Umdeilt Útboð Arnarnesvegar er umdeilt, vegna þess að Vegagerðin hyggst ekki taka lægsta tilboði.
Umdeilt Útboð Arnarnesvegar er umdeilt, vegna þess að Vegagerðin hyggst ekki taka lægsta tilboði. — Tölvumynd/Vegagerðin
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrirætlanir Vegagerðarinnar um að taka ekki tilboði lægstbjóðanda í gerð Arnarnesvegar, heldur ganga til samninga við tilboðsgjafa sem bauð 1.334 milljónum meira í vegagerðina sem er einnig um 616 milljónum hærra en kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar, …

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Fyrirætlanir Vegagerðarinnar um að taka ekki tilboði lægstbjóðanda í gerð Arnarnesvegar, heldur ganga til samninga við tilboðsgjafa sem bauð 1.334 milljónum meira í vegagerðina sem er einnig um 616 milljónum hærra en kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar, eru mjög gagnrýnisverðar að mati Vilhjálms Árnasonar, formanns umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.

„Það er alvarlegt ef markmið útboða um að lágmarka kostnað við opinberar framkvæmdir næst ekki vegna óútskýrðra formreglna og láta síðan hjá líða að athuga hvort lægstbjóðandi sé hæfur til að vinna verkið. Það verður að gera kröfu um að fá sem hagstæðust kjör fyrir ríkið þegar ráðist er í framkvæmdir, að ekki sé talað um þegar um slíkar fjárhæðir er að tefla eins og í tilviki Arnarnesvegarins,“ segir Vilhjálmur.

Veltufjárhlutfall á reiki

Vilhjálmur bendir á að í útboðinu virðist vera á reiki hvort það 50% veltufjárhlutfall sem krafist er af verktaka eigi við um eitt ár eða þau þrjú ár sem verkið á að taka.

Í útboðinu var sett það skilyrði að meðalársvelta tilboðsgjafa væri 50% af fjárhæð tilboðsins og sagði Vegagerðin í bréfi til lægstbjóðenda, fyrirtækjanna Óskataks ehf. og Háfells ehf., að þau uppfylltu ekki þá kröfu. Í kæru þeirra til Kærunefndar útboðsmála kemur fram að þau telji að líta beri á meðalársveltu síðastliðinna þriggja ára og sé þá krafan uppfyllt.

Vilhjálmur segir óljóst af hverju 50% veltufjárhlutfalls hafi verið krafist í tilviki Arnarnesvegar en ekki 30% hlutfalls eins og skilyrt var í nýlegum útboðum Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar.

Ekki sóst eftir upplýsingum

Einnig sé óljóst hvort hlutfallið eigi að vera 50% á ári eða á þriggja ára tímabili. Þá gagnrýnir hann að Vegagerðin hafi ekki sinnt þeirri skyldu sinni að kanna fjárhagslegt hæfi tilboðsgjafa og heldur ekki sóst eftir frekari upplýsingum frá þeim, hafi hún talið þær skorta. „Þetta er alvarlegt mál og ekki síst í ljósi þess að þarna ætlar Vegagerðin í raun að henda rúmum 1,3 milljörðum króna út um gluggann. Fyrir þá peninga mætti útrýma þremur eða fjórum einbreiðum brúm,“ sagði Vilhjálmur.

Hann hefur sent fyrirspurn á innviðaráðherra varðandi útboðsmál Vegagerðarinnar, þar sem óskað er svara við því hversu oft undanfarin fimm ár Vegagerðin hafi hafnað lægsta boði í útboðum og hvers vegna.

„Mig fýsir að vita hvað skattgreiðendur hafa tapað miklum peningum undanfarin ár á þessum útboðum. Mér virðist einnig handahófskennt hvort veltufjárhlutfall það sem krafist er af verktökum sé 30% eða 50%, en augljóst er að Vegagerðin getur leikið sér með þetta hlutfall í því skyni að útiloka tiltekna aðila frá framkvæmdum ef hún svo kýs,“ sagði Vilhjálmur og bætti því við að hann hefði upplýst umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis óformlega um málið. Alþingi hefði eftirlitshlutverki að gegna.