Formaður Bændasamtaka Íslands, Gunnar Þorgeirsson, segir að aðstæður íslenskra bænda séu erfiðar um þessar mundir. Hann fagnar væntanlegum hækkunum á verði til bænda sem afurðastöðvar hafa boðað í haust enda nái bændur almennt ekki endum saman

Formaður Bændasamtaka Íslands, Gunnar Þorgeirsson, segir að aðstæður íslenskra bænda séu erfiðar um þessar mundir. Hann fagnar væntanlegum hækkunum á verði til bænda sem afurðastöðvar hafa boðað í haust enda nái bændur almennt ekki endum saman.

„Við höfum haft verulegar áhyggjur af afkomu bænda,“ segir Gunnar og bendir á að afurðaverð til þeirra hafi fallið um allt að 40% árið 2017 og ekki sé búið að vinna þá lækkun til baka. Hlutdeild innflutts kjöts sé nú um fimmtungur af markaðnum þar sem tollavernd vegna samninga við ESB hafi farið minnkandi á undanförnum árum.

Gunnar segir að aukinn innflutningur á kjöti hafi haft mikil áhrif á innlenda framleiðslu sem hafi dregist saman. Efnahagsaðstæðurnar bíta einnig landbúnaðinn eins og aðrar atvinnugreinar, háir stýrivextir og mikil verðbólga. „Rekstrarkostnaður er ekki að lækka hjá bændum.“

Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands, segir ljóst að hækkun á afurðaverði til bænda muni að einhverju leyti fara út í verðlag á smásölumarkaði í haust.

Verð hækkar til bænda

SS boðar 18% hækkun á afurðaverði í haust.

Norðlenska hækkar um 15% að lágmarki.

Ákvörðunar KS er að vænta.