Landað Strandveiðibátur kemur til löndunar á Arnarstapa. Ef svo heldur fram sem horfir verður búið að klára strandveiðipottinn um miðjan júlí eins og á síðasta ári, þá lauk strandveiðunum 21. júlí.
Landað Strandveiðibátur kemur til löndunar á Arnarstapa. Ef svo heldur fram sem horfir verður búið að klára strandveiðipottinn um miðjan júlí eins og á síðasta ári, þá lauk strandveiðunum 21. júlí. — Morgunblaðið/Alfons Finnsson
Flest bendir til þess að strandveiðar verði stöðvaðar um miðjan næsta mánuð vaxi afli strandveiðibátanna milli ára í júní eins og í maí. Þegar júní lýkur gætu bátarnir verið búnir að landa 79% af þeim þorskafla sem veiðunum er ráðstafað

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Flest bendir til þess að strandveiðar verði stöðvaðar um miðjan næsta mánuð vaxi afli strandveiðibátanna milli ára í júní eins og í maí. Þegar júní lýkur gætu bátarnir verið búnir að landa 79% af þeim þorskafla sem veiðunum er ráðstafað.

Í maímánuði síðastliðnum tókst 666 strandveiðibátum að landa að meðaltali 656 kílóum af þorski í róðri. Í heild náðu bátarnir 3.501 tonni af þorski, sem er 35% af heimildum í þorski ætlað strandveiðum. Um er að ræða 6% meiri þorskafla í maí en á strandveiðum í sama mánuði á síðasta ári. Strandveiðibátum sem lönduðu afla í maí fjölgaði um 54 milli ára eða 9%, en þorskafli í löndun jókst aðeins um 21 kíló eða rétt rúm 3%.

4.400 tonn í júní?

Í júní á síðasta ári landaði 671 bátur strandveiðiafla, en þann mánuð eru yfirleitt fleiri strandveiðibátar á veiðum en í maí. Ástæðurnar eru meðal annars hagstæðara veðurfar og þorskurinn genginn á miðin út af Norður- og Austurlandi.

Alls tókst strandveiðibátunum að landa 4.141 tonni af þorski í 6.310 löndunum í júní á síðasta ári. Nú hafa 718 bátar fengið útgefið strandveiðileyfi, en ekki er útilokað að fleiri gætu bæst við. Vaxi þorskafli strandveiðibátanna um 9% milli ára í júní eins og í maí gætu bátarnir náð að landa tæplega 4.400 tonnum af þorski. Gerist það munu bátarnir hafa landað 7.900 tonnum þegar þessum mánuði lýkur og eru þá aðeins eftir 2.100 tonn sem á að duga fyrir bæði júlí og ágúst, en miðað við aflabrögð það sem af er strandveiðitímabili mun aðeins þurfa um 3.200 landanir til að ná þeim afla sem eftir verður.

Aldrei hafa strandveiðar haft jafn stóran hluta af heildarkvóta í þorski og nú og er því talið að svigrúm stjórnvalda til að auka við heimildir strandveiðibáta í þorski sé mjög takmarkað. Að óbreyttu má því reikna með að um miðjan júlí verði búið að landa þeim tíu þúsund tonnum af þorski sem veiðunum er ráðstafað og er Fiskistofu, samkvæmt reglugerð, skylt að stöðva veiðarnar þegar heimildirnar klárast.

Misskipt þróun

Sem fyrr segir hefur bátum sem landa afla í maí fjölgað um 54 frá sama mánuði í fyrra, fjölgunin er þó mjög svæðisbundin. Bátum fjölgar mest á svæði D, sem nær alla leið frá Hornafirði í suðaustri til Borgarbyggðar í vestri, en þar fjölgar strandveiðibátum sem landa afla í maí um 38, í 141.

Samdráttur er hins vegar um sjö báta, í 80, á svæði C, sem nær frá Þingeyjarsveit til Djúpavogshrepps, en á þessu svæði hefur strandveiðitímabilið byrjað seinna og finna þessir bátar því meira fyrir því þegar veiðar eru stöðvaðar áður en veiðitímabili lýkur. Hefur verið sagt frá strandveiðisjómönnum sem hafa fært sig af þessu svæði á hagstæðari svæði.

Bátar ekki ávísun á róðra

Þá fjölgaði bátum sem lönduðu í maí úr 302 á síðasta ári í 323 á svæði A, frá Eyja- og Miklaholtshreppi til Súðavíkurhrepps, og strandveiðibátum á svæði B, sem er frá Strandabyggð að Grýtubakkahreppi, fjölgaði úr 120 í 122.

Strandveiðibátarnir eru smágerðir og því er sókn þeirra háð veðurfari í miklum mæli, auk þess sem oft er einn um borð og geta því til dæmis veikindi haft veruleg áhrif á gang veiða. Þess vegna er ekki línulegt samhengi milli fjölda báta og fjölda róðra.

Í maí fjölgaði til að mynda bátum á svæði D um 37% frá maí 2022 en róðrum um aðeins 13%. Á svæði B fjölgaði bátum um 2% en róðrum fækkaði um 7% og á svæði C fækkaði bátum um 8% en róðrum fjölgaði um 11%, en á svæði D um 7% en róðrum um aðeins 1%.

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson