Guðmundur Jón Bjarnason
Guðmundur Jón Bjarnason
Vel hugsuð og útfærð eigna- og viðhaldsstjórnun leggur lóð á vogarskálar sjálfbærni, betri orkunýtingar og minni sóunar

Guðmundur Jón Bjarnason

Alþjóðlegur dagur eigna- og viðhaldsstjórnunar er nú haldinn í fyrsta sinn, 9. júní 2023, og verður héðan í frá haldinn árlega á þessum degi. Samtök víða um heim hafa komið að undirbúningi þessa, þar með talið EVS, Eigna- og viðhaldsstjórnunarfélag Íslands. EVS var stofnað árið 2009 og er virkur meðlimur í EFNMS, European Federation of National Maintenance Societies.

Eigna- og viðhaldsstjórnun gengur út á að stuðla að langlífi, áreiðanleika og öryggi hvers kyns kerfa, búnaðar og mannvirkja á sem hagkvæmastan máta og með sem minnstri sóun. Eigna- og viðhaldsstjórnun er „heilbrigðiskerfi“ mannvirkja og tækjabúnaðar. Það þarf að skrá hvern „einstakling“ og tryggja að nýju kerfi líði vel. Þeir sem nota kerfið daglega, til dæmis framleiðslueiningu í verksmiðju eða kælikerfi í verslun eða vinnslu, eru ígildi foreldra sem passa upp á kerfið á hverjum degi og afgreiða einföld mál. Af og til þarf svo að fá aðstoð sérfræðinga vegna eftirlits eða skipulagðra aðgerða, sem er jú ígildi þess að við förum reglulega til lækna í eftirlit, rannsóknir og „viðgerðir“ ef eitthvað bjátar á. Allir sinna eigna- og viðhaldsstjórnun enda eigum við öll eignir sem þarf að viðhalda. Að sama skapi sinnum við fjármálastjórnun enda eigum við fjármagn og skuldir sem þarf að henda reiður ár. Almennt spjörum við okkur hvað þetta varðar að mestu leyti sjálf. Það gildir þó ekki þegar við erum komin með umfangsmikinn rekstur, þá þurfum við til þess menntað fólk sem styðst við hugbúnaðarkerfi og fylgir ákveðnum leikreglum. Það má ekki færa bókhald „einhvern veginn“, það væri varasamt og líkast til óþarflega kostnaðarsamt þar sem til staðar eru ákveðnar reglur sem stuðla að hagkvæmni við bókhaldsvinnuna auk þess að reikningsskil verða gegnsærri en ella, rekjanleiki til staðar og viðurkenndar leikreglur uppfylltar. Þetta á vel að merkja við um stjórnun af öllu tagi, fjármálastjórnun, öryggisstjórnun, gæðastjórnun og svo framvegis. „Stjórnun“ má að vissu leyti skilja sem safn viðurkenndra leikkerfa sem sýnt hefur verið fram á að skili margvíslegum ávinningi og ætlast er til þess að þeir sem geri sig gildandi á viðkomandi vettvangi þekki. Eigna- og viðhaldsstjórnun er í engu frábrugðin, innan þess sviðs eru til þekkt leikkerfi og staðlar á borð við ISO 55001 sem gagnast þeim sem bera ábyrgð á langlífi, öryggi og áreiðanleika mannvirkja af ýmsu tagi hjá fyrirtækjum, stofnunum og bæjarfélögum. Það er vissulega hægt að „gera eitthvað“ og jafnvel að komast upp með það um tíma en það er líklegt til að valda skaða eða sóun til lengri tíma. Þau sem sinna eigna- og viðhaldsstjórnun eru alla jafna með tæknilegan bakgrunn, til dæmis iðnaðarmenn, tækni- og verkfræðingar. Mikilvægt er að þeir sem leiða eigna- og viðhaldsstjórnun hafi auk þess tekið valgreinar og frekari námskeið á þessu sviði. Enn fremur er mikilvægt að lykilstjórnendur fyrirtækja beri skynbragð á málaflokkinn og styðji við hann, sér í lagi þar sem eigna- og viðhaldsstjórnun er hluti af kjarnastarfsemi og þá er einnig æskilegt að eigna- og viðhaldsstjóri sitji við framkvæmdastjóraborðið.

Þeim sem þetta skrifar hefur löngum þótt að málaflokkurinn njóti ekki verðskuldaðrar athygli. Skýringar eru sjálfsagt ýmsar. Það er t.a.m. mannlegt að gefa því gaum sem brennur á okkur þá stundina. Grunntónninn í eigna- og viðhaldsstjórnun er hins vegar að hugsa til lengri tíma með það að markmiði að tryggja langlífi og áreiðanleika búnaðar og mannvirkja, persónuöryggi starfsmanna og öryggi umhverfisins, sem sagt „gott mataræði“ og „líkamsrækt“ fyrir búnað og mannvirki. Síðan gildir alla jafna það sama fyrir búnað og kerfi og okkur sjálf að þó svo við séum ekki að sinna fyrirbyggjandi aðgerðum „akkúrat núna“, þá kemur það ekki að sök strax og því er freistandi að taka slíkt léttum tökum, eða hreint og beint með sem fæstum tökum. Hafandi sagt þetta, þá er þó rétt að ítreka að það eru mörg fyrirtæki og einstaklingar á Íslandi, líkt og annars staðar, sem hafa tekið eigna- og viðhaldsstjórnun föstum tökum og keppast við að gera stöðugt betur og þessi fyrirtæki hafa alla jafna uppskorið betur rekin fyrirtæki fjárhagslega og samfélagslega. Auk þess má merkja að viðhorf til málaflokksins er að breytast til betri vegar og það má sjálfsagt m.a. þakka kröfu samfélagsins um aukna sjálfbærni, betri orkunýtingu og minni sóun. Vel hugsuð og útfærð eigna- og viðhaldsstjórnun leggur lóð á allar þessar vogarskálar. Stjórnendur og sérfræðingar fyrirtækja sem byggja starfsemi sína á umfangsmiklu safni tækjabúnaðar og mannvirkja eru hvattir til að gefa eigna- og viðhaldsstjórnun verðskuldaða athygli og á þeim nótum má nefna að 18. til 19. október verður haldin fyrsta alþjóðlega ráðstefnan á vettvangi eigna- og viðhaldsstjórnunar á Íslandi, sjá nánar á heimasíðu félagsins, www.evs.is.

Höfundur er verkfræðingur, framkvæmdastjóri DMM Lausna og situr í stjórn EVS.