Hollensku hjónin Cobie og Reyer.
Hollensku hjónin Cobie og Reyer.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Blaðamaður og ljósmyndari Morgunblaðsins lögðu leið sína á Þingvelli í vikunni og kynntu sér upplifanir valinna ferðamanna af ólíku þjóðerni á Íslandi. Almennt virtist ríkja mikil spenna og ánægja á meðal ferðamannanna, bæði með landið og landann

Bandaríkjamönnunum Mike, Billy, Kay og Alyssa líkar Ísland vel. Þau segjast ekki hafa átt von á því að Íslendingar væru jafn vinalegir og hjálpsamir og raun bar vitni. Auk þess finnst þeim enskukunnátta Íslendinga vera tilkomumikil, sem sé frábært því erfitt sé að bera fram íslensk orð.

Hinar svissnesku Alex og Rachel lentu á Keflavíkurflugvelli í vikunni. Þær segjast vera sérstaklega spenntar fyrir íslenskri náttúru og fyrir því að sjá ýmis dýr, til dæmis fugla, seli og hvali. Þrátt fyrir rigningu á Þingvöllum létu þær engan bilbug á sér finna og sögðust viðbúnar öllu veðri.

Finnski ferðamaðurinn Mitia Skirhu segist aldrei áður hafa séð neitt í líkingu við íslenskt landslag. Þá segir hann náttúrufegurð Reynisfjöru standa upp úr. Mitia tekur undir með Bandaríkjamönnunum og segist upplifa Íslendinga sem hlédræga en vinalega og hjálpsama.

Hollensku hjónin Cobie og Reyer voru á áttunda degi ferðalags síns um Ísland. Þau segjast hrifin af sjóðandi jarðveginum, landslaginu, fjöllunum og litunum sem Ísland hefur upp á að bjóða. Hjónin segja víðáttu íslenskrar náttúru vera einstakt aðdráttarafl og í algjörum sérflokki.