Vignir Vatnar Stefánsson
Vignir Vatnar Stefánsson
Áhugi á skák hefur aukist umtalsvert á undanförnum árum að sögn Vignis Vatnars Stefánssonar stórmeistara í skák. Hann ákvað því að taka af skarið og opna heimasíðuna vignirvatnar.is þar sem hann kemur til með að bjóða upp á skákkennslu og námskeiðahald á netinu

Klara Ósk Kristinsdóttir

klaraosk@mbl.is

Áhugi á skák hefur aukist umtalsvert á undanförnum árum að sögn Vignis Vatnars Stefánssonar stórmeistara í skák. Hann ákvað því að taka af skarið og opna heimasíðuna vignirvatnar.is þar sem hann kemur til með að bjóða upp á skákkennslu og námskeiðahald á netinu. Til að halda utan um reksturinn hefur hann stofnað félagið Vignir Vatnar ehf.

Vignir segir hugmyndina hafa vaknað því hann langaði til að gefa fólki tækifæri til að verða betra í skák. Rifjar hann í því samhengi upp að á yngri árum þurfti hann reglulega að ferðast um allar trissur til þess að sækja sér skákkennslu. Kennslan var þó ekki alltaf frá skákmeistara líkt og Vignir hefði gjarnan viljað, hann greip því tækifærið og ákvað bæta úr því fyrir upprennandi skákmeistara og áhugafólk um skák.

Kennsla á síðunni er þannig ekki einungis fyrir byrjendur eða lengra komna, heldur alla þá sem áhuga hafa á því að læra eða verða betri í skák. Um 300 kennslumyndbönd verða aðgengileg á síðunni þegar hún verður opnuð formlega á mánudaginn og stefnir Vignir á að setja inn 20 ný kennslumyndbönd á viku. Þá verða haldin skákmót fyrir áskrifendur auk þess sem Vignir stefnir á að bjóða upp á námskeið fyrir börn og fullorðna.

Í tilefni opnunarinnar hefur Vignir efnt til skákmóts sem fram fer á mánudaginn. Áhuginn á mótinu er mikill en þegar hafa um 50 manns skráð sig til leiks á vignirvatnar.is.

Höf.: Klara Ósk Kristinsdóttir