Framleiðni Líklega ekki vinsælasta orðið í heilbrigðisþjónustu en aukin framleiðni hefur jákvæðar afleiðingar í för með sér ef vandað er til verka.
Framleiðni Líklega ekki vinsælasta orðið í heilbrigðisþjónustu en aukin framleiðni hefur jákvæðar afleiðingar í för með sér ef vandað er til verka. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Klara Ósk Kristinsdóttir klaraosk@mbl.is Horft er á heilbrigðiskerfið út frá röngum forsendum að mati Þórarins Hjartarsonar sem skilaði á dögunum mastersritgerð í opinberri stjórnsýslu. Í ritgerðinni gerði hann þarfagreiningu á Landspítalanum með sérstöku tilliti til mannafla.

Klara Ósk Kristinsdóttir

klaraosk@mbl.is

Horft er á heilbrigðiskerfið út frá röngum forsendum að mati Þórarins Hjartarsonar sem skilaði á dögunum mastersritgerð í opinberri stjórnsýslu. Í ritgerðinni gerði hann þarfagreiningu á Landspítalanum með sérstöku tilliti til mannafla.

Þórarinn segir allt benda til þess að ekki sé nægur mannafli á Landspítalanum. Þrátt fyrir það sé útivistun á þjónustu ekki endilega til að bæta stöðuna.

Niðurstaðan er því sú að fara þurfi í víðtækar kerfisbreytingar sem geri kleift að „hámarka nýtingu mannauðs“ líkt og Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans og einn viðmælanda í ritgerðinni, bendir á, enda sé óbreytt ástand ekki viðunandi og muni leiða til aukins vanda.

Að mati Þórarins er það „ekki hlutverk stjórnvalda að pæla of mikið í sjúklingum.“ Auðvitað eigi að halda rétti þeirra til streitu en mikilvægast er, að mati Þórarins, að setja heilbrigðisstarfsfólk í forgrunn á allri þjónustu. Á þeirri forsendu færir hann rök fyrir niðurstöðu sinni um að fara þurfi í kerfisbreytingar, gera árangurstengingar og færa kerfið í svokallað DRG-kerfi.

Innleiðing DRG-kerfis hefur borið góðan árangur í Svíþjóð sem og annars staðar í heiminum, en kerfið hefur átt æ meiri vinsældum að fagna síðastliðinn áratug.

DRG-kerfi

Um er að ræða sjúkdómsmiðað flokkunarkerfi þar sem starfsemin er skilgreind og gögn nýtt til þess að meta kostnað fyrir þjónustuna. Er þetta þannig ákveðið kostnaðar- og framleiðslumælikerfi sem notað er til að takast á við óljósar kostnaðargreiningar innan heilbrigðiskerfa og nýtt til þess að greina raunframleiðslu og nauðsynlega fjármögnun.

Hefur kerfið reynst vel við að auka framleiðni og skilvirkni, bæta yfirsýn og gagnsæi, fækka biðlistum og auka gæði þjónustu. Það skapar hvata fyrir starfsfólk til þess að sinna þjónustunni betur og veitir yfirstjórnum heildarsýn á rekstur þjónustunnar.

Þó kerfið gefi góða raun fylgja því bæði kostir og gallar. Þrátt fyrir það telur Þórarinn innleiðingu DRG-kerfisins best til þess fallna að bæta framleiðni á spítalanum en Þórarinn kannaði aðrar leiðir við gerð ritgerðarinnar sem ekki hafa sýnt jafn góðan árangur.

Það þýðir þó ekki að hlaupið sé að því að nota kerfið hér á landi, enda þarf að greina mismunandi hvata sem hafa með íslenskar aðstæður að gera til þess að það reynist sem best, að sögn Þórarins. Rannsóknir benda til þess að erfitt sé að innleiða kerfið án þess að búa til öfugsnúna hvata, en þeir myndast þegar heilbrigðisstarfsfólk hefur hvata af því að oftúlka kóðana sem notaðir eru. Rannsóknir sýna þó að mun ólíklegra er að það eigi sér stað innan opinberra kerfa.

Til útskýringar nefnir Þórarinn sem dæmi að þó við viljum minnka kostnað og auka framleiðni þá getur heilbrigðisstarfsmaður haft hag af því að taka fólk inn í mismunandi inngrip sem sjúklingurinn þarf kannski ekki á að halda. Framleiðni getur þannig aukist án þess að vera til hagsbóta. Þetta megi þó koma í veg fyrir með því að greina hvatana vel og vanda undirbúningsvinnuna að sögn Þórarins.

Í kjölfar ritgerðarinnar fékk Þórarinn starfstíma hjá landlæknisembættinu til þess að klára námið sitt. Þar hefur hann verið að vinna í starfsleyfisskráningum en aðstoðar nú við upplýsingagjöf um DRG-kerfið, enda orðinn vel kunnugur kerfinu eftir ritgerðarvinnuna.

Höf.: Klara Ósk Kristinsdóttir