Skattar Kostnaður heimila vegna umhverfisskatta er 32,4 miljarðar.
Skattar Kostnaður heimila vegna umhverfisskatta er 32,4 miljarðar.
Heimilin greiddu um 58% umhverfisskatta á árinu 2021 samkvæmt nýbirtum gögnum Hagstofu Íslands, en umhverfisskattarnir námu alls 55,5 milljörðum króna á árinu

Heimilin greiddu um 58% umhverfisskatta á árinu 2021 samkvæmt nýbirtum gögnum Hagstofu Íslands, en umhverfisskattarnir námu alls 55,5 milljörðum króna á árinu. Atvinnugreinar greiddu 39% umhverfisskattanna og erlendir aðilar um 2%.

Af þeim 32,4 milljörðum sem heimilin greiddu í umhverfisskatta vógu orkuskattar þyngst, en heimilin greiddu 14,1 milljarð í slíka skatta. Þá námu mengunarskattar greiddir af heimilum landsins alls 11,4 milljörðum króna og flutningsskattar 7 milljörðum.

Orkuskattar vógu sömuleiðis þyngst af þeim 22,1 milljarði sem atvinnugreinar greiddu í umhverfisskatta á árinu, en þær greiddu um 13,2 milljarða í slíka skatta. Næstmest greiddu atvinnugreinar af flutningssköttum, eða 6,8 milljarða, þá 1,6 milljarða í mengunarskatta og 296 milljónir í auðlindaskatta. Erlendir aðilar greiddu 1,2 milljarða í umhverfisskatta á árinu, allt orkuskattar.

Heimilin báru sambærilegt hlutfall umhverfisskattanna árið 2020, eða 59%. Skattbyrði heimilanna var jafnframt svipuð milli ára í krónum talið en hún nam 32,3 milljörðum árið 2020. Fjárhæð umhverfisskatta heimilanna hefur þó lækkað nokkuð frá árinu 2019 þegar heimilin greiddu 34 milljarða í umhverfisskatta og enn meira frá árinu 2018 þegar heimilin greiddu 36,5 milljarða.

Hagstofan flokkar umhverfisskatta í samræmi við viðmið Eurostat (Hagstofu Evrópusambandsins). Um umhverfisskatt er að ræða ef það sem skattlagt er hefur sannarlega neikvæð áhrif á umhverfið.