Á Sikiley Margrét María, eiginkona Guðmundar, með börnin fjögur á löngu ferðalagi um Evrópu 2014-2015. Þau dvöldu á Sikiley í tvo mánuði.
Á Sikiley Margrét María, eiginkona Guðmundar, með börnin fjögur á löngu ferðalagi um Evrópu 2014-2015. Þau dvöldu á Sikiley í tvo mánuði.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðmundur Pálsson fæddist 9. júní 1973 í Reykjavík. Hann ólst upp fyrstu árin í Breiðholti og Árbæ en flutti átta ára gamall á Reykjaveg 72 í Mosfellssveit, þar sem helstu leiksvæðin voru hlíðar Úlfarsfells og Hafravatn

Guðmundur Pálsson fæddist 9. júní 1973 í Reykjavík. Hann ólst upp fyrstu árin í Breiðholti og Árbæ en flutti átta ára gamall á Reykjaveg 72 í Mosfellssveit, þar sem helstu leiksvæðin voru hlíðar Úlfarsfells og Hafravatn.

Guðmundur gekk í Varmárskóla og Gagnfræðaskóla Mosfellssveitar en lauk svo stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð. Hann lærði íslensku við Háskóla Íslands og lauk þaðan BA-prófi árið 1998.

„Ég vann ýmis störf með námi fyrir Póst og síma og Landssímann þar sem ég lærði að vinna af frábærum mönnum. Var einkaritari forstjóra Hafrannsóknastofnunarinnar, starfaði á samskiptadeild Íslenskrar erfðagreiningar, sneri aftur á Hafró og sinnti þar útgáfumálum, vefsíðugerð, skjalavörslu og fleiru, fékk meðal annars að fara nokkra túra á sjó, sem var ómetanleg reynsla.

Ég fékk árið 2006 símtal frá Sigurjóni M. Egilssyni ritstjóra DV sem spurði hvort ég ætti mér ekki draum um að verða blaðamaður. Það reyndist afdrifaríkt símtal því þá hófst ferill í fjölmiðlum sem stendur enn. Hóf árið 2007 störf á fréttastofu Ríkisútvarpsins og Rás 2 í afleysingum til þriggja mánaða og er enn hjá RÚV 16 árum síðar.“ Guðmundur hefur stýrt ýmsum útvarpsþáttum á báðum rásum, unnið fyrir vef, hlaðvarp og sjónvarp en er núna annar stjórnenda Samfélagsins á Rás 1.

„Samhliða þessu hef ég átt feril með Baggalúti sem var stofnaður sem útgáfufélag í Menntaskólanum við Hamrahlíð en þróaðist í að verða frumkvöðull í netgríni með vefsíðunni baggalutur.is og síðar nokkuð vinsæl hljómsveit sem hefur gefið út nokkrar plötur og er einna þekktust fyrir árlegar jólatónleikaraðir undanfarin 17 ár.“

Baggalútur hefur einnig komið að alls konar skrifum, tónlistarflutningi og gjörningum fyrir útvarp og sjónvarp, gefið út bækur og spil svo eitthvað sé nefnt. Baggalútur hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar, þar á meðal íslensku tónlistarverðlaunin, Hlustendaverðlaunin og viðurkenningu á Degi íslenskrar tungu.

„Mér líður langbest heima hjá okkur í Mosfellsbæ með fjölskyldunni og tíkinni Flugu, sem er mín besta vinkona. Næstbest líður mér með fjölskyldunni í húsi Baggalúts á Flateyri, fallegasta stað í heimi.

Annars er stærsta áhugamálið líklega ferðalög en við fjölskyldan höfum farið víða. Víðast þó á árunum 2014-2015 þegar við vorum á tíu mánuði á ferðalagi á bílnum okkar um Evrópu, við Margrét konan mín og börnin fjögur, sem voru þá á aldrinum þriggja til sautján ára. Við fórum til 17 landa og lentum í frábærum ævintýrum sem við búum enn að og rifjum reglulega upp.“ Í ferðalaginu hélt Guðmundur úti hlaðvarpinu Pabbi þarf að keyra, fyrir fjölmiðilinn Kjarnann.

„Stóra ferðalagið kveikti líka næststærsta áhugamálið, sem er hlaup. Eina leiðin til að reyna að halda sér í formi á svona löngu ferðalagi var nefnilega að hlaupa. Ég hef hlaupið nánast allar götur síðan til að halda líkamlegri og kannski aðallega andlegri heilsu og er í seinni tíð farinn að hlaupa lengri vegalengdir. En ég er lítill keppnismaður og hef bara einu sinni hlaupið 10 km í Reykjavíkurmaraþoni, sem var skemmtilegt.

Ég hef reyndar líka náð að ferðast með Baggalúti. Auðvitað um landið en líka erlendis. Við fórum í afar eftirminnilega og afdrifaríka ferð til Pétursborgar í Rússlandi, spiluðum á hipsterahátíð í Berlín, skemmtum á fáránlegri sveppahátíð í Skotlandi, heimsóttum Íslendingaslóðir í Vesturheimi, tókum upp plötu í Nashville og fórum í stóra Baggalútsfjölskylduferð í franskan kastala. Allt mjög eftirminnilegt.“

Guðmundur er með réttindi til að stjórna skemmtibát. „Ég keypti ásamt félögum hreint frábæran bát sem liggur við Snarfarahöfn í Reykjavík. Það er með því skemmtilegra sem maður gerir að sigla út á sundin í góðu veðri með góðum vinum. Maður gerir það því miður bara allt of sjaldan. Við Margrét keyptum okkur líka sjókajaka í fyrra og erum byrjuð að prófa okkur áfram á þeim. Það lofar mjög góðu.

En stærsta verkefnið er auðvitað fjölskyldan sem er alltaf í fyrsta, öðru og þriðja sæti. Við búum svo vel að vera með stóran garð sem er algjör paradís á sumrin og það eru næg verkefni í honum. Það langskemmtilegasta er að slá grasið með samstarfskonu mína, Veru Illugadóttur, eða Illuga pabba hennar í eyrunum. Þannig næ ég nær fullkominni núvitund. Ég gæti slegið gras dögum saman ef það væri í boði. Frú Margrét er hins vegar mun duglegri í garðyrkju, pallasmíði og flestu sem kallar á verkvit.“

Fjölskylda

Eiginkona Guðmundar er Margrét María Leifsdóttir, f. 31.7. 1972, verkfræðingur og fiðlusmiður. Þau eru búsett í Holtahverfinu í Mosfellsbæ. Foreldrar Margrétar eru hjónin Vilborg Ingólfsdóttir, f. 3.6. 1948, hjúkrunarfræðingur og lýðheilsufræðingur, og Leifur Bárðarson, f. 8 5. 1948, barnaskurðlæknir. Þau eru búsett í Reykjavík.

Dóttir Guðmundar með Elínu Hrund Þorgeirsdóttur, f. 10.5. 1973, verkefnastjóra, er Diljá Helga, f. 9.12. 1997. Börn Guðmundar og Margrétar eru Máni Helgason, f. 9.2. 1999, María, f. 28.7. 2007, og Snorri, f. 18.8. 2011.

Systur Guðmundar eru Guðrún Björg Pálsdóttir, f. 13.12. 1968, leikskólastjóri í Mosfellsbæ, og Helga Pálsdóttir, f. 11.8. 1978, húsmóðir í Mosfellsbæ.

Foreldrar Guðmundar eru Páll Guðmundsson, f. 18.2. 1946, fyrrverandi verslunarmaður, búsettur í Mosfellsbæ, og Steinunn Hákonardóttir, f. 26.6. 1949, fyrrverandi félagsmálafulltrúi hjá Blindrafélaginu, búsett í Mosfellsbæ.