Lilja Guðný Aðalsteinsdóttir fæddist á Akureyri 15. október 1933. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri 30. maí 2023.

Foreldrar hennar voru Halldóra Davíðsdóttir húsmóðir, frá Grýtu í Eyjafirði, f. 1.5. 1906, d. 14.1. 1992, og Aðalsteinn Bjarnason trésmiður, frá Hlíðarhaga í Eyjafirði, f. 7.1. 1887, d. 13.7. 1947.

Systkini Lilju voru Heiða Svanhvít, f. 13.1. 1935, d. 20.1. 2011, og Bjarni, f. 10.6. 1942, d. 29.9. 2021.

Lilja giftist Guðbirni Péturssyni frá Neðri-Rauðalæk, þau slitu samvistir. Sonur þeirra er Gunnar Aðalsteinn, f. 19.9. 1951, maki Erla Sigurbjörg Sigursveinsdóttir, f. 25.12. 1950. Börn þeirra: Kristjana Hildur, f. 3.7. 1971, Gunnar Davíð, f. 15.12. 1975, og Lilja Íris, f. 3.8. 1979.

Seinni eiginmaður Lilju var Reynir Vilhjálmsson frá Hrísey, f. 29.8. 1921, d. 1.5. 1982. Börn þeirra eru: 1) Vilhjálmur Sævar, f. 22.5. 1958, hann kvæntist Huldu Kristjánsdóttur, f. 17.11. 1958, þau slitu samvistir. Börn þeirra eru Einar Logi, f. 8.5. 1979, Sara, f. 1.3. 1983, og Brynja, f. 3.3. 1992. 2) Árný Helga, f. 9.3. 1962, maki Ómar Gunnarsson, f. 3.4. 1964, börn þeirra eru Auður, f. 2.5. 1988, Unnur, f. 18.11. 1990, og Reynir, f. 30.6. 1999. 3) Dóra Björk, f. 10.4. 1965, maki Gunnar M. Arnþórsson, f. 12.8. 1965, dætur þeirra Kristrún, f. 16.7. 1990, og Erla Hildur, f. 17.12. 1993.

Barnabörnin eru 11 talsins og barnabarnabörnin eru orðin 13.

Eftirlifandi sambýlismaður Lilju frá 1986 er Tómas Njálsson frá Hrísey, f. 17.6. 1933.

Útförin fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 8. júní 2023, klukkan 13.

Elsku amma Lilja var algjörlega frábær kona og hennar er vissulega sárt saknað. Þegar ég hugsa um ömmu Lilju þá flæða fram góðar minningar og alveg hellingur af sögum, en hún var einstaklega hæfileikarík í því að segja sögur og halda uppi samræðum. Það var alltaf svo notalegt að vera í kringum ömmu, hún hafði þetta hlýja faðmlag sem var svo gott að njóta. Amma hefur sagt og kennt mér svo margt sem hefur gefið mér visku og góðar minningar. Hún var dugleg að segja mér að hún væri sko mjög dugleg að hlaupa upp í 100 og hún hefði alltaf verið liðug, en amma gat langt fram eftir aldri farið í splitt og fannst mér það alltaf mjög flott.

Ég hlakkaði alltaf til að heimsækja ömmu hvort sem það var í Hrísey eða þegar hún var flutt til Akureyrar. Amma var mikill sælkeri og það var alveg öruggt að hún átti alltaf eitthvað með kaffinu. Þegar ég var krakki heimsóttum við ömmu og afa í Hrísey á hverju sumri og dvöldum þar nokkra daga. Amma vann í búðinni og það var mjög spennandi að heimsækja hana þar. Það var fastur liður eftir kvöldmat hjá henni að fá að kíkja í frystikistuna í búrinu og velja sér íspinna og oft varð popppinni í bleiku bréfi fyrir valinu. Amma gerði heiðarlega tilraun til að smita mig af áhuga sínum á prjónaskap, en ég fékk ein jólin fullan poka af dokkum í jólagjöf frá henni. Það náði þó ekki að kveikja nægilegan áhuga. Hún náði aftur á móti að smita mig af því að elska sólina, sem virðist í öll þessi ár hafa verið mun betri á Norðurlandi, eða að minnsta kosti var nánast alltaf sól að hennar sögn þegar ég hringdi í hana. Amma hafði alltaf áhuga á fólkinu sínu og var dugleg að spyrjast fyrir um alla, sem mér þótti svo virðingarvert. Ég get sagt svo margar sögur af ömmu sem ég mun geyma í kolli mér, en það er nokkuð ljóst að langflestar af þeim fá mig til að brosa.

Elsku fjölskylda, minnumst ömmu með gleði í hjarta. Sumarið er fram undan og það var hennar tími, njótum sólarstunda, segjum sögur og höfum gaman af lífinu, en það er nokkuð sem væri í anda ömmu. Mig langar að minnast á elsku afa Tomma sem ég tel að sé einn af þessum eðalmönnum sem ávallt er hægt að treysta á, hann er þvílíkur klettur og hefur staðið sig svo frábærlega í gegnum veikindi ömmu. Afi Tommi, þú ert einstakur maður og við fjölskyldan erum þér afskaplega þakklát.

Með góðri kveðju,

Kristjana Hildur.