Baksvið
Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Félagið EE Development hyggst hefja sölu 65 íbúða í Borgartúni 24 í haust eða nokkrum mánuðum á eftir áætlun. Uppsteypu er lokið og síðustu vikur hafa iðnaðarmenn unnið að uppsetningu klæðningar á húsinu. Húsið er við hringtorg á gatnamótum Nóatúns og Borgartúns, gegnt Hagstofu Íslands.
Magnús Magnússon, framkvæmdastjóri EE Development, sagði í samtali við Morgunblaðið í apríl 2021 að hefja ætti sölu íbúðanna á síðari hluta ársins 2022. Sú áætlun var síðan uppfærð og miðað við sumarbyrjun í ár. Þeirri áætlun var svo breytt en nú styttist í að íbúðirnar komi á markað.
„Við höfum tekið ákvörðun um að hefja ekki sölu fyrr en í haust. Hins vegar fer upphaf sölu alltaf eftir framkvæmdahraða og því er ekki um eiginlega seinkun að ræða nema hvað framkvæmdir hafa dregist á langinn.“
Vilja fá endanlegt útlit
– Þið áformuðuð að hefja sölu íbúða fyrir júní 2023 en frestið svo sölunni fram á haust 2023? Hvers vegna?
„Það er fyrst og fremst vegna þess að við viljum sjá fyrir endann á framkvæmdum og afhendingu. Við finnum þegar fyrir miklum áhuga á húsinu og einstaka íbúðum en náðum ekki að komast þangað sem við vildum fyrir sumarfrí. Þá fyrst og fremst framkvæmdalega. Við vildum að kaupendur myndu fá að sjá þessa fallegu byggingu þegar við værum búin að klæða hana að utan. Við erum að klæða húsið og reiknum með að því ljúki um mánaðamótin ágúst og september. Þetta er skemmtilega hannað hús og við höfum lagt mikið upp úr gæðum og viljum geta sýnt kaupendum hversu glæsileg byggingin verður. Við teljum hana vera mikla prýði fyrir götuna og að hún muni breyta ásýnd Borgartúns. Af þessari ástæðu ákváðum við að fresta sölu þar til fram yfir sumarfrí.“
Áhugi á öllum íbúðum
– Hafa kaupendur falast eftir íbúðum með sjávarsýn á efstu hæðum?
„Fólk hefur sýnt áhuga á íbúðum af öllum stærðum og gerðum. Það er mikill áhugi á þakíbúðunum en þær eru á þremur mismunandi hæðum. Svo hefur fólk á öllum aldri sem er að vinna í götunni sýnt íbúðunum áhuga en þær eru þá í göngufæri frá vinnustaðnum.“
– Þannig að vaxtahækkanir, hægari gangur á markaði og væntingar um að vextir nái senn hámarki skýra ekki breytta söluáætlun?
„Nei. Verkefnið er óháð vaxtastigi. Við gerum okkur grein fyrir að markaðurinn er ekki sá sami og hann var fyrir ári og teljum að það verði ekki neinar stórvægilegar breytingar á þessum nokkru mánuðum í sumar. Það er í öllu falli reynsla okkar að það sé minna að gera yfir sumarið og við teljum okkur ekki vera að missa af neinu með því að bíða fram yfir sumarfrí.“
– Hvernig hefur framkvæmdakostnaður þróast? Nú hefur verkefnið átt sér langan aðdraganda. Rífa þurfti eldri mannvirki og hefja uppgröft og síðan uppsteypu.
„Við hófum framkvæmdir í september 2021 og því verða tvö ár liðin frá upphafi framkvæmda í september næstkomandi. Við höfum ekki frekar en aðrir farið varhluta af kostnaðarhækkunum. Bæði hækkuðu aðföng mikið í kjölfar Úkraínustríðins og eins hafa mikið launaskrið og vaxtahækkanir haft áhrif á framleiðsluverðið til hækkunar. Okkur hefur þó tekist ágætlega að halda okkur innan setts ramma. Við sjáum engin merki um að framleiðsluverð muni lækka á komandi misserum heldur þvert á móti.“
– Eru þá áhrif stríðsins ekki að ganga til baka eins og t.d. í verði á stáli og sementi?
„Að mjög litlu leyti. Kostnaðarverðshækkanir eru yfirleitt mjög tregar til að ganga til baka. Samhliða hefur krónan haldist veikari en hún var í undanfaranum og allt hefur þetta áhrif á verð aðfluttra aðfanga og er launaliðurinn klárlega hluti af því.“
– Mun þá ásett verð nýrra íbúða, ekki síst íbúða sem eru miðsvæðis eins og í Borgartúni, hækka frekar?
„Já, ég tel að verð slíkra íbúða haldi áfram að hækka að nafnvirði. Það er viðvarandi skortur [á íbúðum] í landinu og það er of lítið byggt. Til lengri tíma litið sé ég ekki annað fyrir mér en að nafnverð haldi áfram að hækka. Raunverðið gæti þó hæglega lækkað til skemmri tíma í svona mikilli verðbólgu. Við sjáum dæmi þess að raunverð nýrra íbúða hafi lækkað á undanförnum tólf mánuðum. Á meðan framleiðsluverðið heldur áfram að hækka er ekki við öðru að búast en að nafnverð haldi áfram að hækka.“