Hryggsjá F.v. Elva Ásgeirsdóttir, Bjarki Karlsson, Freyr Gauti Sigmundsson og Hulda Birgisdóttir við hluta af nýju hryggsjánni. Elva og Hulda eru skurðhjúkrunarfræðingar, Bjarki yfirlæknir á SAk og Freyr Gauti yfirlæknir á háskólasjúkrahúsinu á Örebro í Svíþjóð. Tækið var tekið í notkun um áramót og kostaði 40 milljónir króna
Hryggsjá F.v. Elva Ásgeirsdóttir, Bjarki Karlsson, Freyr Gauti Sigmundsson og Hulda Birgisdóttir við hluta af nýju hryggsjánni. Elva og Hulda eru skurðhjúkrunarfræðingar, Bjarki yfirlæknir á SAk og Freyr Gauti yfirlæknir á háskólasjúkrahúsinu á Örebro í Svíþjóð. Tækið var tekið í notkun um áramót og kostaði 40 milljónir króna — Morgunblaðið/Margrét Þóra
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri hafa formlega afhent Sjúkrahúsinu á Akureyri nýja hryggsjá, sem er eins konar leiðsögutæki fyrir stórar aðgerðir á hryggsúlunni. Tækið var tekið í notkun um áramót en afhent nú

Margrét Þóra Þórsdóttir

Akureyri

Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri hafa formlega afhent Sjúkrahúsinu á Akureyri nýja hryggsjá, sem er eins konar leiðsögutæki fyrir stórar aðgerðir á hryggsúlunni. Tækið var tekið í notkun um áramót en afhent nú. Það kostaði 40 milljónir króna og er stærsta einstaka verkefnið sem Hollvinasamtökin hafa staðið að.

Jóhannes G. Bjarnason, formaður stjórnar samtakanna, sagði að ákveðið hefði verið á liðnu hausti að hefja söfnun fyrir tækinu, bæði til að fagna tíu ára afmæli samtakanna sem er nú í ár og til að minnast stofnanda þeirra, Stefáns heitins Gunnlaugssonar.

„Söfnunin gekk vonum framar og þar eiga hollvinir sjálfir stóran þátt með sínu framlagi,“ sagði hann og bætti að tækið væri afhent með miklu stolti og ánægju.

Kemur þrisvar til fjórum sinnum á ári

Á SAk eru framkvæmdar stórar aðgerðir á hrygg og hafa Sjúkratryggingar Íslands greitt kostnað við komu dr. Freys Gauta Sigmundssonar, bæklunarlæknis og yfirlæknis á Örebro-háskólasjúkrahúsinu í Svíþjóð, til að gera þessar aðgerðir á SAk í samstarfi við Bjarka Karlsson, yfirlækni á SAk, og sérhæft skurðstofuteymi.

Það fyrirkomulag sparar ferðir og uppihald sjúklinga og aðstandenda þeirra sem annars yrðu að fara til útlanda þeirra erinda. Freyr Gauti kemur þrisvar til fjórum sinnum á ári á heimaslóðir sínar, Akureyri til að sinna ásamt teyminu á SAk sjúklingum með hryggjarvandamál sem annars þyrftu að leita lengra til að fá bót hryggjarmeina sinna. Sjúklingar með bakvandamál alls staðar af á landinu sækja þjónustu til Akureyrar eftir að hryggsjáin var tekin í notkun.

Öruggari aðgerðir

Freyr Gauti lýsti við afhendinguna helstu kostum hryggsjárinnar. Vissulega væri hægt að gera flóknar aðgerðir á hrygg án hryggsjár, en með tilkomu hennar væri mikilli óvissu eytt. Aðgerðir verða öruggari og fljótlegri. Hann nefndi að hollvinir hefðu einnig keypt sérstakt borð til að nota við aðgerðirnar og spurður um hvað vantaði næst sagði hann að efst á óskalistanum væri að fá til afnota sérstakan skurðhníf til að nota við hryggaðgerðir.

Höf.: Margrét Þóra Þórsdóttir