Jóhannes Wirkner Guðmundsson fæddist í Keflavík 28. október 1958. Hann lést 27. maí 2023.

Foreldrar hans voru Guðmundur Gíslason og Ingibjörg Friðriksdóttir.

Eftirlifandi eiginkona Jóhannesar er Ásta Katrín Ólafsdóttir, fædd í Vestmannaeyjum 25. desember 1958. Foreldrar hennar voru Ólafur Oddgeirsson og Ragna Lísa (Góa) Eyvindsdóttir.

Börn Jóhannesar og Ástu Katrínar eru:

1) Rósa Konný, maki Einar Páll og eiga þau tvær dætur. 2) Daníel Örn Wirkner, maki Rakel Dögg Wirkner, börn Daníels eru tvær dætur og einn sonur, börn Rakelar eru tveir synir og ein dóttir og á hún einn son.

Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna.

Bros þitt

Við göngum tvö ein

þar sem gjálfrar við hlein

og hlíð gárast vindsins kvika.

Siglir bátur um bjarg

blundar fuglanna þvarg

ég sé bros þitt hjá Eyjunum blika.

Þú átt líf mitt og ljóð

þú átt æskunnar glóð

öll þín spor fylgja þrá minni úr hlaði.

Hver sem vegur minn er

vaki hamingjan þér

og þér fylgja vorhljómurinn glaði.

Hvert sem bylgjan ber mig með sér

bið ég þig alltaf að muna

að heim kem ég aftur til fylgdar þér.

Við gengum tvö ein

þar sem gjálfrar við hlein

og um hlíð gárast vindsins kvika.

Siglir bátur við bjarg

blundar fuglanna þvarg

ég sé bros þitt hjá Eyjunum blika.

(Árni Johnsen)

Með ástarkveðju,

Ásta Katrín Ólafsdóttir.

Árið 1974 kom mikið af aðkomufólki á vetrarvertíð í Eyjum, duglegt ungt fólk sem var að sækjast eftir mikilli vinnu og ævintýrum.

Jonni var einn af þessum drengjum sem leituðu ævintýra í Eyjum, kom frá Reykjavík og vann í Fiskiðjunni og dvaldi þar á verbúðinni. Jonni skapaði sér snemma orð fyrir að vera ósérhlífinn, úrræðagóður, duglegur og skemmtilegur í viðmóti og alltaf hress. Í Fiskiðjunni, þar sem ég vann í tækjunum, kynntist ég honum vel og þarna myndaðist góður vinskapur. Þar kynnist Jonni svo henni Ástu Kötu sinni og bundust þau til eilífðar.

Nú er vinur minn dáinn, lést aðfaranótt laugardagsins 27. maí sl. úr krabbameini eftir erfiða en snarpa baráttu.

Ég er þakklátur fyrir alla okkar góðu trúnaðarvináttu í öll þessi ár. Ég þakka þér elsku vinur fyrir leiðsögnina og kennsluna í lundaveiðinni í fyrstu ferðinni minni og okkar saman út í Bjarnarey sumarið 1985, eftirminnileg ferð sem byrjaði úti í Klettsvík vegna mikillar þoku, ferð sem var oft rædd og kom okkur alltaf til að hlæja. Takk fyrir ferðirnar saman í Bjarnarey, mörg sumrin þar á eftir, þetta voru endalaust ævintýri. Yndisleg minning er mér kær þegar hakkrétturinn þinn varð til úti í eyju í einni af mörgum ferðum okkar, við vorum sammála um að rauðvínssósan hefði verið sú besta og við vorum líka sammála um það að við hefðum aldrei áður fundið á okkur af sósusmakki. Tíminn sem við vorum saman í lögreglunni í Eyjum. Takk fyrir leiðsögnina í öllu, löggæslu, tollgæslu og skýrslugerð, þú kunnir þetta allt og miðlaðir reynslu þinni til okkar nýliðanna. Ekki má gleyma námskeiði í umferðarstjórnun sem fór fram á gatnamótum Heiðarvegar og Kirkjuvegar, átti að kenna nýliðunum rétta taktinn í umferðarstjórn í einu hádeginu. Ekki var mikið um bíla í Eyjum á þessum tíma, því varð minna úr kennslunni en ætlunin var. Mikið höfum við hlegið að þessu saman.

Takk kæri fyrir alla samveruna, allar uppskriftirnar, vænst þykir mér um eplaýsuna í karríinu sem við elduðum á þessum tíma. Þú kallaðir þessa uppskrift „Pétursýsu“. Bústaðaferðirnar okkar, Grímseyjarferðirnar okkar og gleymum ekki tuðruferðinni frá Eyjum og alla leið til Færeyja sumarið 2009, ferð sem gleymist aldrei. Allar skemmtilegu gistinæturnar þínar hjá okkur Bubbu eftir að þið Ásta Kata fluttuð til Reykjavíkur og þú varst í söluferð. Frábærari sölumaður finnst varla, seldir urmul af heilsukoddum og Rainbow-ryksugum, það komst enginn með tærnar þar sem þú hafðir hælana í þeim málum.

Að lokum, elsku Jonni minn, takk fyrir öll símtölin okkar síðustu mánuði, við áttum gott spjall saman í hverri viku og oftast varst það þú sem huggaðir og hertir mann upp þegar mestu veikindin þín gengu yfir.

Kæri vinur, við hittumst síðar og þá höldum við áfram að rifja upp sögur úr minningabankanum okkar, hlæjum saman og gerum eitthvað skemmtilegt eins og í gamla daga.

Elsku Ásta Kata, Konný mín og Danni minn og fjölskyldur, við Bubba sendum ykkur okkar dýpstu samúðarkveðjur og biðjum góðan Guð um að hugga ykkur og styrkja.

Þinn vinur,

Pétur Steingríms.