni,“ segir Birgir.

„Við höfum verið með hátt hlutfall tengifarþega yfir hafið í vetur en það mun breytast í sumar, þegar farþegum til og frá Íslandi fer fjölgandi. Íslendingar eru mikið búnir að bóka ferðir út og eins er mikið af ferðamönnum að koma til landsins. Það er þó jafnvægi á þessum mörkuðum sem er mikilvægt og við gerum ráð fyrir því að svo verði áfram.“

Velta félagsins í ár er áætluð um 40 milljarðar króna, og starfsmannafjöldinn er nú 550 manns. Sem fyrr segir er félagið með tíu vélar í rekstri, en Play tók við tíundu vél sinni í síðustu viku. Það liggur þó beinast við að spyrja Birgi hvort stefnt sé að frekari vexti.

„Þetta hefur verið hraður vöxtur frá því að við hófum starfsemi, en það mun eitthvað hægjast á honum núna. Það er ekki markmið í sjálfu sér að vaxa með tilliti til fjölda flugvéla eða starfsmanna, heldur er mikilvægara að vaxa í tekjum með öfluga bókunarstöðu,“ segir hann.

„Að því sögðu þá erum við alltaf að skoða nýja áfangastaði og það er hægt að auka umsvif með aukinni tíðni eða nýjum áfangastöðum. Það þurfa þó að vera vel ígrundaðar ákvarðanir þar að baki.“

Höf.: Gísli Freyr Valdórsson