Ráðstefna Fræðimenn og stjórnmálamenn fjölluðu um breytt öryggismál á norðurslóðum á ráðstefnu sem haldin var í Þjóðminjasafninu í gær.
Ráðstefna Fræðimenn og stjórnmálamenn fjölluðu um breytt öryggismál á norðurslóðum á ráðstefnu sem haldin var í Þjóðminjasafninu í gær. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Þorlákur Einarsson thorlakur@mbl.is Jónas Gunnar Allansson, skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, segir að ekki sé gagnlegt að endurvekja kaldastríðshugsunarhátt. Fleirum sé nú til að dreifa og nefnir hann meðal annars Kína og Indland.

Þorlákur Einarsson

thorlakur@mbl.is

Jónas Gunnar Allansson, skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, segir að ekki sé gagnlegt að endurvekja kaldastríðshugsunarhátt. Fleirum sé nú til að dreifa og nefnir hann meðal annars Kína og Indland.

Þetta kom fram á ráðstefnu um breytt öryggismál á norðurslóðum sem Alþjóðastofnun Háskóla Íslands og Varðberg héldu í Þjóðminjasafninu í gær þar sem fjöldi innlendra og erlendra fræðimanna tók til máls. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra flutti opnunarávarp og sagði meðal annars að norðurslóðir yrðu ekki undanskildar í átökum framtíðar. Það væru hagsmunir Íslands að spennustigi væri haldið lágu á norðurhveli en vísbendingar um hernaðaruppbyggingu Rússa á svæðinu yllu áhyggjum.

Jónas sagði ennfremur í erindi sínu að Atlantshafsbandalagið hefði sýnt mikla getu og seiglu á undanförnum mánuðum. Jónas, sem hefur reynslu af starfi NATO, minnist ekki álíka virkni í samvinnu innan bandalagsins, bæði á pólitísku og hernaðarsviði, og nú á sér stað. Styrkur NATO felist ekki síst í því að þar fá ólík sjónarmið að komast að enda um að ræða virkt samstarf lýðræðisríkja.

Hann segir að áður hafi þriðja grein Atlantshafssáttmálans stundum gleymst. Hún kveður á um að aðildarríki eigi að sinna eigin viðbúnaðargetu og nú sé aukin áhersla á að efla bæði hernaðarlega og borgaralega viðnámsgetu. Hann greinir að nú sé verkaskipting skýrari, það er hvaða verkefni NATO eigi að taka að sér og þau sem aðrar alþjóðastofnanir, líkt og Evrópusambandið, annist á þessum viðsjárverðu tímum.

Brugðist við nýjum ógnum

Á ráðstefnunni var velt upp spurningum um hvernig árás Rússa í Úkraínu hefur áhrif á þennan heimshluta. Í samtali við Morgunblaðið sagði Jónas að mikil vinna hefði átt sér stað í endurmati varnarmála innanlands sem teygi sig allt aftur til 2014 og innlimunar Rússa í Krímskaga. Þjóðaröryggisstefna skapar mikilvægan ramma utan um þessi mál, sem er grunnurinn að þeirri vinnu. Unnið sé að því að geta brugðist betur við fjölþátta ógnum sem eru ekki endilega bundnar við hernað heldur gæti verið netárás, skemmdarverk, áróður eða njósnir. Hefur viðnám og viðbragð við slíkum ógnum verið eflt.

Hann telur inngöngu Finnlands í NATO og væntanlega aðild Svía styrkja bandalagið enn frekar. Það breytir landslaginu að Eystrasalt allt verður meira og minna umlukið bandalagsríkjum, sem þrengir að stöðu Rússa þar. Óvíst sé nú hvort þetta leiði til aukinna umsvifa Rússa á Norður-Atlantshafi, sem svo aftur hafi áhrif á stöðu Íslands. Erfiðleikar Rússa í Úkraínu gætu þó aukið enn hernaðarlegt mikilvægi Norðurflota þeirra.

Jónas bendir á að töluvert samstarf meðal Norðurlandaþjóða í hernaðarmálum eigi sér þegar stað, þar sem Íslendingar komi að borgaralegum verkefnum. Þessi samvinna geri Norðurlandaþjóðirnar að enn öflugri bandamönnum innan NATO.

Höf.: Þorlákur Einarsson