Uppskera Um 110 tonn af slægðum laxi voru seld til viðskiptavina.
Uppskera Um 110 tonn af slægðum laxi voru seld til viðskiptavina.
„Þetta er stór stund og mikilvægur áfangi,“ segir Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Landeldis hf. en fyrstu slátrun á laxi í landeldisstöð fyrirtækisins í Þorlákshöfn er lokið. Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að alls hafi tæplega 50 þúsund löxum verið slátrað

„Þetta er stór stund og mikilvægur áfangi,“ segir Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Landeldis hf. en fyrstu slátrun á laxi í landeldisstöð fyrirtækisins í Þorlákshöfn er lokið. Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að alls hafi tæplega 50 þúsund löxum verið slátrað. Stærstu laxarnir voru um fimm kíló en meðalþyngd var tæplega þrjú kíló. Slátrun, vinnsla, pökkun og sala gekk samkvæmt áætlun og voru um 110 tonn af slægðum laxi seld og send til viðskiptavina beggja vegna Atlantshafsins í síðustu viku.

Haft er eftir Eggerti í tilkynningunni að þessi tímamót séu afrakstur vinnu síðustu fimm ára. „Sú staðreynd að laxinn hefur dafnað afar vel síðastliðið ár í landeldisstöð okkar við Þorlákshöfn og að viðskiptavinir okkar gefa afurðinni hæstu einkunn sökum bragðgæða, sýnir okkur svart á hvítu að sú tækni sem við beitum í landeldisstöð okkar er að sanna sig.“

Ríflega 1,75 milljónir laxa eru nú í seiða- og áframeldisstöðvum Landeldis. Næsta slátrun er fyrirhuguð í ágúst. „Landeldi á laxi er í eðli sínu nýsköpunarverkefni og við eigum enn langt í land í lærdómskúrfunni en þessi afar vel heppnaða fyrsta uppskera og jákvæð viðbrögð viðskiptavina staðfesta að við erum á réttri leið. Við höldum ótrauð áfram uppbyggingu umhverfisvæns og sjálfbærs laxeldis á landi.“