Vigdís Häsler
Síðustu misseri hafa hugtökin „fæðuöryggi“ og „matvælaöryggi“ verið mikið notuð í umræðunni enda hafa þau bæði sterka skírskotun vegna breyttrar heimsmyndar. Hugtökin eru þó keimlík og því vill eðlilega stundum bregða við að þeim sé ruglað saman þrátt fyrir að hugtökin hafi sitt hvora merkinguna. Á vef matvælaráðuneytisins má finna skilgreiningar á hugtökunum:
Fæðuöryggi þýðir að allt fólk, á öllum tímum, hefur raunverulegan og efnahagslegan aðgang að nægum, heilnæmum og næringarríkum mat sem fullnægir þörfum þess til að lifa virku og heilsusamlegu lífi.
Matvælaöryggi merkir að matvæli séu örugg til neyslu. Matur er meðhöndlaður, matreiddur og geymdur þannig að hætta á matarsjúkdómum sé í lágmarki. Matvæli eru varin fyrir sýkingarvöldum og efnasamböndum sem valdið geta neytendum heilsutjóni.
Matvælaöryggi er þannig mikilvægur liður í fæðuöryggi og snertir alla þótt margir líti á það sem sjálfsagðan hlut að geta neytt matar og drykkjar sem við hljótum ekki skaða af.
Alþjóðadagur matvælaöryggis
Í dag, 7. júní, er alþjóðadagur matvælaöryggis og af því tilefni mun WHO í samstarfi við Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) einblína á matvælastaðla, þ.e. þá alþjóðlega viðurkenndu verkferla sem tryggja framleiðslu öruggra matvæla, en matarsjúkdómar hafa áhrif á einn af hverjum tíu einstaklingum um allan heim á hverju ári og matarstaðlar hjálpa okkur að tryggja að það sem við borðum sé öruggt til neyslu. Þegar þú borðar, hvernig veistu þá að maturinn þinn sé öruggur? Á bak við tjöldin taka ótal margir þátt í því að tryggja að matvælaframleiðsla fylgi viðurkenndum matvælaöryggisaðferðum. WHO ásamt FAO leiðir alþjóðlega sérfræðingahópa og veitir vísindalega ráðgjöf til að þróa alþjóðlega matvælaöryggisstaðla til að vernda heilsu neytenda alls staðar. Matvælastaðlar eru kjarninn í matvælaöryggi.
Lýðheilsusjónarmið og fæðuöryggi
En til að tryggja öryggi við framleiðslu matvæla, þá þýðir það að hvorki er skynsamlegt né heilnæmt að notast við hvaða lyf og varnarefni sem er við matvælaframleiðslu. Í nýrri skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar er tekið fram að árlega láta yfir fimm milljónir manna lífið eftir að innbyrða sýklalyfjaónæmar bakteríur í matvælum, og á heimsvísu veikist einn af hverjum tíu alvarlega á ári hverju af sömu orsökum. Hér er um að ræða gríðarlega aukningu frá árinu 2016 þegar dauðsföll sem rakin voru til sýklalyfjaónæmis námu um 700.000. Haldi sú aukning áfram til ársins 2050 verður staðan orðin sú að fleiri láti lífið vegna sýklalyfjaónæmis en látast af völdum krabbameins í dag.
Fyrir liggur að Ísland hefur algera sérstöðu hvað heilnæmi matvælaframleiðslu varðar sökum lítillar notkunar sýklalyfja í landbúnaði og lágs hlutfalls sýklaónæmis. Í nýlegri úttekt í læknatímaritinu Lancet var staðfest að á Íslandi er langminnst sjúkdómsbyrði af völdum sýklalyfjaónæmra baktería, mælt í glötuðum æviárum. Öll önnur lönd Evrópu nota mun meira, í sumum tilfellum margfalt magn af sýklalyfjum en gert er hérlendis. Til að mynda getur kjúklingur mengast mikið af iðrabakteríum, svo sem E.coli, við slátrun en í nýrri skýrslu Matvælastofnunar Evrópu var staðfest að Ísland er eina landið af 30 löndum í Evrópu þar sem ekki hafa fundist fjölónæmar E.coli-bakteríur í kjúklingum.
Sannar fullyrðingar
Íslenskar sjávar- og landbúnaðarafurðir hafa lengi verið markaðssettar með áherslu á hreinleika og heilnæmi. Fullyrðingar um það duga hins vegar skammt og því er nauðsynlegt að styðja þær áreiðanlegum gögnum frá óháðum aðilum. Í því samhengi er vert að nefna að Matís hefur verið leiðandi í efna- og örverurannsóknum á matvælum á Íslandi. Til að Ísland geti orðið þekkt fyrir framúrskarandi gæði og öruggar afurðir þarf að tryggja skilvirkt og samræmt regluverk sem styður við matvælaöryggi, innra eftirlit, áhættugreiningu og rekjanleika afurða, ásamt fræðslu og upplýsingamiðlun. Innleiðing rakningarkerfa sem byggja upp tengsl bænda og neytenda, líkt og lagt er til í landbúnaðarstefnu sem nú liggur fyrir Alþingi, gæti einnig nýst í þágu matvælaöryggis. Það er nefnilega grundvallaratriði fyrir íslenska neytendur að geta treyst því að þau matvæli sem seld eru hér á landi ógni ekki heilsu almennings.
Höfundur er framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands.