Ólíkir Alastair Campbell og Rory Stuart.
Ólíkir Alastair Campbell og Rory Stuart.
Ég hef áður mælt með hljóðvarpinu The Rest is History og held því áfram feimnislaust. Í gærkvöldi lauk ég við þriðja þáttinn um sögu Írlands, allt frá landnámi til „Vandræðanna“ svokölluðu milli lúterskra sambandssinna og kaþólskra þjóðernissinna á Norður-Írlandi

Höskuldur Ólafsson

Ég hef áður mælt með hljóðvarpinu The Rest is History og held því áfram feimnislaust. Í gærkvöldi lauk ég við þriðja þáttinn um sögu Írlands, allt frá landnámi til „Vandræðanna“ svokölluðu milli lúterskra sambandssinna og kaþólskra þjóðernissinna á Norður-Írlandi. Þátturinn var sá 338. í röðinni svo það er af nógu að taka … og alls ekki of seint að byrja.

Og ef The Rest is History er þinn tebolli ætti systurvarpið The Rest is Politics ekki að valda vonbrigðum. Þar eru við stjórnvölinn Alastair Campbell, fyrrverandi samskiptastjóri og ráðgjafi Tony Blairs, og Rory Stuart, fyrrverandi ráðherra Íhaldsflokksins, og umræðuefnið er stjórnmál að sjálfsögðu en með sögulegu ívafi.

Campbell, fyrir þá sem ekki vita, er fyrirmyndin að Malcolm Tucker í bresku grínþáttunum The Thick of It (skapalónið fyrir bandarísku grínþættina Veep) enda kjaftfor, óheflaður og skapstór með endemum. Rory er hinsvegar hæglátur og hæverskur en að sama skapi eldklár og fastur fyrir eins og sannaðist í enn öðru systurvarpinu, Leading, þar sem þeir Campbell og Stuart tóku Gerry Adams, fyrrverandi leiðtoga Sinn Féin, á beinið. Þar áður Tony Blair og þar þar áður Hillary Clinton.

Höf.: Höskuldur Ólafsson