Kristín „Það er ótrúleg tilfinning að vera fyrst til að sýna á þessum stað,“ en Þula er nýtt gallerí.
Kristín „Það er ótrúleg tilfinning að vera fyrst til að sýna á þessum stað,“ en Þula er nýtt gallerí. — Morgunblaðið/Eggert
Kolbrún Bergþórsdóttir kolbrun@mbl.is Kristín Morthens sýnir stór málverk og skúlptúra á sýningunni Andrými á hafsbotni í Þulu í Marshallhúsinu.

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Kristín Morthens sýnir stór málverk og skúlptúra á sýningunni Andrými á hafsbotni í Þulu í Marshallhúsinu.

Málverkin eru gerð með olíu, sprey og pastel. „Ég hef mikinn áhuga á efnum og hvernig þau vinna saman,“ segir Kristin. „Þetta er leið sem ég hef þróað í tilraunastarfsemi sem gerir að verkum að myndirnar verða næstum eins og sjónrænar klippimyndir.“

Óvænt sjónarhorn

Spurð um titilinn Andrými á hafsbotni segir Kristín: „Það er sterk sjávartilfinning í sýningunni og það endurspeglast í birtunni í verkunum en líka í hreyfingu, formi og litum. Þótt verkin séu frekar abstrakt í grunninn þá sýna þau landslag, kannski á sjávarbotni, sem er okkur ókunnugt en er samt með skírskotun í raunheima. Ég hef mikinn áhuga á óvæntum sjónarhornum og formin og frásögnin í þessum verkum eru ekki línuleg og lýsa ekki mennsku sjónarhorni, heldur sýna sérstakan heim þar sem lífverur eiga í innbyrðis samskiptum og við umhverfið.“

Auk málverka eru nokkrir skúlptúrar á sýningunni, glerkúlur og stálstangir. „Ég vinn mikið með línur í verkunum, en þessar stálstangir eru líka eins og drög að sundlaugastiga eða stiga sem stundum má finna á bryggjum,“ segir Kristín.

Hið smáa og hið kosmíska

Einn skúlptúr á sýningunni nefnist „Upphaf heims“ og er gerður úr steypu, sandi, ryðfríu stáli, frauðplasti og gleri. „Titillinn er vísun í málverkið „Origin of The World“ eftir Courbet sem sýnir kvensköp frá sjónarhorni karlmanns og þótti sjokkerandi á þeim tíma, sem var fyrir tæpum 200 árum. Þetta verk túlkar þyngd, dýpi og mýkt kvenleika í hinsegin samhengi og á því er lítil glerkúla frá æskuheimili mínu sem minnir á heim, eða heilt sólkerfi í smáu formi. Þessi kúla er líka tenging við stærri glerskúlptúrana á sýningunni sem ég túlka sem nokkurs konar ílát fyrir aðra heima og vísa líka í flot sem notuð voru í net við fiskveiðar. Samspil hins agnarsmáa og hins kosmíska eða „micro-macro“ er líka gegnumgangandi þráður í sýningunni.“

Kristín eignaðist barn á síðasta ári og segir það hafa haft áhrif á listsköpun sína. „Verkin sýna alls konar tilfinningar í kringum samlíf og líkama. Titlarnir á verkunum eru frásagnarkenndir og þannig getur fólk lesið ýmislegt út úr myndunum,“ segir hún. Sem dæmi um titla á verkum eru „Kerfi tenginga og tíma“, „Mjúkt afturkall“ og „Koss, sólin sökk undir haf“.

Stórt tækifæri

Þula er splunkunýtt gallerí í Marshallhúsinu, sem varð til þegar tvö gallerí, Hverfisgallerí og Þula, sameinuðust. Rýmið býður upp á tækifæri fyrir listamenn til að sýna stór verk. Kristín er fyrsti listamaðurinn sem sýnir þar. „Það er ótrúleg tilfinning að vera fyrst til að sýna á þessum stað. Þetta er stórt tækifæri fyrir mig sem listamann sem er að hefja ferilinn. Það eru mikil forréttindi að fá rými til að geta unnið stór verk. Þetta er fyrsta tækifærið mitt til að sýna á þessum skala og þess vegna er ég óskaplega þakklát og glöð. Ég var með skráða sýningu í rými sem var þrisvar sinnum minna en bauðst þetta rými með litlum fyrirvara. Það kostaði mikla vinnutörn. Þetta hefur verið hálfgert brjálæði en ég er ótrúlega þakklátt fyrir þetta tækifæri.“

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir