Drama Uppfærsla Stefan Zeromski-leikhússins á <strong><em>Gróskunni í grasinu</em></strong><strong> </strong>hefur víðast hvar hlotið frábærar viðtökur.
Drama Uppfærsla Stefan Zeromski-leikhússins á Gróskunni í grasinu hefur víðast hvar hlotið frábærar viðtökur.
Þjóðleikhúsið blæs til pólskrar menningarhátíðar í júní í samstarfi við Stefan Zeromski-leikhúsið í Kielce í Póllandi. Aðalviðburður hátíðarinnar verður uppsetning á leikritinu Gróskan í grasinu eða Wiosenna bujnosc traw eins og verkið kallast á…

Höskuldur Ólafsson

hoskuldur@mbl.is

Þjóðleikhúsið blæs til pólskrar menningarhátíðar í júní í samstarfi við Stefan Zeromski-leikhúsið í Kielce í Póllandi. Aðalviðburður hátíðarinnar verður uppsetning á leikritinu Gróskan í grasinu eða Wiosenna bujnosc traw eins og verkið kallast á frummálinu en auk þess verður boðið upp á opnar vinnustofur og leiklistarspjall við leikara og dramatúrg Stefan Zeromski-leikhússins.

Una Þorleifsdóttir leikstjóri er vel kunnug pólsku leikhúsi og heldur utan um verkefnið fyrir hönd Þjóðleikhússins.

Hún segir hátíðina tilkomna vegna þátttöku Þjóðleikhússins í tveimur menningarverkefnum. Annars vegar er um að ræða verkefni styrkt af Uppbyggingarsjóði EES sem snýr að enduruppbyggingu borgarleikhússins í Kielce og endurmenntun starfsfólks, og hins vegar samstarfsverkefni styrkt af ráðuneyti menningar- og þjóðmála í Póllandi með það að markmiði að kynna pólska menningu og menningararf.

Áhrifamikil sýning

„Stefan Zeromski er elsta og stærsta leikhús Kielce sem er tæplega 200 þúsund manna borg, mitt á milli Varsjár og Krakár. Leikhúsið var reist fyrir um 140 árum og um þessar mundir standa yfir miklar endurbætur á leikhúsinu og uppfærsla á öllum tækjakosti og sölukerfi og þar getur Þjóðleikhúsið miðlað af reynslunni,“ að sögn Unu.

„Þessi hópur lista- og starfsfólks Zeromski-leikhússins komu hingað í fyrra og þá var sviðsettur leiklestur á Munaðarleysingjahælinu eftir hinn úkraínska Serhij Zadhan og unnið í vinnustofum. Í ár verður bætt um betur og þetta frábæra verk, Gróskan í grasinu, sýnt sem er byggt á kvikmynd Elia Kazan, Splendor in the Grass.“

Sýningin er að sögn Unu einstaklega áhrifamikil og hefur hún hlotið mikið lof á þeim leiklistarhátíðum sem leikhópurinn hefur sótt.

„Þetta er stór leikhópur sem kemur með sýningunni og svo koma starfsmenn og tæknifólk leikhússins líka þannig að þetta eru hátt í 40 manns sem við eigum von á.“

Aðspurð hvaða meginmun Una sjái á íslensku og pólsku leikhúsi segir hún að pólskt leikhús búi að mun lengri hefð en við getum státað af hér á landi.

„Atvinnuleikhúsið er mun eldra en það íslenska og nýtur mjög mikillar virðingar í allri samfélagsumræðu. Það er líka áherslumunur hvað hugmyndafræði varðar. Á Íslandi er það oft gagnrýnt að verið sé að vinna svona margar leikgerðir upp úr bókum en í Póllandi þykir það sjálfsagt og er mikið gert. Þar virðist grunnhugmyndin vera sú að leikhúsið sé einfaldlega miðill til að segja sögur og því fullkomlega eðlilegt að setja á svið leikgerðir upp úr skáldsögum.“

Þjóðleikhúsið

Pólskar leikhúspælingar

9. júní kl. 20:00

Gróskan í grasinu – Stóra sviðið

Einstaklega áhrifamikil sýning sem hefur hlotið mikið lof, innblásin af Splendor in the Grass, sígildri kvikmynd eftir Elia Kazan.

Leikið verður á pólsku, en sýningin verður textuð á ensku og íslensku.


10. júní kl. 12:00 – 15:00

Opin vinnustofa – Þjóðleikhúsið

Vinnustofa um þær aðferðir sviðslistanna – dans, söng og hreyfingu – sem byggðar eru á þjóðlegum pólskum arfi og menningu.

Leikararnir Joanna Kasperek og Dawid Złobinski leiða vinnustofuna ásamt Pawel Sablik.

Vinnustofan fer fram á ensku.

Höf.: H&ouml;skuldur &Oacute;lafsson