Sigrún Rafnsdóttir fæddist á Akranesi 21. október 1951. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi 24. maí 2023.

Foreldrar Sigrúnar voru Sigurlaug Sigurðardóttir frá Gneistavöllum, f. 28. júlí 1930, d. 10. október 2018, og (Úlfar/Ronni) Rafn Sigurðsson frá Borgarnesi, f. 1. júní 1931, d. 24. október 1992. Sammæðra bræður Sigrúnar voru Sigurður Bjarni Gylfason, f. 1. ágúst 1955, d. 29. desember 2022, Ægir Magnússon, f. 1. ágúst 1957 og Hafsteinn Þór Magnússon, f. 1. september 1960. Samfeðra systkini Sigrúnar voru Signý Birna, f. 1. september 1956, og Ævar Andri, f. 27. maí 1958.

Sigrún giftist hinn 11. apríl 1969 Einari Jóhanni Guðleifssyni vélvirkjameistara, f. 20. júlí 1947. Foreldrar Einars voru Guðleifur Sigurðsson, f. 9. júlí 1918, d. 27. júlí 1991, og Margrét Olga Einarsdóttir, f. 31. ágúst 1919, d. 24. október 2003. Börn Sigrúnar og Einars eru: 1) Guðrún, f. 20. nóvember 1968, gift Benedikt S. Benediktssyni, f. 21. júlí 1974, börn þeirra eru Úlfar Rafn, f. 25 júní 2001, og María Rún, f. 21. nóvember 2003. 2) Guðleifur Rafn, f. 28. mars 1972, giftur Christel B. Rúdolfsdóttur Clothier, f. 11. apríl 1976, dóttir þeirra er Sigrún Rafney, f. 29 ágúst 2016, börn Christelar af fyrra hjónabandi eru Margrét Saga, Hervar og Elvira Agla. 3) Einar Þór, f. 21. mars 1980, giftur Önnu L. Sigurðardóttur, f. 11. febrúar 1981, barn þeirra er Natalie, f. 23. júní 2011.

Sigrún ólst upp hjá ömmu sinni og afa, Sigurlínu Jónsdóttur og Sigurði B. Bjarnasyni frá Gneistavöllum. Sigrún hóf störf á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi, þá Sjúkrahúsi Akraness, 17 ára gömul og vann þar allar götur síðan. Árið 1978 lauk Sigrún sjúkraliðanámi.

Útför Sigrúnar verður frá Akraneskirkju í dag, 9. júní 2023, klukkan 13.

Mamma var einkar ljúf, mild og umhyggjusöm kona og ekki mikið fyrir að trana sér fram. Eiginkona, móðir og amma sem átti mjög farsælan feril sem sjúkraliði á Sjúkrahúsinu á Akranesi. Hún elskaði starfið sitt og eignaðist þar margar góðar vinkonur sem héldu ávallt góðu sambandi. Henni féll sjaldan verk úr hendi, vann vaktavinnu alla tíð og hugsaði um heimilið af alúð. Hún prjónaði, heklaði, saumaði og var iðin við bakstur og eldamennsku, allt lék í höndum hennar. Hún var hjálpsöm og ráðagóð og boðin og búin til að aðstoða. Flanaði ekki að neinu og ekki til fljótfærni í henni, hugsaði allt vel og vandlega. Hún var ekki konan sem kíkti inn í fatabúð og kom þaðan út með nýja flík, öðru nær, heldur keypti þær eftir 4-5 ferðir og andvökunætur í þokkabót. Stálminnug, með báða fætur á jörðinni, eftirtektarsöm, hafði gaman af músík og að fara í leikhús.

Barnabörnin voru mömmu ljósgeislar og hún elskaði að fylgjast með þeim vaxa og dafna. Þú eignaðist Guðrúnu kornung og þurftir leyfi dómsmálaráðherra til að giftast pabba hálfu ári seinna enda hafðir þú ekki náð tilskildum aldri. Alla tíð gættir þú okkar og fylgdist með því að okkur gengi vel. Þú og pabbi voru afar samrýmd hjón. Heimsóknir á fallega heimilið ykkar hafa reynst öllum í fjölskyldunni ferð á griðastað þar sem unnt hefur verið að ræða alla heima og geima.

Þú varst í senn móðir okkar og besta vinkona. Þú varst mjúk og viðræðugóð en einnig harðjaxl. Ungæðishátt okkar tempraðir þú ásamt pabba og ræktaðir í okkur tilfinningu fyrir ábyrgð, vinnusemi og auðmýkt. Þó kunnir þú að hafa gaman. Auðvelt er að kalla fram í hugann hlátur þinn á góðum stundum. Margir skipta um pólitískar skoðanir en ekki þú. Hjá þér var himinninn alltaf blár án þess að þú ætlaðist til þess að aðrir væru sama sinnis.

Mamma, þú varst stöðugleikinn í lífi okkar. Það er okkur huggun að þú hafir fengið að leggjast til hvílu eftir nokkuð löng og erfið veikindi en kveðjustundin er afar sár. Við systkinin erum nokkuð ólík og örugglega ekki alltaf auðvelt að ala okkur upp. Guðrún, elst, var unglingur af hressara taginu og eftir henni vaktir þú ávallt allt þar til hún skilaði sér heim, löngu eftir áætlaðan háttatíma. Gulli, miðjubarnið, er líkastur þér að lundarfari, næmur og viðkvæmur. Einar, yngstur, er sá hressasti þó af honum fari sú saga að hann hafi átt óvenjuauðvelt með svefn, lengi fram eftir aldri. Okkur komuð þið pabbi til manns og tókuð alltaf svo vel á móti börnunum okkar.

Garðurinn ykkar pabba í Jörundarholtinu ber þess merki hversu natin og dugmikil þið hafið verið. Þó handtökin hafi eflaust verið flest pabba höfum við ávallt litið svo á að hann sé merki ykkar beggja. Þú varst pabba sannur maki alla tíð og í ýmsu tilliti snerist líf þitt um hann og hans athafnir og fyrir það erum við þér afar þakklát. Við þökkum þér fyrir lífið, tilveruna, stuðninginn og hlýjuna. Þú verður ávallt með okkur en þín verður samt saknað afar sárt, elsku mamma.

Guðrún, Guðleifur Rafn
og Einar Þór.

Okkar fyrstu kynni voru á jóladegi fyrir nokkrum árum, Gulli var ólmur í að ég kæmi með honum í matarboð í Jörundarholtið til að hitta fjölskylduna sína og þá sérstaklega móður sína sem hann talaði svo fallega um. Ég var eitthvað treg til að hitta alla í einu en sló síðan til. Um leið og ég steig inn í fallega húsið þeirra tók dásemdin hún Sigrún á móti mér sem seinna varð tengdamóðir mín, tók utan um mig og bauð mig velkomna í fjölskylduna. Þessi móttaka var svo lýsandi fyrir okkar samband sem einkenndist frá fyrsta degi af hlýju okkar á milli, virðingu, kærleik og vináttu og fyrir það er ég svo þakklát. Hún tók mér og börnunum mínum opnum örmum. Það var svo einstakt að sjá hvernig samband hennar og Sigrúnar Rafneyjar dóttur okkar Gulla var, hún umvafði hana kærleik og var alltaf boðin og búin að hjálpa til þó hún væri ekki góð til heilsunnar, góðsemin og hjálpsemin var aldrei langt undan. Allt sem hún gerði var gert vel, hvort sem það var að baka handa okkur, prjóna vettlinga á börnin eða gæta Sigrúnar litlu. Bestu stundirnar okkar voru þegar við sátum og spjölluðum við eldhúsborðið í Jörundarholtinu, heimsóknir þeirra hjóna til okkar og gleðin sem því fylgdi og ferðirnar og samverustundirnar sem við áttum og má þá nefna Tenerife-ferðina með fjölskyldunni og hringferðina sem við fórum sumarið 2020. Tengdó, eins og ég kallaði hana, bjó við heilsubrest síðustu misserin, það var sárt að horfa á hana svona veika, það er erfitt að horfa á eftir fólki sem maður virðir og þykir vænt um. Takk fyrir allt, góðar minningar lifa.

Þín tengdadóttir,

Christel.

Án þess að ég geti verið viss leyfi ég mér að halda því fram að Sigrúnu tengdamóður minni hafi nú bara litist svona rétt mátulega á mig þegar ég hitti hana fyrst. Guðrún, eiginkona mín, dró mig í heimsókn til Sigrúnar og Einars tengdapabba heldur stuttu eftir að við kynntumst. Ekki leið hins vegar á löngu uns ég taldi mig finna fyrir stuðningi hennar og þeirra beggja.

Okkur Guðrúnu lá á og rúmu ári eftir að ég hitti Sigrúnu fyrst fæddist frumburðurinn sonur okkar. Dóttir okkar fæddist rúmu einu og hálfu ári síðar. Mikið bar á orðunum „amma og afi á Akranesi“ á heimilinu næstu árin. Sigrún dekraði við börnin okkar, tók þau til sín til að hvíla foreldrana og klæddi börnin handprjónuðum glæsifatnaði, allt frá heimferðardressum til yfirhafna. Meira að segja smekkirnir þeirra voru heklaðir af Sigrúnu. Þó minningar af uppeldi barnanna minna séu dálítið teknar að fölna get ég fullyrt að stuðningur Sigrúnar var ómetanlegur. Móðurhlutverkið reyndist konunni minni svo sannarlega léttara en ella með hana sem öflugan bakhjarl og ráðgjafa.

Sigrún hafði góðan smekk. Fallegt heimili Sigrúnar og Einars endurspeglar enn fágaðan og hófstilltan stíl Sigrúnar og ber að miklu leyti sterk karaktereinkenni hennar. Ekkert prjál en sterk nærvera, fá orð, undirliggjandi skopskyn.

Ég hef aldrei skilið dauðann, ekki í aðdragandanum, þegar hann ber að eða tilfinningar á tímanum að honum afstöðnum. Með sanni get ég þó sagt að ég skynja afar sterkt það tómarúm sem Sigrún skilur eftir sig. Á sama tíma fylla minningar um hana hjörtu allra hennar nánustu. Söknuður er e.t.v. nærtæk lýsing.

Það er erfitt að kveðja þig Sigrún. Þú varst okkur fjölskyldunni stuðningsmaður númer eitt og ég get ekki þakkað þér nógsamlega. Sjáumst á ný þegar að því kemur.

Benedikt S. Benediktsson.

Elsku tengdamamma mín lagði aftur augun í hinsta sinn og fékk vængina sína 24. maí síðastliðinn.

Elsku Sigrún mín, Það er svo sárt að þurfa að kveðja þig. Þú varst einstök kona, móðir, amma og tengdamamma, umhyggjusöm, hjartahlý og traust.

Við fjölskyldan öll syrgjum nú góða konu með hlýju og gleði sem hún tengdamamma gaf með lífi sínu. Hún var og verður ávallt fyrirmynd okkar fyrir styrk sinn og þrautseigju.

Takk fyrir að vera ávallt til staðar, standa með okkur og vera í okkar liði. Við munum alltaf minnast þín og elska þig, minning þín verður ávallt í hjarta okkar og fylgir okkur í gegnum lífið.

Takk fyrir allt.

Hver minning dýrmæt perla að
liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug
þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem
gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að
kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Þín tengdadóttir,

Anna.

Naprir vindar næða, nú er ég kveð þig, elsku Sigrún. Hugurinn ámóta og dimmviðri liðinna vikna. Biðin eftir björtum sumarnóttum er nú eitthvað svo fjarlæg. Þú tókst á við erfið veikindi á einstakan hátt, þú varst sterkur persónuleiki og það hefur komið sér vel á erfiðum stundum. Einar, kletturinn þinn, var þér við hlið alltaf á ykkar lífsins göngu. Sjúkraliðastarfið var þitt ævistarf, þú varst dugleg, mikil smekkmanneskja og einstakt snyrtimenni. Þú varst fjölskyldumanneskja af bestu gerð, fólkið þitt var þér allt. Þú minntir mig ætíð á hann pabba, sama fasið, augun og bæði dul að eðlisfari en glettnin aldrei langt undan. Við vorum líklega ekki duglegustu systur í heimi með að hittast, en það er ekki mælikvarði á væntumþykju. Þú varst systir mín, ég elskaði þig og ég sakna þín.

Megi guð umvefja þig og fjölskyldu þína.

Hversu þreytt sem þú varst,

hvað sem þrautin var sár,

þá var hugur þinn samt

eins og himinninn blár:

eins og birta og dögg

voru bros þín og tár.

Og nú ljómar þín sól

bak við lokaðar brár.

(Jóhannes úr Kötlum)

Þín systir,

Signý Birna Rafnsdóttir

Ljúft er að

minnast

við leiðarlok.

Megi þakklæti mitt

og kærleikur

fylgja þér

í eilífðarljósið

fagra og bjarta

(ir)

Eftir löng og erfið veikindi hefur elsku Sigrún mágkona mín fengið hvíldina.

Ég minnist þess þegar ég sá hana fyrst. Einar hafði keypt sér fyrsta bílinn og ég litla systir hans fékk að fara með honum á rúntinn. Þar sem við keyrum Kirkjubrautina mætum við stúlku í svartri Bezt-úlpu sem horfir brosandi til bílstjórans. Einar lítur til mín og segir: „Mikið brosir hún fallega þessi.“ Það sem ég vissi ekki þá var að þar var komin verðandi eiginkona hans, Sigrún Rafns. Ég verð reyndar að játa að ég var nú ekkert alltof glöð þar sem mér fannst að það væri verið að stela bróður mínum, en það var óþarfi því að á milli okkar Sigrúnar hefur alltaf verið mikill og góður vinskapur, svo mikill reyndar að ég giftist bróður hennar og við því orðnar tvöfaldar mágkonur. Þótt leiðir okkar Sigga hafi skilið átti ég alltaf stuðning hennar eftir það.

Sigrún var dugnaðarforkur og gekk í verkin. Hún vann vaktavinnu og sinnti heimili sínu af mikilli natni og umhyggju því hún var „eyrnapinna-þrifin“ eins og sagt er í fjölskyldunni.

Hún menntaði sig til sjúkraliða og vann við það í tæp 50 ár eða þar til hún þurfti að hætta vegna veikinda. Það starf átti vel við Sigrúnu og þar nutu eiginleikar hennar sín vel því hún sinnti öllu sínu af mikilli umhyggju og hlýju, fjölskyldunni sinni og þeim sem hún sinnti í starfi. Það var því Sigrúnu mikið áfall þegar Siggi bróðir hennar dó í desember sl. eftir stutt en erfið veikindi. Hún glímdi við mikið og fjölþætt heilsuleysi síðustu árin en talaði lítið um þau, frekar spurði hún frétta af mér og strákunum mínum.

Við áttum margar góðar stundir saman og mörg undanfarin ár höfum við systkinin haldið áramótin saman, stórfjölskyldan komið saman á jóladag í Jörundarholtinu að ógleymdri skötuveislunni þar fyrir jólin. Við fórum í skemmtilegar ferðir erlendis, einnig margar sumarbústaðaferðir höfum við farið saman og átt ljúfar stundir. Minnisstæðust er ferðin árið 2020 en þá hringdi Sigrún í mig að kvöldi til og tilkynnti mér að ég væri að koma með þeim og fjölskyldunni í ferðalag daginn eftir, sem endaði sem hringferð um landið. Svona var Sigrún, hugsaði alltaf um aðra.

Við hittumst í hverri viku og oft tvisvar og nú í langan tíma komu hún og Einar alltaf til mín í sunnudagskaffi og þótt hún ætti ekki gott með að ganga upp stigann til mín eftir að hún veiktist lét hún það ekki stoppa sig.

En leiðarlokin eru komin og leiðir skilur í bili. Ég er full þakklætis fyrir að hafa fengið að njóta samvista við yndislega mágkonu mína og átt dýrmætar stundir með henni. Takk fyrir að vera partur af lífi mínu, elsku Sigrún – takk fyrir óendanlega fallega vináttu.

Elsku Einar og fjölskylda öll, hjartans samúðarkveðjur til ykkar allra og megi falleg minning Sigrúnar lýsa ykkur veginn áfram.

Sólrún Guðleifsdóttir.

Kæra, af hverju er svona erfitt að skrifa minningarorð um þig? Trúlega vegna þess að þú varst mér svo nær og kær.

Við héldum öll, fjölskylda þín og vinir, að við fengjum að njóta nærveru þinnar lengur hér hjá okkur en raunin varð. Þú varst sjúkraliði að mennt og vannst á sömu deild og síðustu ævidagar þínir eru skráðir. Ég kynntist þér fyrst þegar þú varst níu ára og ég giftist Benna, frænda þínum. 15 ára gömul varstu sumarlangt hjá okkur Benna í Reykjavík að líta eftir elsta barni okkar. Stóðst þig vel eins og ávallt. 17 ára kynntist þú Einari þínum á sveitaballi og hann hefur haldið í hönd þína allar götur síðan. Um tveggja ára skeið bjugguð þið í sama húsi og mamma mín, húsi sem afi Einars og afi minn byggðu saman, þá ungir menn. Þá voruð þið Einar með tvö börn, síðar kom þriðja barnið til sögunnar. Ég vil trúa því að í húsi forfeðra hafi handavinnuáhugi þinn vaknað fyrir alvöru, því eftir það urðu til meistarastykki í prjóni, saumi og öðru í höndum þínum. Þú varst líka bakari góður. Gaman var að skjótast upp á Skaga í kaffi til ykkar hjóna þar sem þið bjugguð í yndislegu húsi sem frænka þín (Albína) hafði teiknað fyrir ykkur. Fyrir nokkrum árum fór að syrta í álinn fyrir alvöru, þar sem þú varðst alltaf veikari og veikari af parkinson auk annarra kvilla. 24 maí sl. dró verulega til tíðinda og þú fórst frá okkur öllum.

Mínar innilegustu samúðarkveðjur fær Einar, börn, bræður og vinir.

Hvíl í friði elsku vinkona.

Heiðrún Þorgeirsdóttir.

Ég dáist að þér

þar sem þú situr í stólnum þínum.

Kjarkur þinn svo óbilandi,

kyrrð þín svo umvefjandi,

gleði þín svo gefandi.

Örlögin

áttu ekkert auðvelt hlutverk

handa þér.

Þau vissu

hvers þú varst megnug.

Hugrekki þitt

er hjörtum okkar

eilífur lærdómur.

(Rut Gunnarsdóttir)

Með þakklæti og góðum minningum kveðjum við okkar kæru vinkonu hana Sigrúnu, sem hefur nú kvatt og lagt af stað í Sumarlandið eftir erfið veikindi. Hún er sú þriðja úr okkar hópi sem kveður á rúmum fjórum árum og söknuður fyllir hjörtu okkar æskuvinkvennanna.

Vinskapur okkar og Sigrúnar varði árin mörg og á hann bar aldrei neinn skugga. Við minnumst allra stundanna sem við áttum saman í gleði og sorg. Ljóminn sem stafar af samveru okkar með Sigrúnu minnir um leið á hve lífið er hverfult.

Minningarnar frá heimsóknum til Einars og Sigrúnar á Bjarkargrundinni og síðar Jörundarholtinu eru dýrmætar. Móttökurnar höfðinglegar og ávallt glatt á hjalla, sem og annars staðar þar sem við hittumst. Ófá danssporin voru stigin við gömlu góðu uppáhaldslögin og sungið og tjúttað fram á morgun.

Við vinkonurnar áttum yndislegar stundir með Sigrúnu í Jörundarholtinu síðustu mánuðina, þar sem hún sat í stólnum sínum góða og Einar hennar tilbúinn með kaffi og með því. Þessara stunda verður sárt saknað.

Við þökkum þér samfylgdina elsku vinkona, gjöful og ljúf kynni, æskuárin okkar góðu og samveruna alla tíð. Þar sem hláturinn, gleðin og vinarkærleikurinn umvafði okkur. Það er okkar trú að það verði glatt á hjalla hjá ykkur Massý, Vallý og þér í Sumarlandinu. Minning þín er ljós í lífi okkar.

Elsku Einar, Guðrún, Gulli, Einar Þór og fjölskyldur, hjartans samúðarkveðjur til ykkar.

Við sjáumst ekki aftur, söngur þinn
er hljóður

en sálir okkar mætast í ljósinu’ eins
og fyrrum.

Tíminn sem við áttum var tær og
hreinn og góður

tryggðaböndin ofin á ljúfum
stundum kyrrum.

(Rut Gunnarsdóttir)

Hafdís Hákonardóttir,
Rún Elfa Oddsdóttir, Kristrún Valtýsdóttir, Sigþóra Sigurjónsdóttir, Sólveig Ásgeirsdóttir Hausler og
Sigurlaug Jóhannsdóttir.

Vinátta okkar Sigrúnar, sem ég kveð í dag, varði í yfir 40 ár.

Við störfuðum saman á A-deild Sjúkrahúss Akraness. Sigrún var frábær starfsmaður og góður vinnufélagi. Það var Sigrúnu erfitt þegar hún þurfti að láta af störfum vegna heilsubrests.

Hópurinn sem vann hvað lengst saman hefur hist reglulega utan vinnu. Sigrún var oft hláturmild og hreif okkur allar með sér. Við á A-deildinni fórum oft í bústað til Jónsínu okkar, einnig í utanlandsferðir til Kaupmannahafnar og Brighton.

Sigrúnu að óvörum var blásið til veislu á heimili þeirra Einars á 70 ára afmæli hennar. Svo mikil leynd hvíldi yfir öllu að engum bíl mátti leggja við húsið. Þennan morgun hringdi ég meðal annars í hana og óskaði henni til hamingju með daginn og sagði henni að ég kæmi til hennar eftir helgi. Strákarnir hennar skruppu með hana í bíltúr og komu svo með hana þegar mátti. Ég gleymi aldrei svipnum á vinkonu minni þegar hún gekk inn í eigin veislu. Hún ljómaði þetta kvöld. Þau fóru svo Einar og Sigrún með börn og tengdabörn á Hótel Geysi.

Kæri Einar, börn og tengdabörn. Mínar dýpstu samúðarkveðjur, megi Guð vaka yfir ykkur.

Elsku Sigrún mín, það er sárt að kveðja þig. En ótal minningar fara í gegnum huga mér. Ég er þakklát fyrir þær. Þú ert nú komin í sumarlandið þar sem margir fagna þér og ert laus við þjáningar. Þú kvaddir þennan heim umvafin ást og umhyggju þinna nánustu. Hafðu þökk fyrir allt og allt. Megi Guð gæta þín.

Þín vinkona

Ólöf.