Björn Zoëga
Björn Zoëga
Björn Zoëga, forstjóri Karólínska háskólasjúkrahússins, lýsti í viðtali, sem birtist í Viðskiptamogganum í gær, hvernig þar hefði verið ráðist í að eyða biðlistum.

Björn Zoëga, forstjóri Karólínska háskólasjúkrahússins, lýsti í viðtali, sem birtist í Viðskiptamogganum í gær, hvernig þar hefði verið ráðist í að eyða biðlistum.

Það var ekki einhugur um að þetta væri góð hugmynd og þegar við bárum þetta undir fleiri stjórnendur virtust sumir á þeirri skoðun að biðlistar væru æskilegir. Þeir gæfu til kynna að fólk kynni að meta þjónustuna og leitaði til okkar frekar en annarra,“ segir Björn í viðtalinu og bætir við punkti sem ætti að blasa við: „Ég er hins vegar sannfærður um að batahorfur fólks séu betri eftir meðferð en fyrir.“

Það ætti ekki að vefjast fyrir neinum að líkur á bata aukast við að fara í meðferð, hvort sem það er aðgerð eða annars konar aðhlynning. Það getur verið lýjandi og sársaukafullt að fá ekki bót meina sinna og jafnvel valdið því að fólk geti ekki sinnt störfum sínum. Það fer mikið í súginn á meðan fólk hangir á biðlistum í heilbrigðiskerfinu.

Í viðtalinu kemur fram að innan við ár sé síðan hafist var handa á sjúkrahúsinu. Þá voru biðlistar af þessu tagi 88 talsins, en nú eru þeir aðeins sex. „Þetta var hægt án þess að keyra fólk gjörsamlega út þótt þetta hafi reynt á. Þetta hefur hins vegar gert okkur stoltari og einbeittari í að ná framúrskarandi árangri,“ segir Björn við Viðskiptamoggann.

Þetta er sannarlega fordæmi til eftirbreytni.