Lífeyrir Fólk lifir lengur og lífeyrisgreiðslur dreifast á lengri tíma.
Lífeyrir Fólk lifir lengur og lífeyrisgreiðslur dreifast á lengri tíma. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríksisins segir það fjarri sanni að raunávöxtun LSR hafi verið neikvæð um nærri 19% á síðasta ári eins og sagt var í frétt í Morgunblaðinu í vikunni. Hið rétta sé að hún hafi verið neikvæð um 12,9% og að…

Hörður Vilberg

hordur@mbl.is

Framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríksisins segir það fjarri sanni að raunávöxtun LSR hafi verið neikvæð um nærri 19% á síðasta ári eins og sagt var í frétt í Morgunblaðinu í vikunni. Hið rétta sé að hún hafi verið neikvæð um 12,9% og að raunávöxtun A-deildar hafi verið neikvæð um 12,1% sem sé sambærilegt við raunávöxtun annarra lífeyrissjóða á síðasta ári.

Þá hafi raunávöxtun LSR á síðustu fimm árum verið jákvæð um 4,3% og meðalraunávöxtun A-deildar hafi verið sú sama á tímabilinu. Jafnframt sé það rangt að tryggingafræðileg staða sjóðsins árið 2020 hafi verið slík að skerða hefði átt réttindi.

LSR hefur boðað breytingar á áföllnum réttindum sjóðfélaga frá 1. júlí nk. og munu mánaðarleg réttindi minnka um 4-12% á mánuði, mismikið eftir aldri. Ástæður þess eru breyttar reglur um hvernig meta skuli lífslíkur fólks en fólk lifir almennt lengur nú en áður og það hefur áhrif á framtíðargreiðslur lífeyrisins. Rætt hefur verið um að verið sé að skerða lífeyrisgreiðslur en Harpa telur það ekki rétt. „Fólk fær jafnmikið greitt í heildina. Það er ekki verið að taka neitt af því en greiðslurnar þurfa að ná yfir lengri tíma. Það er stóra málið.“

Ríkuleg réttindi

Harpa segir að sjóðfélagar geti alla jafna tekið ákvarðanir um lífeyristökualdur sjálfir, möguleiki sé að seinka lífeyristökualdri og fá óbreyttar mánaðarlegar greiðslur en ákveði fólk að seinka ekki lífeyristöku þá lækka mánaðarlegar greiðslur. Mörgum brá í brún við fréttir af breytingunum sem eru fyrirhugaðar hjá tilteknum lífeyrissjóðum, m.a. LSR. „Við stöndum ágætlega og höfum í gegnum tíðina veitt mjög ríkuleg réttindi.“ Hún segir breytingarnar nú þungbærastar fyrir þá sem eru komnir á eftirlaun og geta litlu breytt í sínum áætlunum en þar er lækkunin 4,1%. „Það er það sem manni finnst þungbærast en góðu fréttirnar eru þær að 83% af þeim hópi eru með bakábyrgð frá ríkinu. Þeir fá enga lækkun.“

Lífeyrisaukasjóður

Í umfjöllun Morgunblaðsins um ávöxtun lífeyrissjóða í vikunni var stuðst við útreikninga sérfræðinga í lífeyrismálum, sem rýndu í reikninga LSR en þar var m.a. horft til tryggingafræðilegrar stöðu svokallaðs lífeyrisaukasjóðs.

Honum er ætlað að bæta upp muninn á jafnri og aldurstengdri ávinnslu. Hann var greiddur til LSR í tengslum við réttindabreytingar í júní 2017, þegar aldurstengd réttindaávinnsla var tekin upp. Þeir sem voru í jafnri ávinnslu héldu þeim rétti áfram eftir kerfisbreytingarnar 2017. Árið 2022 námu eignir hans 135 milljörðum króna, en tryggingafræðileg staða hans var neikvæð um 18,6% 2022 og hefur verið neikvæð frá 2017.