— Getty Images via AFP/Eduardo Munoz Alvarez
Austurströnd Bandaríkjanna hefur mátt þola lítil loftgæði síðustu daga vegna gróðurelda í Kanada. Var himinninn í New York-borg rauðgulur í gær og fyrradag vegna mengunarinnar frá eldunum. Orku- og umhverfisráðuneyti Bandaríkjanna varaði fólk í gær…

Austurströnd Bandaríkjanna hefur mátt þola lítil loftgæði síðustu daga vegna gróðurelda í Kanada. Var himinninn í New York-borg rauðgulur í gær og fyrradag vegna mengunarinnar frá eldunum.

Orku- og umhverfisráðuneyti Bandaríkjanna varaði fólk í gær við því að stunda líkamsrækt utandyra, og sagði að rétt væri að halda gluggum lokuðum og ganga með góða grímu utandyra.

Hætta þurfti við hafnaboltaleiki og aðra íþróttakappleiki utandyra í Washington-borg vegna ástandsins, auk þess sem dýragarði borgarinnar var lokað til að tryggja öryggi dýra, starfsfólks og gesta.

Bandaríska flugumferðarstofnunin FAA tilkynnti svo að vegna slæms skyggnis hefði þurft að stýra flæði flugumferðar til New York, Washington, Fíladelfíu og Charlotte í Norður-Karólínu.