Rósa Antonsdóttir fæddist á Hjalteyri í Eyjafjarðarsveit 27. febrúar 1943. Hún lést á sjúkrahúsinu á Akureyri 30. maí 2023 í faðmi fjölskyldunnar.

Foreldrar hennar voru Anton Sigurður Magnússon, f. 28. febrúar 1922, d. 24. maí 1967, og Jóhanna Elín Sigurjónsdóttir, f. 12. ágúst 1921, d. 9. apríl 1973.

Systkini hennar eru þau Sigtryggur Birgir, f. 7. september 1945, Ester Jóhanna, f. 22. desember 1949, Anna Sigríður, f. 23. september 1951, og Magnús Jón, f. 28. apríl 1960.

Rósa giftist Þóroddi Hjaltalín, f. 7. júní 1943 þann 27. febrúar 1964. Foreldrar Þórodds voru þau Jakob Gunnar Hjaltalín, f. 2. júlí 1905, d. 25. apríl 1976, og Ingileif Jónsdóttir Hjaltalín, f. 7. mars 1904, d. 14. febrúar 1979.

Börn Rósu og Þórodds eru: 1) Eygló Hjaltalín, f. 15. ágúst 1965. 2) Jóhanna Hjaltalín, f. 3. apríl 1968, maki Jörgen Sigurðsson, f. 10. maí 1976, börn Jóhönnu eru: a) Alda Karen Ólafsdóttir Hjaltalín, f. 3. október 1993, sambýliskona Katherine Lopes, f. 19. maí 1993. b) Ólafur Þór Hjaltalín, f. 15. júlí 2000, sambýliskona Anna Soffía Arnardóttir Malmquist, f. 10. apríl 1998, sonur þeirra er Birnir Þór Hjaltalín Malmquist, f. 7. apríl 2022. Sonur Jörgens er a) Alexander, f. 20. febrúar 2009. 3) Þóroddur Hjaltalín, f. 4. ágúst 1977, maki Anna Dögg Sigurjónsdóttir, f. 24. júní 1978, börn þeirra eru: a) Anton Orri Hjaltalín, f. 4. október 2004, b) Arnór Bjarki Hjaltalín, f. 10. september 2006, Aldís Dögg Hjaltalín, 28. janúar 2012, d) Jakob Fannar Hjaltalín, f. 31. maí 2014.

Rósa ólst upp á Akureyri og bjó þar alla tíð. Hún vann lengst af á verksmiðjunum en einnig vann hún sem gangavörður í Síðuskóla og við afgreiðslu í versluninni Hagkaup. Rósa var mikill Þórsari og starfaði mikið fyrir klúbbinn og vann ötult starf í kvennadeild Þórs. Rósa starfaði einnig í samtökunum SÁÁ og fyrir Sálarrannsóknafélagið á Akureyri.

Útför Rósu fer fram frá Glerárkirkju í dag, 8. júní 2023, og hefst athöfnin kl 10.

Elsku yndislega mamma og tengdamamma.

Það er skrýtin tilfinning að vera með hjartað fullt af sorg en á sama tíma yfirfullt af þakklæti.

Sorg yfir að fá ekki að hafa þig hjá okkur lengur, þakklæti fyrir allt sem þú varst okkur, alltaf með trúna á lífið, jákvæðni, gleði, hlátur, ást og kærleika að leiðarljósi.

Það var ekki sjaldan sem þú varst undanfarið búin að tala um að við gætum nú örugglega farið bara einu sinni enn í sumarbústað eða jafnvel til Benidorm. En bæði þú og við vissum að heilsan þín var ekki sammála því.

En öll ferðalögin okkar voru bara eitt af því ótalmörgu sem við elskuðum að gera saman.

Þú lifðir fyrir fjölskylduna fram á þína síðustu stund og munum við ásamt barnabörnunum þínum búa að því alla ævi.

Takk fyrir allt elsku Rósin okkar. Þín verður sárt saknað.

Jóhanna og Jörgen.

Elsku Rósa mín. Það sem ég var heppin að fá þig fyrir tengdamömmu, ég var ekki nema 17 ára þegar ég fór að venja komur mínar í Grenivellina til ykkar. Ég held að í eina skiptið sem ég hef fengið frá þér illt auga hafi verið þegar við Doddi bárum sængina hans út og hann sagðist ætla að búa hjá mér. Ég var að stela litla drengnum þínum, en þú varst fljót að jafna þig og höfum við verið bestu vinkonur síðan. Ég eignaðist aukamömmu sem hefur verið og mun alltaf vera ein af mikilvægustu konum og fyrirmyndum í lífi mínu. Hlýja þín og einlægur áhugi á öllu því sem ég hef tekið mér fyrir hendur hefur verið ómetanlegur styrkur og mun ég alltaf búa að því. Þú ert mesta hörkutól sem ég hef kynnst, það er alveg sama hvað hefur bjátað á, þú varst alltaf jákvæð og bjartsýn og lést ekkert stoppa þig. Þú komst eins fram við alla, sama hvort það var forstjóri eða kerrutæknir, allir fengu frá þér sama viðmót og þú tókst öllum opnum örmum.

Börnin mín hafa verið svo heppin að eiga ömmu sem alltaf hafði tíma til að gefa þeim, spila við þau, lesa með þeim og fíflast með þeim endalaust. Þær eru ófáar stundirnar sem þau hafa varið hjá ömmu og afa í Lindasíðu og yfirleitt heyrast hlátrasköllin út á götu og ég held að þú hafir skemmt þér mest. Þau eiga eftir að sakna þess að skamma þig fyrir að svindla á þeim í spilum, hringja í þau og gera símaat og grínast með þeim. Við eigum eftir að sakna hlýju þinnar og visku og þess einlæga áhuga sem þú hefur alltaf sýnt þínu fólki og reyndar bara öllum ef út í það er farið. Við elskum þig og þú okkur, það elskuðu þig reyndar allir sem voru svo heppnir að kynnast þér. Það verður erfitt að fylla það skarð sem þú skilur eftir en við munum halda minningu þinni á lofti svo lengi sem við lifum.

Nú kaupi ég mér stjörnupopp og hugsa til þín elsku Rósa.

Anna Dögg
Sigurjónsdóttir.

Við systkinin viljum minnast frænku okkar, Rósu Antonsdóttur, í nokkrum orðum. Mæður okkar voru systrabörn, en líka uppeldissystur, sem aldar voru upp á Hjalteyri við Eyjafjörð hjá móðurbróður sínum, Sigtryggi Einarssyni, og konu hans, Rósu. Kærleikur var mikill meðal systranna, þótt þær byggju hvor á sínum landshlutanum, önnur á Akureyri en hin í Reykjavík. Við börnin kynntumst strax í æsku, þrátt fyrir að samgöngur væru ólíkar nútímanum.

Rósa þurfti snemma að koma suður til lækninga og gisti hjá okkur og þá myndaðist traustur þráður vináttu milli okkar. Norðurferðir urðu líka fjölmargar og gistingar tíðar því mamma heimsótti oft systur sína.

Báðir foreldrar Rósu féllu frá ungir, Anton 45 ára og Jóhanna tæplega 52 ára. Þá tók hún við forystuhlutverki sinnar fjölskyldu, en hún var elst fimm systkina. Hún var einstaklega góð heim að sækja sem ýtti undir næstu heimsókn. Aðalkostir Rósu voru glaðværð og hversu auðvelt hún átti með mannleg samskipti og að sýna einlægni og umhyggju, sem gerði auðvelt og eftirsóknarvert að umgangast hana. Ekki má gleyma orðheppninni og hversu fljót hún var til svars og hvernig henni tókst að snúa flestu upp í grín og gamanmál, sem létti andrúmsloftið með hlátri.

Rósa naut sín á sínu heimili í því hlutverki sem hún skapaði sér og með því fólki sem hún hafði sér við hlið.

Í lífi fólks skiptast ætíð á skin og skúrir og Rósa fór ekki varhluta af veikindum eða erfiðleikum. Enginn fær sín veðrabrigði umflúin. Samt er hægt að segja að líf Rósu væri með þeim blæ sem einkennir byggðina undir brekkubrúninni við Hafnarstræti þar sem fjölskylda hennar bjó áður fyrr. Þar sem Innbærinn og Oddeyrin mætast, þar sem horfa má til beggja átta til þessara höfuðbyggða gömlu Akureyrar. Þangað sem veturinn nær sjaldnast að koma. Þótt vindar blási að ofan eða norðan er nær lygnt og fram undan er Pollurinn, oftast sléttur, en stundum ísilagður, áður en afrennsli af hita bæjarins fór að renna þar til sjávar. Eins og veturinn næði aldrei alveg alla leið. Við minnumst Rósu með gleði, ekki bara skemmtileg, heldur var hún drengur góður.

Vottum Þóroddi og fjölskyldunni allri innilega samúð.

Fyrir hönd systkina minna, Sigtryggs og Þóreyjar,

Hildur G. Eyþórsdóttir.

Komið er að kveðjustund. Eftir rúmlega hálfrar aldar vináttu er svo margs að minnast. Elsku Rósa vinkona var alveg einstök manneskja og fer engin í sporin hennar, hún var með stórt hjarta og mikinn hlýleika og umvafði alla. Einnig var hún með húmorinn á réttum stað. Rósa var fljót að kynnast fólki og öllum þótti vænt um hana. Minningarnar er því svo ótal margar. Hæst ber fjölmargar útilegur í Vaglaskógi og þar áttum við okkar uppáhaldsstæði. Jafnvel var farið á fimmtudegi og stæði tekin frá, búið að sjóða hangikjötið, steikja kótiletturnar, að ég tali nú ekki um sviðin sem voru ómissandi hjá sumum. Fáir áttu grill á þessum tíma og þá var nauðsynlegt að pakka nóg af nesti, mat og drykk. Þá var troðið í bílinn og á toppgrindina farangri, börnum og allt í einni hrúgu. Keyrt var yfir Vaðlaheiði í rykmekki því allt var ómalbikað en það skemmdi ekki fyrir, því alltaf var gaman með Rósu sér við hlið. Börnin okkar Rósu léku sér saman í skóginum og eiga sjálf yndislegar minningar frá þessum tímum sem sannarlega ylja okkur nú þegar Rósa er farin frá okkur. Þá vorum við líka dugleg að ferðast öll saman erlendis á seinni árum, þótt íslenska sumarið hafi alltaf heillað mest. Ef við vorum ekki á ferðalagi út um hvippinn og hvappinn, þá mátti finna okkur vinina á dansleik í Sjallanum eða á Hótel KEA.

Rósa var sannur Þórsari og vann oft fyrir félagið á árum áður. Þá var kvennadeild Þórs sem við störfuðum fyrir og unnum handverk, héldum kökubasara og ýmislegt fleira í fjáröflunarskyni fyrir Þórsarana. Það var enginn skemmtilegri en Rósa.

Rósa átti yndislega fjölskyldu sem hún sinnti af mikilli ást og umhyggju. Rósa elskaði alla í kringum sig og allir elskuðu Rósu sem henni kynntust. Það var alltaf stutt í hláturinn og brosið, meira að segja fram á síðustu daga. Veikindi Rósu höfðu verið mikil en aldrei heyrði nokkur hana kvarta. Rósa var sannarlega hetja svo eftir var tekið.

Elsku Rósa, hjartans þakkir fyrir allt. Guð geymi þig.

Sjáumst í sumarlandinu.

Þínir vinir,

Heiða Björk og Hafþór.

Elsku Rósa.

Með sárum söknuði kveð ég þig mín kæra. Það voru forréttindi að fá að kynnast þér, þegar börnin okkar fóru að rugla saman reytum, og mikið sem við vorum stoltar af barnabörnunum okkar.

Þú varst hjartahlý, dugleg og algjör nagli í veikindum þínum sem oft tóku mikið á og aldrei sýndir þú uppgjöf. Ég minnist með gleði allra þeirra stunda sem við áttum saman og þær mun ég ávallt geyma.

Þú varst hetja í augum okkar allra, sýndir ótrúlegan styrk í veikindum þínum og kenndir okkur að gleði og kærleikur er það sem gildir.

Ég trúi því að þú hafir verið kölluð til starfa á æðri stöðum.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Elsku Doddi, börn, barnabörn og langömmudrengur, ég votta ykkur mína dýpstu samúð.

Hvíl í friði elsku Rósa og guð þig geymi, megum við öll öðlast styrk í sorginni.

Edda Björk
Rögnvaldsdóttir.