Bæting Daníel Ingi Egilsson stórbætti sinn besta árangur í langstökki.
Bæting Daníel Ingi Egilsson stórbætti sinn besta árangur í langstökki. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
FH-ingurinn Daníel Ingi Egilsson hlaut gullverðlaun í langstökki á Copenhagen Athletic Games-mótinu í Kaupmannahöfn í gærkvöldi þegar hann stórbætti eigin árangur í greininni. Daníel stökk lengst 7,92 metra, sem er bæting um 31 sentímetra

Frjálsar

FH-ingurinn Daníel Ingi Egilsson hlaut gullverðlaun í langstökki á Copenhagen Athletic Games-mótinu í Kaupmannahöfn í gærkvöldi þegar hann stórbætti eigin árangur í greininni.

Daníel stökk lengst 7,92 metra, sem er bæting um 31 sentímetra. Var hann aðeins átta sentímetrum frá 29 ára gömlu Íslandsmeti Jóns Arnars Magnússonar. Fyrir keppnina í gærkvöldi átti Daníel best 7,61 metra.

FH-ingurinn hefur verið á miklu flugi undanfarna mánuði og stórbætti hann á dögunum 12 ára gamalt Íslandsmet Kristins Torfasonar í þrístökki innanhúss er hann stökk 15,49 metra.

Kolbeinn Höður Gunnarsson átti einnig gott gærkvöld, en hann endaði í öðru sæti í 100 metra hlaupi. Hann byrjaði á að hlaupa á 10,45 sekúndum í undanúrslitunum, en Íslandsmetið sem hann deilir með Ara Braga Kárasyni er 10,51 sekúnda. Meðvindur reyndist of mikill til að tíminn teljist sem Íslandsmet, en Kolbeinn hefur í þrígang á undanförnum vikum hlaupið undir Íslandsmeistaratímanum. FH-ingurinn hljóp á 10,58 sekúndum í úrslitum.

Kolbeinn náði ekki sama flugi í 200 metra hlaupi, en þar hafnaði hann í fjórða sæti á tímanum 21,56 sekúndur. Er það rúmlega hálfri sekúndu frá hans besta árangri í greininni.

Irma Gunnarsdóttir úr FH varð önnur í langstökki er hún stökk 6,35 metra. Var hún aðeins fimm sentímetrum frá sínum besta árangri í greininni. Birna Kristín Kristjánsdóttir varð sjötta með stökk upp á 5,94 metra.

Aníta Hinriksdóttir úr ÍR hljóp sitt besta hlaup á árinu er hún kom fimmta í mark í 800 metra hlaupi. Hljóp hún á 2:04,61 sekúndu, eða rúmum fjórum og hálfri sekúndu frá Íslandsmeti sínu í greininni. Hún átti áður 2:05,73 á þessu ári.

Þá hafnaði ÍR-ingurinn Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir í sjöunda sæti í 200 metra hlaupi á tímanum 24,32 sekúndur. Var hún tæpri hálfri sekúndu frá sínum besta tíma, 23,45 sekúndum.

johanningi@mbl.is