Jarþrúður Guðný Pálsdóttir fæddist á Hömrum 26. október 1931. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Minni-Grund í Reykjavík 16. maí 2023.

Foreldrar hennar voru hjónin Páll Þorleifsson, skipstjóri og bóndi, f. 1892, d. 1950, og Ólöf Þorleifsdóttir húsfreyja, f. 1903, d. 1982.

Systkini Jarþrúðar voru Sigríður, f. 1925, d. 2017; Hörður, f. 1928, d. 2017; Leifur, f. 1927, d. 2010; Pálmi, f. 1940, d. 2012.

Jarþrúður átti góða æsku í foreldrahúsum, fór ung til Akraness, þaðan sem hún tók gagnfræðapróf, og síðar lá leiðin í Húsmæðraskólann á Blönduósi.

Hún bjó um nokkurra ára skeið í Reykjavík, áður en hún fór 1955 til ársdvalar til Englands, sem au pair-stúlka. Þar náði hún góðu valdi á enskri tungu. Er heim var komið vann hún í sjö ár við afgreiðslustörf í tísku- og snyrtivöruversluninni Oculus í Austurstræti.

Árið 1963 flyst hún út til Bandaríkjanna. Eftir stutta viðkomu í New Jersey og New York settist hún í lok ársins 1963 að í San Francisco og bjó síðan þar og vann í 17 ár.

Hún flutti aftur til baka til Íslands í upphafi 9. áratugarins.

Hún bjó sjálfstætt í Kópavogi og Reykjavík, síðast á Skúlagötu 20, áður en hún fluttist á Dvalarheimilið Grund fyrir vel rúmu ári. Þar lést hún hinn 16. maí sl.

Útförin fer fram frá Garðakirkju í dag, 9. júní 2023, klukkan 13. Streymt verður frá útförinni á streyma.is en einnig má nálgast hlekk á streymi á:
https://www.mbl.is/andlat

Ég var sex ára og Árni bróðir fimm ára þegar mamma og pabbi, bróðir Dúddu, fluttu frá Íslandi til Svíþjóðar þar sem fjölskyldan settist að í heimalandi mömmu.

Eitt sinn þegar ég heimsótti Ísland með manninum mínum buðum við Dúddu frænku í bíltúr. Ég get best lýst þeim bíltúr á ensku, þ.e.: „She lit it up.“

Hún sagði okkur hvar ætti að keyra og benti á marga staði þar sem hún hafði verið. Á þessum rúnti sagði hún okkur líka sögur af því sem hún hafði gert á hinum ýmsu stöðum í lífinu.

Þetta var mjög áhugavert og innihaldsríkt fyrir mig, sem hafði ekki fengið mörg tækifæri til að umgangast Dúddu vegna fjarlægrar búsetu.

Við enduðum ferðina með kaffistoppi í Kringlunni og nutum þess öll.

Anna María Leifsdóttir Frenckner.

Við leiðarlok Dúddu frænku langar mig að koma frá mér þakklæti til starfsfólks Grundar.

Ég, sem er búsett í Þýskalandi, hafði það fyrir sið að heimsækja frænku í hvert sinn er ég kom til Íslands.

Það vildi svo til að ég var stödd á landinu síðustu vikuna sem hún lifði.

Fékk það verkefni að sækja hana út á Grund og fara með upp í Árbæ að líta á nýjasta stórfrænkubarnið, systurdóttursoninn Dag. Voru þá saman komnir fjórir ættliðir, teknar myndir, m.a. af henni með barnið í fanginu.

Hún hafði af þessu mikla ánægju. Ég notaði tækifærið og fór í einskonar skoðunarferð með hana, fyrst með vesturströnd Reykjavíkur með bliki yfir til Bessastaða, sýn á Háskóla og Þjóðminjasafn. Allt togaði þetta fram minningar.

Á bakaleiðinni meðfram austurströndinni, m.a. fram hjá síðasta búsetustað hennar. Þetta samtal varð að einskonar lífsuppgjöri. Hún, sem hafði búið svo lengi ein, sagði mér frá því hvað sér liði vel úti á Grund, væri sjaldan í herbergi sínu, enda svo margt um að vera og margt í boði, fyrir utan góðan mat og ekki síst hlýtt viðmót starfsfólksins.

Daginn eftir þessa heimsókn okkar fær hún heilablóðfall og átti þá þrjá daga eftir ólifaða.

Frænka, sem alltaf hafði verið góð og rausnarleg við okkur systkinabörnin uppskar nú eins og hún hafði sáð:

Við systkinabörnin og aðrir ættingjar sátum við dánarbeð hennar þar til yfir lauk. Og það gaf hún okkur líka: Dýrmætan tíma, sem við áttum saman þar og höfðum tækifæri til að spjalla saman og rifja upp liðna tíma.

Góð ellihjúkrun þýðir líka gott og vingjarnlegt viðmót við aðstandendur. Byggingarlega séð stenst Grund varla nokkurn nútímalegan staðal. En það er svo sannarlega bætt upp með kærleiksríku viðmóti.

Kæra starfsfólk: Hafið miklar og einlægar þakkir fyrir allt gott, sem þið gerðuð frænku okkar.

Vertu kært kvödd, okkar einstaka frænka!

Ólöf Guðmundsdóttir- Huber.

Elskulega uppáhaldsfrænka mín hún Dúdda hefur kvatt og eftir sitja minningar um yndislega konu sem ávallt var gaman að hitta og umgangast.

Það var ætíð tilhlökkun hjá okkur krökkunum á Hömrum þegar von var á Dúddu í heimsókn, alltaf góðar gjafir og gefandi samverustundir. Ég man eftir okkur Palla bróður sitjandi opinmynntir og hún að þýða Andrés önd og Daffy úr dönsku fyrir okkur sveitastrákana sem höfðu eitthvað misskilið dönskuna. Man eftir veiðiferðum í Grundará, heyskap á Hömrum, sögustundum þar sem hún sagði okkur frá lífinu í útlöndum, dansinum sem hún unni svo mikið, risastóru kröbbunum, bröttum götum borgarinnar og Golden Gate-brúnni. Allt greyptist þetta í barnsminnið og varð síðan mikil upplifun á fullorðinsaldri þegar ég heimsótti sögusviðið.

Dúdda var einstaklega trygg, sendi ætíð þéttskrifuð póstkort frá San Francisco, á afmælum, jólum og öðrum tyllidögum, hún tengdi mann oft við myndirnar á kortunum með skemmtilegum tilvitnunum í einhver atvik sem við höfðum átt saman í sveitinni. Dúdda var glæsileg kona á allan hátt, ætíð svo vel til fara. Hún hafði þessa léttu lund, dillandi hlátur, elskulega framkomu við alla og kunni að gera góðlátlegt grín að sjálfri sér. Seinustu árin undi hún hag sínum vel á Minni-Grund, hafði í nógu að snúast, blaða í gömlum pappírum, læra spænsku og var þátttakandi í kvikmynd sem verið er að gera um Grund en hafði samt tíma til að koma af og til á kaffihús.

Vikan áður en Dúdda veiktist var viðburðarík hjá henni. Hún fékk heimsókn frá Svíþjóð þegar Guðmundur frændi og fjölskylda komu til hennar, Ólöf frænka hennar frá Þýskalandi kom í heimsókn, ég fór með hana á kaffihús og svo fór Kristín frænka með hana í heimsókn til Ólafar Hugrúnar dóttur sinnar að hitta yngsta fjölskyldumeðliminn.

Ég þakka þér fyrir samfylgdina í lífinu elsku frænka og allar þær góðu samverustundir sem við áttum.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Elsku Dúdda ég sakna þín.

Hilmar frá Hömrum.

Í æsku hékk mynd á vegg í Vallargerði. Hún var af hvítum amerískum blæjubíl. Við stýrið sat Indíáni með tilkomumikið fjaðraskrúð á höfði. Í farþegasætinu var glæsileg og vel tilhöfð kona sem brosti eins og kvikmyndastjarna. Af myndinni stafaði ævintýraljómi. Á þessum árum urðu tveir og tveir auðveldlega fjórir. Konan á myndinni var Dúdda frænka. Hún átti heima í Ameríku. Maðurinn hennar var að sjálfsögðu Indíáninn á myndinni. Saman þeystu svo hjónakornin um víðáttur Ameríku á opnum blæjubíl. Og fjaðraskrúð Indíánans flaksaði í vindinum.

Síðar á uppvaxtarárum birtist ævintýrafrænkan sjálf ljóslifandi á æskuheimili mínu. Hún var í heimsókn frá Ameríku. Ungviðið varð ekki fyrir vonbrigðum með þessa heimsókn, því frænka kom færandi hendi. Flugsúkkulaði og annað fínerí féll vel í kramið á fremur fábrotnum tímum þegar útlenskt sælgæti fékkst bara í útlöndum. En upp úr standa minningar um nýstárlegar hljómplötur úr farteski frænku, t.d. „Kvöld með kósökkum“ í lauslegri þýðingu, og fleiri góða gripi. Þetta voru m.a. rússnesk þjóðlög í amerískri sveiflu. Undir þessari músík tók frænka okkur í danskennslu. Sjálf var frænka annáluð fyrir fótafimi sína. Hafði m.a. komist í efstu úrslit í danskeppnum sem var sjónvarpað vítt um land vestra. Hjá okkur stirðbusum skildi frænka eftir skilning, áhuga á og unun af þessari listgrein. Þar sem allt sýnist svo leikandi létt, en byggist í raun á ströngu skipulagi og endalausum æfingum á bak við tjöldin.

Á fullorðinsárum hélt Dúdda alltaf sambandi við okkur systkinabörnin og börn okkar. Hún hafði hógvært og höfðinglegt yfirbragð. Húmorinn var fíngerður og stutt í smitandi hlátur. Þegar maður sagði einhver kúnstugheit var tilsvarið gjarnan: Ja hérna hér, o, Guðmundur minn! Oft mæltum við okkur mót í Kringlunni. Frænka mætti þá ávallt á fínum bíl og vel tilhöfð. Það var hluti af hennar sjálfi. Á Grund undi Dúdda hag sínum hið besta. Þar átti hún til að taka dansspor með sveiflu í göngugrind sinni. Á stéttinni fyrir utan Grund kvöddumst við Dúdda. Kom þar að jafnaldra Dúddu og kynnti sig. Hún hét Daisy. Það er líka nafnið á einu af uppáhaldslögum Dúddu. Í hópinn slóst svo Hilmar, uppáhaldsfrændinn frá Hömrum. Úr þessu varð míní-ættarmót. Dúdda söng fyrir Daisy og okkur hin. Eftir á var þetta fullkomin kveðjustund. Og sárabætur fyrir að geta ekki fylgt frænku til grafar. Sem hún ætti svo sannarlega skilið af minni hálfu. Í dag birtist aftur myndin á veggnum. Fjaðrir Indíánans flaksa í vindinum. Frænka í sínu fínasta pússi í framsætinu. Í útvarpinu syngur Patti Page Tennesee Waltz. Tónarnir deyja út, myndin dofnar. Þau keyra inn í sólarlagið. THE END. Kæra frænka, ég kveð þig nú um sinn. Kærar þakkir fyrir mig og mína.

Þinn einlægur,

Guðmundur Páll
Guðmundsson.

Mér þótti alltaf svolítið spennandi að koma í heimsókn til hennar Dúddu frænku þegar ég var barn. Hún átti allskonar gull og gersemar; glæsilega kjóla, háhælaða skó og skart sem var mjög gaman fyrir litla skottu að fá að skoða. Eins átti Dúdda veglegt safn verðlaunagripa en til þeirra hafði hún unnið þegar hún keppti í samkvæmisdönsum árin sem hún bjó í Bandaríkjunum. Það var líka merkilegt að fylgjast með henni lita augabrúnir og leggja hár, hún Dúdda hugsaði vel um útlitið og það skipti miklu máli hvernig hárið lá, það varð nú að vera í lagi og mátti alls ekki vera flatt! Dúdda var alúðleg og reyndist mér vel, hún var einskonar auka-amma mín, en hún var systir móðurömmu minnar, hennar Siggu.

Eftir því sem við eltumst báðar breyttust heimsóknirnar og ég hætti, svona að mestu leyti, að gramsa í fataskápunum hennar. Það var alltaf stutt í góðlátlegt grín hjá Dúddu, hún kunni líka þá mikilvægu list að gera grín að sjálfri sér. Í seinni tíð, þegar hún stóð sjálfa sig að því að hafa einhverju gleymt eða ruglast örlítið í samtölum sínum við mig, sagði hún gjarnan: „Ég er orðin kolrugluð“ og skellti svo upp úr. Stundum svaraði ég: „Já, en þú hefur nú alltaf verið það!“ og svo hlógum við báðar. Það er reyndar ofsögum sagt að Dúdda hafi verið rugluð, það var hún alls ekki, því Dúdda var eldklár og einnig nokkuð vel ern fram á seinasta dag. Hún var hinsvegar sérstök manneskja og átti óhefðbundið æviskeið sem einkenndist af útþrá og sjálfstæði. Dúdda var af þeirri kynslóð þar sem óvenjulegt taldist að kona fetaði ekki þann fjölfarna veg að giftast og eignast börn, hvað þá að ung kona flytti ein til útlanda og stæði þar ein á sínum eigin dansandi fótum. Þó að Dúdda hafi alla tíð búið ein var hún ekki einmana, hún undi sér vel í eigin félagsskap og hafði nóg fyrir stafni. Það var því merkilegt að fylgjast með frænku þegar hún flutti á Grund, þar sem hún tók virkan þátt í daglegu lífi og átti mikið samneyti við nágranna sína og starfsfólk. Daginn áður en skyndileg veikindi, sem drógu hana til dauða, hófust var ég svo lánsöm að fá að kynna Dúddu fyrir nokkurra vikna gömlum syni mínum, það fór virkilega vel á með þeim. Fyrir það og allt annað sem okkur fór á milli er ég þakklát.

Ólöf Hugrún
Valdimarsdóttir.

Nú er hún Dúdda frænka farin yfir móðuna miklu. Hún fer síðust fimm systkina sem voru börn Páls Þorleifssonar og Ólafar Þorleifsdóttur frá Hömrum í Grundarfirði.

Jarþrúður Guðný Pálsdóttir var fædd 1931 og hefði orðið 92 ára á þessu ári. Við kölluðum hana ávallt Dúddu.

Þegar við vorum að alast upp á Hömrum, einni kynslóð síðar, kom Dúdda oft í heimsókn á æskustöðvarnar. Það var alltaf gaman þegar hún kom. Hún var bæði kát og skemmtileg og góð við okkur krakkana. Það geislaði af henni góðmennskan og virðing fyrir öllum. Allir voru hennar jafningjar, ungir sem aldnir. Við okkur talaði hún án nokkurra aldursfordóma, sem var nú ekki algengt á þeim tíma. Oftar voru börnin ekki með í umræðunni en sátu hljóð úti í horni.

Það sem hún tók sér fyrir hendur var óaðfinnanlega gert. Vandvirkni einkenndi alla hennar framgöngu.

Hún fór ung til Bandaríkjanna og vann þar árum saman. Hún var flinkur samkvæmisdansari í tómstundum og vann til margra verðlauna á þeim vettvangi.

Dúdda talaði fallega og kjarngóða íslensku. Það heyrðist ekki að hún hefði dvalið langdvölum erlendis meðan aðrir töluðu með hreim eftir helgardvöl í Kaupmannahöfn!

Hún var með skopskynið í góðu lagi fram á síðasta dag og allir urðu léttari í lund eftir að hafa hitt hana.

Við kveðjum Dúddu frænku okkar – heimskonuna úr sveitinni – með söknuði.

F.h. systkinanna Hömrum, barna Harðar og Guðlaugar,

Páll Guðfinnur
Harðarson.

Elsku Dúdda frænka hefur kvatt þessa jarðvist.

Dúdda frænka var í dýrðarljóma í mínum barnshuga. Þegar ég var lítil stelpa og að alast upp á Hömrum, þar sem hún hafði einnig alist upp, þá komu reglulega pakkar frá Ameríku með ýmsu góðgæti sem ekki hafði sést áður, einnig var hún dugleg að senda kort sem voru svo falleg og öðruvísi. Sem barn áttaði maður sig á því að Dúdda hafði allt annað viðmót til lífsins og aðra framkomu en maður var vanur. Hún sagði bróður sínum að hún væri nú bara hálfgerð flökkukind en hann svaraði því til að hún væri sannkallaður heimsborgari og þar væri munur á.

Útþráin gerði vart við sig snemma, Dúdda fór sem au-pair til London 18 ára gömul. Fór svo nokkrum árum síðar til San Francisco með vinkonu sinni og bjó þar í um 15 ár.

Hún vann skrifstofustörf hjá símafyrirtækinu Pacific Bell og stóð sig afburða vel. Voru henni falin ýmis flókin störf þess tíma, m.a. að sjá um risastóra tölvu sem þá var alveg ný af nálinni og þurfti að forrita til að hún gæti unnið sitt starf. Fékk hún hjá því fyrirtæki viðurkenningu fyrir að hafa aldrei vantað í vinnu í 10 ár. Ummælin voru: „Nor rain or shine has kept you from work.“

Samhliða skrifstofuvinnunni fór Dúdda að læra og æfa samkvæmisdansa. Fljótlega var hún farin að keppa í samkvæmisdönsum og vann hún til margra verðlauna og átti ótal verðlaunabikara og –peninga því til sönnunar, en mátti ekki tala mikið um, því hún var hógvær og hreykti sér ekki. Dúdda flutti svo alfarið heim til Íslands 1983 vegna veikinda, en hún fékk verki og bólgur í fætur sem ekki fannst lækning við og varð því að leggja dansskóna á hilluna. Þegar heim var komið flutti hún í Vallargerði 39 í Kópavogi og þá lágu leiðir okkar saman á ný og við frænkurnar bjuggum í sömu íbúð í tvo vetur.

Dúdda var barngóð og létti hún oft undir hjá mér að passa strákana mína og minnti stundum á Mary Poppins þar sem hún dansaði um gólfið með sveiflu og söng: „One day my prince will come.“ Voru strákarnir mjög glaðir með það að Dúdda nennti að horfa á teiknimyndir með þeim og lesa.

Það var alltaf stutt í gleði og hlátur hjá Dúddu, hún hafði létta lund. Hún var ótrúlega nægjusöm og æðrulaus. Hennar einkunnarorð hefðu getað verið lítillát, ljúf og kát.

Ég vil minnast elsku Dúddu minnar með þessum fátæklegu orðum og þakka henni fyrir allt það góða sem hún kom með inn í okkar líf.

Hrönn Harðardóttir.

Jarþrúður Guðný Pálsdóttir, Dúdda, var systir mömmu minnar Sigríðar Pálsdóttur, sem bjó lengst af í Vallargerði 39, Kópavogi.

Fyrsta minning mín af Dúddu er frá því að hún kom í fyrsta skipti í heimsókn frá Ameríku og dvaldi hjá okkur í Vallargerðinu.

Þær minningar eru af henni í fínum fötum, háhæluðum skóm, með ferðatöskur sneisafullar af alls konar sælgæti og dóti, sem var ætlað systkinabörnunum hennar, fyrir sunnan og vestan.

Dúdda fór ekki hefðbundna leið ungrar konu um miðja síðustu öld. Hún hafði fetað í fótspor mömmu með því að fara í Húsmæðraskólann á Blönduósi, en ég held að megi segja að þar hafi hún ekki fundið sinn tebolla.

Hún hafði sjálfstæði til að fylgja draumum sínum, sem virtust líklegri til að rætast í borg en bæ.

Eftir ársdvöl í Englandi sem au-pair, með bestu „kennara“ sem hún gat fengið, þ.e. börnin, sem voru dugleg að leiðrétta hana, hóf hún störf sem afgreiðslustúlka hjá Okulus í Austurstræti. Eftir sjö ára starf þar fór hún með bestu meðmæli til New Jersey og New York.

En þar fannst henni bæði vera of heitt og of kalt, svo hún stoppaði ekki lengi á því svæði en hélt til San Francisco. Þar undi hún sér vel í 17 ár og starfaði hjá símafyrirtækinu Pacific Telecompany. Líkt og í Okulus, var henni fljótt treyst fyrir fleiri verkefnum en hún var upphaflega ráðin til. Eftir tíu ára starf fékk hún verðlaun fyrir að mæta til vinnu hvern einasta dag þau ár, eða eins og sagði „neither the sun or the rain kept you from work“. Fyrir utan samviskusamlega mætingu í vinnu lagði hún kapp á æfingar og keppnir í samkvæmisdönsum. Dagleg rútína var: út kl. 8 á morgnana, byrja á kaffi hjá Mexíkananum á horninu, taka strætó í vinnuna, eftir vinnu heim, skipta um föt og fara á dansæfingu. Um helgar var svo stundum keyrt um langan veg til að taka þátt í keppnum.

Þetta var auðvitað álag en hún elskaði að dansa, sagði að það væri eins og hún kæmist í annan heim þegar hún dansaði.

En svo kom að því að Dúdda kenndi sér meins í fótum, tók tímabundið frí frá vinnu og kom heim til Íslands. Hún fór út aftur en var stuttu síðar alkomin heim og bjó þá fyrst um sinn á neðri hæðinni hjá pabba og mömmu í Vallargerðinu.

Þegar ég lít til baka á þann tíma hjá Dúddu, þá koma upp orðin æðruleysi og gott lundarfar.

Í Vallargerðinu tengdist Dúdda nágranna sínum, Steinunni Halldórsdóttur, sem rak saumastofu í bílskúr. Þær deildu léttum húmor og að eiga auðvelt með að hlæja. Dúdda starfaði um tíma hjá Steinunni þegar álag var í rekstrinum, en sú vinna og ekki síst samskiptin við Steinunni voru Dúddu einstaklega mikils virði á þessum tíma.

Á meðan Dúdda bjó í Vallargerðinu, átti ég frumburðinn Ólöfu Hugrúnu og tók Dúdda virkan þátt í lífi hennar með ýmsu móti, t.d. með því að sækja hana til dagmömmu og í grunnskólann.

Dúddu virtist aldrei leiðast og var alltaf sjálfri sér nóg, með krossgátu, sitthvað að lesa, spá og spekúlera. En hún fór líka alltaf út á hverjum degi á kaffihús og naut þess að sitja innan um fólk og lesa blöðin.

Að leiðarlokum koma þrjár myndir upp í hugann, teknar á 40 ára tímabili.

Mynd af Dúddu með Ólöfu Hugrúnu mína þriggja mánaða í fanginu, mynd af Dúddu með Mugg minn á sama aldri og mynd sem var tekin viku áður en hún kvaddi, með barnabarnið mitt, Dag Geisla í fanginu.

Elsku Dúdda, hafðu þökk fyrir allt og allt,

Kristín Helga
Guðmundsdóttir.