Finnur Hafsteinn Sigurgeirsson fæddist í Reykjavík 18. ágúst 1949. Hann lést 27. maí 2023.
Finnur var sonur Rannveigar Margrétar Gísladóttur, f. 1914, d. 2000, og Sigurgeirs Kristjánssonar, f. 1912, d. 1985. Systkini Finns eru Árni Sveinbjörn Árnason, f. 1944, d. 2010, og Hjördís Sveina Sigurgeirsdóttir, f. 1952.
Finnur bjó í Reykjavík mestan hluta ævi sinnar en einnig bjó hann á Akranesi, Vestmannaeyjum og Seyðisfirði með fjölskyldu sinni.
Börn Finns eru fjögur: Einar Örn, f. 1973, d. 2023, Bergrún, f. 1979, Gísli, f. 1984, og Jón Tómas, f. 1972. Að auki á Finnur stjúpson, Brand Sigurjónsson, f. 1970. Finnur á þrettán barnabörn og tvö barnabarnabörn.
Finnur starfaði lengst af við rekstur sjávarútvegsfyrirtækja auk þess að stunda ýmis önnur störf.
Útförin fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 8. júní 2023, klukkan 13.
Það er komið að kveðjustund. Finnur tengdafaðir minn er látinn. Ég á margar góðar minningar um Finn. Hann átti það stundum til að gista nokkrar nætur á Akranesi hjá okkur Brandi og mér fannst það alltaf svo notalegt. Hann var rólegur, ljúfur og þægilegur í umgengni. Lítillátur, vildi ekki láta hafa neitt fyrir sér og krafðist einskis af manni. Hann bara var þarna; röltandi um úti í garði, gjarnan með sígarettu við hönd, dyttandi að ýmsu ef þess þurfti, las bækur og Andrés Önd, til í að spjalla um allt og ekkert, var duglegur að leika við barnabörnin og fara út á göngu með hundinn. Hann hafði einfaldlega svo góða nærveru. Ég trúi því að nú sé Finnur kominn á annan stað þar sem Einar Örn, Svenni bróðir hans, mamma hans og fleiri látnir ástvinir taka fagnandi á móti honum.
Takk fyrir allt, elsku Finnur minn. Blessuð sé minning þín.
Þín tengdadóttir,
Edda.