Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Þórsmörk er staður sem margir tengja sig sterkt við. Þau sem hingað koma sem börn eiga oft í huga sér ævintýrlegar minningar um Mörkina og finnst þess vegna mikil upplifun að koma hingað aftur sem fullorðið fólk. Slíkt finnum við oft meðal fólks sem hingað kemur,“ segir Heiðrún Ólafsdóttir. Hún er staðarhaldari Ferðafélags Íslands í Þórsmörk og kom á svæðið 28. apríl síðastliðinn. Á háönn ferðamannatímans – það er í júlí og eitthvað fram í ágúst – verða fimm manns á vakt FÍ í Mörkinni og veitir ekki af. Vaktin verður staðin á svæðinu alveg fram í október.
Gestirnir komu strax
„Strax og við opnuðum staðinn fóru gestir að sækja hingað. Slíkt gerðist raunar alveg á fyrsta degi og í maí voru hér áberandi hópar úr efstu bekkjum grunnskóla,” segir Heiðrún. „Íslendingar hafa verið í meirihluta þeirra sem hingað hafa komið að undanförnu; þá gjarnan fólk sem er á eigin vegum og í jeppaslarki. Þá eru Kynnisferðir með daglega túra hingað; eina ferð daglega nú og tvær þegar líður á sumarið. Þá er Southcoast á Hvolsfelli með ferðir hingað þrisvar á dag og Trex með sína rútubíla hefur áætlun 17. júní.“
Skagafjörðsskáli FÍ í Þórsmörk setur sterkan svip á umhverfið í Langadal. Brátt verður hafist handa um endurbyggingu þessa reisulega húss, en elsti hluti þess var reistur fyrir um 70 árum. Þær framkvæmdir þykja afar brýnar, enda er margt í húsinu orðið fúið og þá þarf að bæta úr. Reiknað er með að hafist verði handa um endurreisn strax á næsta ári.
„Ég hef stundum gripið í skálavörslu hér í Þórsmörk þá um skemmri tíma hverju sinni. Þó lengst verið mörg sumur í ýmsum skálum við Laugaveginn – svo sem við Álfavatn. Um Laugaveg fara þúsundir fólks á hverju ári og enda hér í Þórsmörk. Og strax núna þegar rúm vika er af júní er fólk byrjað í Laugavegsgöngum. Þau voru tvö sem hingað komu eftir fjögurra daga göngu núna á þriðjudaginn og senn er von á fleirum. Hér í Þórsmörk er gróður líka kominn vel á skrið; flatir hér í Langadal eru grænar og lauf komið á birkið,“ segir Heiðrún sem unir sér vel á fjöllum.
Öruggast er að ganga yfir brúna á Krossá
„Sá hópur fólks sem kemur hingað í Þórsmörk er afar fjölbreyttur og starf skálavarða tekur mið af því. Okkar er að sjá fólki fyrir gistingu, sjá um tjaldsvæði, huga að umhverfinu, sinna minniháttar viðgerðum og svo er mannlegi þáttur í þessu afar stór. Innsæi á mannlegt eðlil er mjög mikilvægt í svona starfi; geta lesið í aðstæður og þannig komið fólk sem er í vanda statt að liði,“ segir Heiðrún. „Einnig þarf að fylgjast með ánum hér í kring en oft hendir að bílstjórar sem eru á leiðinni hingað hringja og spyrja um árnar. Yfirleitt eru þær færar öllum vel útbúnum jeppum en Krossáin hér við Langadal getur þó stundum verið varhugaverð, enda bæði straumhörð og botninn grýttur. Þegar fólk er í vafa um að leggja í Krossá er mín almenna ráðlegging því jafnan sú að segja fólki að skilja bílinn eftir og koma hingað yfir í Langadal á göngubrúnni – enda örstutt og öruggt.“