Styrkir sem hreyfihamlaðir einstaklingar fá hjá Tryggingastofnun til kaupa á sérútbúnum bílum, stuðningur vegna hjálpartækja, greiðslur sanngirnisbóta og slysabóta o.fl. valda því að húsnæðisstuðningur viðkomandi einstaklinga skerðist verulega og eru jafnvel dæmi um að hann falli alveg niður

Styrkir sem hreyfihamlaðir einstaklingar fá hjá Tryggingastofnun til kaupa á sérútbúnum bílum, stuðningur vegna hjálpartækja, greiðslur sanngirnisbóta og slysabóta o.fl. valda því að húsnæðisstuðningur viðkomandi einstaklinga skerðist verulega og eru jafnvel dæmi um að hann falli alveg niður. ÖBÍ réttindasamtök telja brýnt að þessu verði breytt og hvetja Alþingi til að breyta lögum svo styrkir, bætur og lausafjáreignir s.s. hjálpartæki verði ekki til þess að einstaklingar missi rétt til húsnæðisbóta.

Samtökin hafa unnið að greiningu á þessum skerðingum þar sem segir að það hljóti „að teljast afar sérstakt að ríkið afhenti fólki styrk til kaupa á sérútbúinni bifreið en skerði síðan eða felli niður húsnæðisstuðning á móti. Á það verður líka að benda að allir styrkir eða bætur falla þarna líka undir, líka slysa- og sanngirnisbætur koma inn til skerðingar á húsnæðisstuðningi,“ segir á minnisblaði ÖBÍ.

Tekið er raunverulegt dæmi af einstaklingi sem þurfti að festa kaup á sérútbúinni bifreið en þær kosta yfirleitt á bilinu 10 til 16 milljónir. Fékk hann 1,4 milljónir kr. í styrk til bílakaupa fyrir fjórum árum en ástand mannsins versnaði svo hann þurfti að kaupa sér annan sérútbúinn og dýrari bíl. Styrkur til kaupa á sérútbúnum bíl er sex milljónir en fyrri styrkurinn dregst frá þeirri fjárhæð. Sérútbúni bíllinn kostar 12 milljónir. „Sú fjárhæð er langt yfir eignamörkum [sem] koma fram í lögum nr. 75/2016 um húsnæðisbætur. Þar af leiðandi fær viðkomandi einstaklingur engan húsnæðisstuðning, hvorki frá ríki né sínu sveitarfélagi,“ segir á minnisblaðinu.

Einstaklingurinn er í leit að félagslegu leiguhúsnæði en til að geta fengið húsnæðisbætur þarf að uppfylla skilyrði og skerðast grunnfjárhæðirnar ef samanlagðar eignir eru umfram 6,5 milljónir og falla alveg niður við 60% hærri fjárhæð. Bent er á að engin undanþága sé gefin vegna sérútbúinna bíla vegna fötlunar viðkomandi. Eignaskilyrði og tekjumörk eru líka sett fyrir sérstökum húsnæðisstuðningi sem sveitarfélög veita. Á minnisblaðinu kemur fram að hann fellur niður við rúmlega fimm milljóna kr. eign, hvort sem hún er í fasteign, peningum, verðbréfum eða lausafé.
omfr@mbl.is