Helga Þórisdóttir
Helga Þórisdóttir
Notkun reiðufjár sem greiðslumiðils hér á landi hefur farið minnkandi undanfarin ár. Hefur það gerst samhliða tækniþróun og margir hverjir farnir að nýta sér kortaviðskipti eða millifærslur í stað reiðufjárviðskipta

Klara Ósk Kristinsdóttir

klaraosk@mbl.is

Notkun reiðufjár sem greiðslumiðils hér á landi hefur farið minnkandi undanfarin ár. Hefur það gerst samhliða tækniþróun og margir hverjir farnir að nýta sér kortaviðskipti eða millifærslur í stað reiðufjárviðskipta.

Þróuninni fylgja ýmsir kostir og gallar. Notendur reiðufjár njóta góðs af því að ekki sé hægt að rekja neysluhegðun og viðskipti þeirra, á sama tíma og áhyggjur eru af því að aðrir nýti sér órekjanleikann til undanskota frá skatti eða peningaþvættisbrota.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri hefur lýst því yfir að hagsmunir lögreglunnar af því að minnka notkun reiðufjár séu miklir enda þarf að tengja reiðufé við frumbrotið en auðveldara sé að elta rafrænar greiðsluslóðir.

Önnur sjónarmið snúa að persónufrelsi. Helga Þórisdóttir forstjóri Persónuverndar segir við Morgunblaðið að með notkun rafrænna korta, eða greiðslukorta, verði til saga um líf og neysluhegðun einstaklings. Lögregla geti óskað eftir aðgangi að þessari sögu vegna rannsóknarhagsmuna.

Þá liggur einnig fyrir að neysluhegðun á netinu er verðmæt söluvara og mikil ásókn fyrirtækja í slíkar upplýsingar.

Helga spyr hvers virði það sé að fá að vera frjáls manneskja án þess að það sé rakið. „Það eru ekki allir að stela og það hafa ekki allir eitthvað að fela,“ segir hún. Það megi vel vera að flestir kjósi að nota greiðslukort en allt sem sé rafrænt skilji eftir sig slóð.

Í því samhengi þurfi að spyrja sig í hvernig samfélagi við viljum búa. Hverjir eru hagsmunir þess að taka reiðufé úr umferð? Eigum við sem einstaklingar og borgarar ekki að geta haft val um það hvort við viljum eiga rekjanleg viðskipti hverju sinni eða ekki? spyr Helga.

Þá kallar Helga eftir því að umræða skapist í samfélaginu um framtíðina í þessum efnum, áður en tekin er ákvörðun um að taka reiðufé úr umferð, af þar til bærum yfirvöldum.

Höf.: Klara Ósk Kristinsdóttir