Klíník Starfsemi Klíníkurinnar við Ármúla verður í byggingunum á myndinni og í húsi á baklóð Ármúla 7.
Klíník Starfsemi Klíníkurinnar við Ármúla verður í byggingunum á myndinni og í húsi á baklóð Ármúla 7. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Kári Freyr Kristinsson karifreyr@mbl.is „Húsnæðið okkar er sprungið,“ segir Sigurður Ingibergur Björnsson, framkvæmdastjóri Klíníkurinnar Ármúla, í samtali við Morgunblaðið.

Kári Freyr Kristinsson

karifreyr@mbl.is

„Húsnæðið okkar er sprungið,“ segir Sigurður Ingibergur Björnsson, framkvæmdastjóri Klíníkurinnar Ármúla, í samtali við Morgunblaðið.

Verið er að stækka húsnæði Klíníkurinnar úr 2.400 fermetrum í rúmlega 7.000 fermetra með kaupum á byggingu við Ármúla 7 sem er við hliðina á Klíníkinni. Tengibygging verður byggð þar á milli en einnig er verið að byggja hús á baklóð Ármúla 7 sem er 800 fermetrar að grunnfleti á þremur hæðum.

Við Klíníkina starfa samtals um 70 starfsmenn en búist er við því að starfsmannafjöldi verði um 130 eftir stækkunina. Sigurður Ingiberg væntir þess að Klíníkin fái nýja húsnæðið til notkunar haustið 2024.

Leysir vandamál innanhúss

Sigurður segir Klíníkina stefna á að leysa flestöll vandamál í þeim sjúkdómaflokkum sem þau sérhæfa sig í með þessari stækkun. Með stækkuninni fjölgi skurðstofum og að auki verði legudeild fyrir 32 manns. Sigurður segir Klíníkina einkum sérhæfa sig í aðgerðum þar sem sjúklingar þurfa innlögn eftir aðgerð. Dæmi um slíkar aðgerðir eru liðskiptaaðgerðir, offituaðgerðir og svuntuaðgerðir. Hann segir aðrar heilbrigðisstofnanir fái hugsanlega aðgang að þessari legudeild þar sem mikill skortur sé á legurýmum.

Þá verða sett upp 16 meðferðarrými fyrir sjúkraþjálfun með tilkomu nýja húsnæðisins en hann segir mikinn meirihluta þeirra sem leita til Klíníkurinnar vera konur. Við stækkunina verði fjórir grindarbotnssjúkraþjálfarar ráðnir til starfa og að á Klíníkinni starfi læknir sem framkvæmir aðgerðir vegna endómetríósu.

Ný verkjaklíník

Klíníkin áformar að setja upp verkjaklíník á næstu misserum en Sigurður segir að búið sé að ráða Nathaniel Berg frá Bandaríkjunum til að aðstoða við að hleypa þeirri starfsemi af stokkunum. Nýleg skýrsla heilbrigðisráðuneytisins sýni fram á að að hérlendis þjáist 56.000 manns af langvinnum verkjum og þriðjungur þeirra sé óvinnufær vegna verkjanna.

Sigurður segir eftirspurnina mikla og að Klíníkin ætli að kynna ýmsar nýjungar í meðferð með þessari nýju starfsemi og þá sé ekki verið að horfa til sterkra verkjalyfja á borð við ópíóíða til að draga úr langvinnum verkjum. Ópíóíðarnir virki vel fyrir suma en slík meðferð sé ekki varanleg lausn gegn verkjum.

Samstarf við sálfræðistofur

Hann segir Klíníkina byggja upp samstarf við sálfræðistofur til að sjúklingar þeirra fái geðheilbrigðisþjónustu. Hann segir það mikilvægt þegar um flókna sjúkdóma er að ræða að nýta þau úrræði sem hægt er og að aðgerðir, næringarráðgjöf, sjúkraþjálfun og geðheilbrigðisþjónusta séu þau helstu.

Höf.: Kári Freyr Kristinsson