Eins og tíðarfarið hefur verið, þá er við hæfi að gefa Pétri Stefánssyni orðið með „Bæn höfuðborgarbúa“. Enn skal byrja bænatuð bara í tveimur liðum. Heyrðu mig nú góði guð góðverk tvö ég bið um

Eins og tíðarfarið hefur verið, þá er við hæfi að gefa Pétri Stefánssyni orðið með „Bæn höfuðborgarbúa“.

Enn skal byrja bænatuð

bara í tveimur liðum.

Heyrðu mig nú góði guð

góðverk tvö ég bið um.

Vil ég helst þú aukir yl

svo úlpunni megi sleppa.

Fjandi hvað mig fýsir til

að fara í sumarleppa.

Vertu nú guð minn góður kall

svo gefist sumarveisla.

Láttu skína á fjörð og fjall

fagra sólargeisla.

Á þessum vettvangi hefur áður verið fjallað um úrslit Vísnasamkeppni Safnahúss Skagfirðinga. Tíðar sólarlandaferðir Íslendinga og áhrif þeirra á verðbólgudrauginn voru þar yrkisefni og þvældist það ekki fyrir Guðmundi Einarssyni:

Ráðvilltir í raunum hósta

ráðamenn í sölum þinga.

Til að stöðva tíða pósta

tásumynda Íslendinga.

Elínborg Erla Ásgeirsdóttir velti því fyrir sér hvort Íslendingar ættu ekki bara skilið að fá birtu í sál og sinni að afloknum hremmingum heimsfaraldursins:

Mörgum hefur hugnast best

að hunsa Ásgeirs þanka.

Nú veirulúin veðja flest

á vexti í Gleðibanka.

Gaman var að heyra af vísnakeppni Rásar 2 fyrir um og yfir 30 árum, en þá var þrautin fólgin í því að semja vísu með innihaldinu „Gull í greipar“. Magnús Geir Guðmundsson bar sigur úr býtum:

Ægisfaðmur okkur sveipar,

ísakaldur, hélugrár.

Hans við sækjum gull í greipar,

giftu lands í þúsund ár.

Menntamálastofnun hefur efnt til samkeppni grunnskólanema og varð Magdalena Jónasdóttir hlutskörpust með þessum botni árið 2016:

Frostið bítur kalda kinn,

kominn úlputími.

Úti snjóar enn um sinn,

undir vegg ég hími.