Tónskáldið Stjarna Önnu skín skært um þessar mundir.
Tónskáldið Stjarna Önnu skín skært um þessar mundir. — Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
Anna Þorvaldsdóttir er staðartónskáld Aldeburgh-hátíðarinnar í Suffolk á Englandi sem hefst í dag og stendur til 25. júní. Hátíðin er meðal helstu tónlistarviðburða Bretlandseyja og var á sínum tíma sett á laggirnar af einu þekktasta tónskáldi Breta, Benjamin Britten

Anna Þorvaldsdóttir er staðartónskáld Aldeburgh-hátíðarinnar í Suffolk á Englandi sem hefst í dag og stendur til 25. júní.

Hátíðin er meðal helstu tónlistarviðburða Bretlandseyja og var á sínum tíma sett á laggirnar af einu þekktasta tónskáldi Breta, Benjamin Britten. Hátíðin fer árlega fram í Aldeburgh, heimabæ Brittens á austurströnd Englands, og eru tvö tónskáld í brennidepli hverju sinni. Í ár, auk Önnu, kanadíska tónskáldið Cassandra Miller.

Á meðal fyrri staðartónskálda má nefna Witold Lutoslawski, Alfred Schnittke, Elliott Carter, Hans Werner Henze, Henri Dutilleux, György Kurtág, og Toru Takemitsu.

Meðal verka Önnu sem flutt verða á hátiðinni eru sinfónían AION í flutningi BBC Symphony Orchestra undir stjórn Hannu Lintu, hljómsveitarverkið METACOSMOS i flutningi BBC Philharmonic undir stjórn Rumons Gamba og strengjakvartettinn Rituals í flutningi Danish String Quartet.

Þá frumflytur Konunglegi breski ballettinn við Óperuhúsið í Covent Garden nýtt dansverk eftir Wayne McGregor sem samið var við tónverk Önnu, METACOSMOS og CATAMORPHOSIS. Hljómsveit Óperuhússins leikur undir stjórn Koens Kessels.

Í viðtalsgrein í The Guardian sem birtist á þriðjudaginn í tilefni Aldeburgh-hátíðarinnar er Anna hlaðin lofi og tónverkum hennar meðal annars líkt við hreyfingar skriðjökuls.