Eldhúsdagur Líflegar umræður voru meðal þingmanna á Alþingi í gærkvöldi.
Eldhúsdagur Líflegar umræður voru meðal þingmanna á Alþingi í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Eggert
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, tæpti meðal annars á húsnæðisvanda og fjölgun innflytjenda í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í gær. „Reykjavíkurborg lagði upp með þá hugmyndafræði að skipuleggja nýja íbúðabyggð nánast eingöngu á þéttingarreitum

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, tæpti meðal annars á húsnæðisvanda og fjölgun innflytjenda í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í gær. „Reykjavíkurborg lagði upp með þá hugmyndafræði að skipuleggja nýja íbúðabyggð nánast eingöngu á þéttingarreitum. Lóðaverð margfaldaðist og verktakar neyddust til að byggja mun dýrara húsnæði en annars hefði risið,“ sagði Áslaug og fór yfir að frá því að núverandi ríkisstjórn tók við hafi 39 þúsund manns flutt til landsins, sem nemur fjölda fólks í Kópavogsbæ. Hún bætti þá við að ef svo fer sem horfir bætast við 20 þúsund manns á næstu fjórum árum, sem nemur fjölda fólks á Akureyri.

Hún áréttaði að Ísland þarf á fleiri Íslendingum að halda og hrósaði íslensku samfélagi og ríkisstjórninni fyrir hvernig staðið hefur verið að því að taka á móti þeim mikla fjölda sem hingað hefur komið. „En þegar við bætist heill Kópavogur og Akureyri á örfáum árum verðum við að staldra við. Aukningin í fjölda þeirra sem hingað koma er svo hröð að það reynir verulega á innviði. Erfitt er að finna húsnæði og álag í skólum og heilbrigðisþjónustu er orðið svo mikið að þjónustan er farin að líða fyrir það,“ sagði hún.

„Staðan er sú að fjölgunin getur ekki verið í þeim veldisvexti sem við höfum séð síðustu mánuði og misseri. Ef við ráðum ekki við verkefnið er voðinn vís. Hætta skapast á andúð og að í þessu litla landi myndist togstreita sem við viljum ekki.“

„Samfylkingin hefur reynt að stappa stálinu í hæstvirta ríkisstjórn, sem ber sig illa, lætur raunar eins og hún stýri engu og geti þess vegna enga ábyrgð tekið á aðstæðum. Á meðan við höfum talað kjark og von í þjóðina,“ sagði Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, í ræðu sinni.

Kristrún sagði ákall eftir aðgerðum fyrir fólkið í landinu standa hvað mest upp úr að liðnu þingári. Hún ítrekaði þá mikilvægi þess að vinna gegn verðbólgunni og að verja heimilisbókhaldið hjá fólki. „Nú fyrir þinglok höfum við stillt upp stuttum verkefnalista. Þrjú einföld verkefni sem hægt er að fara í strax: Vaxtabótaauki, leigubremsa og ívilnun til uppbyggingar, allt fjármagnað að fullu með því að loka ehf.-gatinu,“ sagði Kristrún.

Jafnframt ítrekaði hún að Samfylkingin myndi stjórna landinu með öðrum hætti ef flokkurinn væri í ríkisstjórn og sagði Samfylkinguna hafa það sem viðmið að gera ekki tillögu um eina krónu í útgjöld án þess að tvær krónur komi á móti til að vinna gegn verðbólgu.

Túlka neyðaróp fólks sem gleðióp

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, fór hörðum orðum um ríkisstjórnina í ræðu sinni. Sagðist Inga aldrei hafa upplifað jafn mikið vonleysi og sorg í íslensku samfélagi eins og nú og að ríkisstjórnin hunsi neyðaróp landsmanna.

„Þessi ríkisstjórn hefur stungið fingrunum í eyrun og kosið að túlka neyðarópin sem gleðióp þeirra sem hafa það að meðaltali alveg rosalega gott,“ sagði Inga.

Inga sagðist kvíða því á hverjum degi að opna póstinn sinn þar sem hún fengi tugi tölvupósta á hverjum degi frá fátæku fólki í neyð.

Kallaði Inga eftir því að ríkisstjórnin myndi hætta að skattleggja fátæka. „Ágæta ríkisstjórn, í guðanna bænum farið að vakna og farið að hjálpa þeim sem raunverulega eru að kalla á hjálp og eru að drukkna.“