Löggæsla Lögreglufrumvarpið náði ekki í gegn á Alþingi.
Löggæsla Lögreglufrumvarpið náði ekki í gegn á Alþingi. — Morgunblaðið/Eggert
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is Bæði Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra og Vilhjálmur Árnason alþingismaður saka Vinstri græna um að hafa komið í veg fyrir afgreiðslu frumvarps á Alþingi um breytingu á lögreglulögum, en frumvarpið nær ekki í gegn á Alþingi að þessu sinni.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Bæði Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra og Vilhjálmur Árnason alþingismaður saka Vinstri græna um að hafa komið í veg fyrir afgreiðslu frumvarps á Alþingi um breytingu á lögreglulögum, en frumvarpið nær ekki í gegn á Alþingi að þessu sinni.

Það hafi þó hlotið samþykki bæði ríkisstjórnar og þingflokka stjórnarflokkanna, en er ekki á meðal þeirra frumvarpa sem hleypa á í gegn skv. samkomulagi sem gert var sl. þriðjudag.

„Það eru mikil vonbrigði að ekki hafi tekist að ljúka málinu. Ágreiningur var um frumvarpið á milli stjórnarflokkanna og leitað var allra leiða til að finna lausn sem ég taldi að hefði fundist, enda málið samþykkt í ríkisstjórn og þingflokkum,“ segir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.

„Þetta mál varðar þjóðaröryggi og getu íslenska ríkisins til að fá upplýsingar frá erlendum löggæsluyfirvöldum, m.a. um hryðjuverk. Þá færir frumvarpið löggjöf okkar nær því sem gengur og gerist á Norðurlöndunum í baráttunni við skipulagða glæpastarfsemi.

Vð höfum lagt okkur í framkróka við að mæta sjónarmiðum VG og ótrúlegt að þeir skuli loka á möguleika þess að afgreiða þetta mikilvæga mál.“

Með frumvarpinu var ætlunin að auka greiningargetu lögreglunnar í tilteknum brotaflokkum. Þannig beindist frumvarpið sérstaklega að því að efla getu lögreglu til að takast á við skipulagða brotastarfsemi og alvarleg brot gegn öryggi ríkisins, svo sem hryðjuverk og njósnir, þ.e. í tilvikum þegar ekki liggja fyrir upplýsingar um tiltekið afbrot. Þá var ætlunin með frumvarpinu að gera lögreglu kleift í tilvikum sem varða öryggi ríkisins að viðhafa eftirlit á almannafæri með tilteknum einstaklingum ásamt því að afla og taka við upplýsingum um slíka aðila hjá öðrum stjórnvöldum. Jafnframt var ætlunin að efla eftirlit með störfum lögreglu, enda gerð krafa um slíkt af ýmsum þingmönnum. Með frumvarpinu stóð ekki til að auka heimildir lögreglunnar til hlerana frá því sem nú er.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri segir í samtali við Morgunblaðið að frestun málsins sé ákveðin vonbrigði, enda hafi afstaða embættis ríkislögreglustjóra ekki breyst hvað varðar mikilvægi skýrari lagaheimilda lögreglu.

Spurð um hvort þessi niðurstaða muni torvelda möguleika lögreglunnar til afbrotavarna og að berjast gegn skipulagðri glæpastarfsemi segir hún: „Staðan er þá bara enn óbreytt. Embættið hefur kallað eftir skýrari lagaheimildum og ljóst er nú að lögregla þarf að bíða lengur eftir þeim.“

Vilhjálmur Árnason alþingismaður dregur ekki dul á vonbrigði sín með þessa niðurstöðu.

„Það er alvarlegt mál að þetta frumvarp hafi ekki orðið að lögum. Þetta er spurning um hvaða öryggisstig lögregunni er ætlað að tryggja hér á landi og þessi niðurstaða hefur mikil áhrif á það. Mestu áhrifin eru á samskipti við önnur ríki og lögregluyfirvöld í þeim. Fyrst við fáum ekki þær heimildir sem lögreglan þarf að þessu leyti, þá höfum við ekki bolmagn til þess að sinna ákveðnum málum hér á landi sem varða þjóðaröryggi. Það er alvarlegt.

Það er ljóst að Vinstri grænir vildu ekki af einhverjum ástæðum klára þetta mál, þrátt fyrir að frumvarpið hafi verið samþykkt í ríkisstjórn og framlagning þess samþykkt af þingflokkum stjórnarflokkanna, þar á meðal þingflokki Vinstri grænna,“ sagði Vilhjálmur við Morgunblaðið.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson