Mögnuð Elín Klara Þorkelsdóttir var bæði valin best og efnilegust á verðlaunahófi HSÍ í Minigarðinum í Skútuvogi í gær.
Mögnuð Elín Klara Þorkelsdóttir var bæði valin best og efnilegust á verðlaunahófi HSÍ í Minigarðinum í Skútuvogi í gær. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rúnar Kárason úr ÍBV og Haukakonan Elín Klara Þorkelsdóttir voru valin bestu leikmenn úrvalsdeildar karla og kvenna á verðlaunahófi Handknattleikssambands Íslands, sem haldið var í Minigarðinum í Skútuvogi í gær

Handbolti

Jökull Þorkelsson

jokull@mbl.is

Rúnar Kárason úr ÍBV og Haukakonan Elín Klara Þorkelsdóttir voru valin bestu leikmenn úrvalsdeildar karla og kvenna á verðlaunahófi Handknattleikssambands Íslands, sem haldið var í Minigarðinum í Skútuvogi í gær.

Ásamt því að vera valin best fengu Rúnar og Elín einnig önnur verðlaun en Rúnar var valinn mikilvægasti leikmaður deildarinnar og fékk fyrir vikið Valdimarsbikarinn. Elín var þá einnig valin efnilegasti leikmaður deildarinnar.

„Það er alltaf gaman að fá viðurkenningu fyrir sín störf. Ég get nú ekki sagt að þetta sé eitthvað sem maður stefnir endilega að. Aðalmálið er bara að við gátum siglt titlinum heim. Það er það sem er skemmtilegast og þetta er bara smá súkkulaðikurl í kakóið,“ sagði Rúnar um að vera valinn bestur.

„Þetta er búið að vera draumi líkast. Tímabilið sjálft var allskonar og síðan var stígandi í þessu hjá okkur frá því í febrúar sem toppast alveg eins mikið og hægt er í úrslitakeppninni. Það er bara ótrúlega gaman að vera til núna,“ sagði Rúnar.

Rúnar er spenntur fyrir framhaldinu en hann gengur til liðs við Fram á næsta tímabili. „Það er afar sætt að ná að kveðja þetta svona vel hjá ÍBV og ég er rosalega þakklátur fyrir minn tíma þar. Maður er smám saman að lenda eftir meistaraflugið og aðeins farinn að heyra núna í Einari þjálfari og pæla í hvernig næsta tímabil verður. Nú nær maður sér eftir erfiða úrslitakeppni og eftir eina til tvær vikur fer maður að undirbúa næsta tímabil. Ég er bara mjög spenntur að koma heim og vera partur af þessari frábæru aðstöðu í Úlfarsárdal,“ sagði Rúnar um framhaldið.

Það er mikill heiður

Elín Klara segist líta til baka á tímabilið með mikilli ánægju, en Haukar duttu út í framlengdum oddaleik undanúrslitanna gegn ÍBV, eftir að hafa verið síðasta liðið inn í úrslitakeppnina.

„Þetta er búið að vera bara frábært tímabil ef maður horfir á þetta heilt yfir með úrslitakeppninni og öllu því sem fylgdi henni. Þetta byrjaði nokkuð brösuglega hjá okkur en svo endaði þetta framar okkar vonum. Það er mikill heiður að vera valin besti leikmaður deildarinnar. Það er margt sem hefði samt mátt fara betur. Við vorum ekki að standa okkur nægilega vel í deildinni en úrslitakeppnin var hápunktur. Þar stóðum við okkur frábærlega og við megum vera stoltar af því,“ sagði Elín að lokum í samtali við Morgunblaðið en hún verður áfram hjá Haukum á næsta ári. Allar upplýsingar um verðlaunahafa á hófinu má sjá á mbl.is/sport/handbolti.

Höf.: Jökull Þorkelsson