Heræfingar Úkraínskur hermaður æfir sig að skjóta skriðdrekabana á heræfingu í Donetsk-héraði, skammt frá víglínunni sem nú er barist um.
Heræfingar Úkraínskur hermaður æfir sig að skjóta skriðdrekabana á heræfingu í Donetsk-héraði, skammt frá víglínunni sem nú er barist um. — AFP/Anatolii Stepanov
Harðir bardagar geisuðu víða í Saporísja- og Donetsk-héruðunum í fyrrinótt, þar sem Úkraínuher gerði nokkrar könnunarárásir á nokkrum stöðum víglínunnar. Rússneska varnarmálaráðuneytið sagðist hafa hrundið öllum áhlaupum Úkraínumanna þá um nóttina…

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Harðir bardagar geisuðu víða í Saporísja- og Donetsk-héruðunum í fyrrinótt, þar sem Úkraínuher gerði nokkrar könnunarárásir á nokkrum stöðum víglínunnar. Rússneska varnarmálaráðuneytið sagðist hafa hrundið öllum áhlaupum Úkraínumanna þá um nóttina og valdið gríðarlegu mannfalli hjá árásarliðinu, en ekki var hægt að staðfesta þær upplýsingar í gær.

Mikil óvissa ríkti raunar um stöðuna, en Úkraínustjórn hefur sagt að ekki verði nein formleg tilkynning um upphaf fyrirhugaðrar gagnsóknar þeirra. Hanna Maljar, aðstoðarvarnarmálaráðherra Úkraínu, sagði þó í gær að Rússar væru nú komnir í varnarstöðu sunnan við Orikhív í Saporísja-héraði. Þá geisuðu enn bardagar við Velíka Novosilka í Donetsk-héraði.

Maljar sagði einnig að Úkraínumenn væru enn að sækja fram við Bakhmút, en að Rússar hefðu einnig reynt árásir þar án árangurs. Þá hefðu Rússar reynt að sækja fram við Avdívka og Líman.

Breska varnarmálaráðuneytið sagði í mati sínu á stöðunni í gær að hún væri mjög flókin og að miklir bardagar væru á mörgum stöðum meðfram víglínunni. Sagði ráðuneytið að Úkraínumenn héldu frumkvæðinu á flestum stöðum, en að téténskar hersveitir á vegum Rússa hefðu reynt árás í nágrenni Donetsk-borgar, þar sem víglínan hefði lítið breyst frá árinu 2015.

Segja gagnsóknina hafna

Rússneskir herbloggarar sögðu stöðuna víða mjög erfiða fyrir Rússa, þar sem Úkraínumenn hefðu beint mikilli stórskota- og eldflaugahríð að varnarstöðum þeirra vítt og breitt um víglínuna. Þá bárust einnig óstaðfestar fregnir um að Úkraínumenn nýttu nú dróna mjög til árása á varnarstöður Rússa.

Ígor Girkín, einn af helstu herforingjum Rússa í innrás þeirra í Donbass-héruðin 2014, sagði á telegram-síðu sinni að ljóst væri að gagnsókn Úkraínumanna væri hafin og að komandi orrustur gætu staðið yfir í nokkra daga eða nokkrar vikur eftir því hvernig árásarliðinu veitti af.

Girkín sagði þó að Rússar hefðu náð að halda aftur af Úkraínumönnum til þessa með aðstoð loftárása og að enn væri sá möguleiki fyrir hendi að gagnsóknin fjaraði út. Hann varaði hins vegar við því að þeir myndu ekki ná að hefja aftur sjálfir sóknaraðgerðir nema til kæmi almenn herkvaðning í Rússlandi.

Þakkaði björgunarmönnum

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti heimsótti í gær flóðasvæðin í Kerson-héraði sem mynduðust eftir að Nova Kakhovka-stíflan brast aðfaranótt þriðjudags. Talið var að flóðin í Dnípró-fljótinu væru nú í rénun eftir að hafa náð hámarki í fyrradag, en engu að síður var vatnshæðin sums staðar sögð hafa náð rúmlega fimm metrum.

Selenskí þakkaði björgunarsveitum og sjálfboðaliðum fyrir þrotlaust starf þeirra við að forða fólki undan flóðunum. Hafa björgunarsveitir notað gúmbáta til þess að aðstoða fórnarlömb flóðanna og koma þeim á þurrt, en margir neyddust til að forða sér upp á húsþök sín til þess að komast undan vatnselgnum.

Oleksandr Prokúdín, héraðsstjóri Kerson-héraðs, sagði að um það bil 600 ferkílómetrar væru undir vatni, þar af væru 68% þess svæðis innan rússneska hernámssvæðisins. Áætlað er að rúmlega 2.600 hús hafi farið undir vatn á því svæði sem Úkraínumenn ráða yfir, en um 30 mannabyggðir urðu fyrir barðinu á flóðunum beggja vegna Dnípró-fljótsins.

Að minnsta kosti níu særðust vegna stórskotahríðar Rússa á flóðasvæðin, þar af sex óbreyttir borgarar, einn lögreglumaður og tveir starfsmenn almannavarna Úkraínu. Sagði Prokúdín að læknir og þýskur sjálfboðaliði væru á meðal hinna særðu. Leppstjórn Rússa í héraðinu sakaði á móti Úkraínumenn um að hafa fellt tvo brottflutta einstaklinga með stórskotahríð.

Undrast viðbrögð SÞ

Selenskí sagði í samtali við þýska dagblaðið Bild að viðbrögð bæði Sameinuðu þjóðanna og Rauða krossins við eyðileggingu stíflunnar hefðu komið sér á óvart, þar sem hvorug samtökin hefðu sent fólk á vettvang. Viðbrögð SÞ hafa verið sérstaklega gagnrýnd, en samfélagsmiðlar samtakanna birtu á þriðjudaginn auglýsingar um dag rússneskrar tungu, en nefndu ekki eyðileggingu stíflunnar eða þær hörmungar sem hún myndi hafa í för með sér.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, NATO, kallaði saman neyðarfund í gær til að ræða hvernig hægt væri að senda Úkraínumönnum aðstoð vegna þess sem hann kallaði „hina svívirðilegu eyðileggingu“ stíflunnar. Skoraði Stoltenberg á bandalagsríkin að senda neyðaraðstoð þegar í stað til þess að bregðast við hinu mikla umhverfisslysi.

Sagði í yfirlýsingu NATO eftir fundinn að bandalagsríkin hefðu lýst yfir fullum stuðningi við Úkraínu og að mörg þeirra væru nú þegar að senda mikilvæga aðstoð, þar á meðal vatnssíunarbúnað, vatnsdælur og efni til að reisa skýli.