Skipulagsstofnun hefur komist að þeirri niðurstöðu að heildaráhrifin af fyrirhugaðri framkvæmd þýska fyrirtækisins E. P. Power Minerals með vikurnámi úr Háöldu á Mýrdalssandi og miklum þungaflutningum með jarðefnin til Þorlákshafnar, verði verulega neikvæð

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Skipulagsstofnun hefur komist að þeirri niðurstöðu að heildaráhrifin af fyrirhugaðri framkvæmd þýska fyrirtækisins E. P. Power Minerals með vikurnámi úr Háöldu á Mýrdalssandi og miklum þungaflutningum með jarðefnin til Þorlákshafnar, verði verulega neikvæð.

Þetta kemur fram í áliti sem Skipulagsstofnun hefur birt um umhverfismat vegna framkvæmdanna. Eins og ítarlega hefur verið sagt frá í Morgunblaðinu eru áform fyrirtækisins að ráðast í umfangsmikið vikurnám við Hafursey á Mýrdalssandi og flytja efnið með vörubílum sem verði í stöðugum flutningum 170 km leið til Þorlákshafnar þar sem það verði lestað í skip. Er vikrinum ætlað að koma í stað kolaösku úr kolaorkuverum sem notað er sem íblöndunarefni í sementsframleiðslu. Á seinasta ári voru áform um efnismagnið endurskoðuð og dregið úr umfanginu. Taldi fyrirtækið ekki raunhæft að flytja meira en 500 þúsund tonn af efni landleiðina til Þorlákshafnar á hverju ári en upphaflega stóð til að efnistakan yrði milljón tonn á ári. Það myndi þýða að þegar fullum afköstum verði náð verði flutningabílarnir 30 talsins, fulllestaðir í 54 ferðum yfir sólarhringinn 280 daga á ári. Þar sem vörubílarnir aka síðan tómir sömu leið til baka muni þeir fara um veginn á 13 mínútna fresti.

Í áliti Skipulagsstofnunar er vísað í umsögn Vegagerðarinnar þar sem m.a. kemur fram að almennt sé miðað við að þungaumferð sé um 10% af heildarumferð á þjóðvegum en reikna megi með að hún aukist í 15-20%. Aukning af þeirri stærðargráðu geti haft margvísleg áhrif, s.s. á mengun, hávaða, ferðamennsku, umferðaröryggi og niðurbrot vega. Þungaumferðin brjóti vegi hraðar niður en umferð fólksbíla og búast megi við að slysum fjölgi um 3-5 á ári með aukinni umferð á vegum framkvæmdaraðila vegna flutnings á 500 þús. tonnum á ári. Skipulagsstofnun bendir á að hlutfall þungra bíla sé mismunandi eftir vegköflum á þjóðvegum og gera megi ráð fyrir „að á sumum vegköflum á flutningsleiðinni sé hlutfall þungaumferðar undir 10% en á öðrum yfir 10%. Ef miðað er við að þungaumferð í dag sé 10% af umferð á öllum vegköflum, má gera ráð fyrir að efnistaka á Mýrdalssandi leiði til 10%-152% aukningar á þungaumferð á vegköflum á leiðinni [...].“

Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar segir m.a. um þetta að fjöldi vörubíla muni verða mjög fyrirferðamikill á langri flutningsleið milli Mýrdalssands og Þorlákshafnar. Vinsælir staðir dragi til sín fjölda ferðamanna með tilheyrandi umferð sem fari illa saman við umfangsmikla efnisflutninga stórra vörubíla. „Vegakerfið hefur á undangengnum árum átt fullt í fangi með að mæta þeirri umferð sem er fylgifiskur ört vaxandi ferðamennsku, ekki síst á Suðurlandi. Enn síður virðist vegakerfið þess bært að taka við þeirri miklu umferðaraukningu mjög stórra vörubíla sem fylgir fyrirhugaðri efnistöku á Mýrdalssandi. Umferðarmannvirkin eru ekki byggð fyrir slíkt álag þar sem hver fulllestaður vörubíll er talinn slíta vegum á við 10.000 fólksbíla. Áhrif þeirrar þungaumferðar eru ótvíræð á slit vega og umferðaröryggi. Búast má við umfangsmiklu niðurbroti á vegum vegna þungaumferðarinnar. Umferðarslysum mun fjölga vegna mikillar fjölgunar stórra vörubíla á mjög langri flutningsleið. Einnig gætir afleiddra áhrifa á loftgæði, hljóðvist, ásýnd, útivist og ferðaþjónustu. Skipulagsstofnun er sammála Vegagerðinni og telur áhrif framkvæmdanna á vegi og umferðaröryggi verða verulega neikvæð,“ segir í álitinu.

Í niðurstöðukafla segir að áhrifin verði þó mögulega einna mest við Þorlákshöfn. Ef efnislagerinn verður staðsettur vestan við þéttbýlið „þá mun á u.þ.b. viku fresti þurfa að flytja efni frá efnislager um Suðurstrandarveg og til hafnar þar sem efninu verður komið í skip. Þá daga sem lestun á sér stað bætast um 540 flutningabílar á vegkaflann sem gerir 22,5 bíla á klst. yfir sólarhringinn. Það á vera ljóst að við lestun komi umferð að næturlagi til með að margfaldast frá því sem nú er, sem kann að valda ónæði meðal íbúa næst flutningsleið að höfn.“

Höf.: Ómar Friðriksson