Sveitarstjórn Rangárþings ytra ætlar ekki að fara fram á það við Skipulagsstofnun að fresta því að taka ákvörðun um landnotkun fyrir Búrfellslund, samkvæmt verndar- og orkunýtingaráætlun, rammaáætlun, í allt að tíu ár, líkt og nágrannar þeirra í Skeiða- og Gnúpverjahreppi hafa gert

Inga Þóra Pálsdóttir

ingathora@mbl.is

Sveitarstjórn Rangárþings ytra ætlar ekki að fara fram á það við Skipulagsstofnun að fresta því að taka ákvörðun um landnotkun fyrir Búrfellslund, samkvæmt verndar- og orkunýtingaráætlun, rammaáætlun, í allt að tíu ár, líkt og nágrannar þeirra í Skeiða- og Gnúpverjahreppi hafa gert.

Þetta staðfesta Eggert Valur Guðmundsson, oddviti Á-listans í Rangárþingi ytra, og Jón G. Valgeirsson sveitarstjóri í samtali við Morgunblaðið. Í gær greindi Morgunblaðið frá því að sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefði ákveðið að fara fram á frestun við Skipulagsstofnun.

Fjögur ár nægur tími

Síðasta sumar var Búrfellslundur settur í nýtingarflokk fyrir vindorkuvirkjanir í rammaáætlun. Í framhaldi sótti Landsvirkjun um virkjanaleyfi til Orkustofnunar. Samkvæmt kynningarmyndbandi á heimasíðu Landsvirkjunar er áætlað að vindorkuver rísi vestan Þjórsár, sem er í Rangárþingi ytra. Aftur á móti eru tvö tengivirki í nágrenni áætlaðs framkvæmdasvæðis, við Sultartanga og Búrfell, í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Samkvæmt lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun er rammaáætlun bindandi við gerð skipulagsáætlana. Þá skulu sveitarstjórnir samræma gildandi svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlanir rammaáætluninni innan fjögurra ára frá samþykkt hennar.

Jón segir Rangárþing ytra telja þennan fjögurra ára frest duga til að komast að niðurstöðu og hefur sveitarstjórn frestað því að taka fyrir breytingar á aðalskipulagi. „Við viljum meina að það sé nægilegt til að komast að niðurstöðu í þessu.“

Breyta þurfi skattaumgjörð í kringum vindorku

Ákvörðun Skeiða- og Gnúpverjahrepps um að fara fram á frestun hefur væntanlega þau áhrif á að það verði ekkert gert þarna í nokkurn tíma þótt þið hafið ákveðið að halda ykkur við að nýta fjögurra ára frestinn?

„Mögulega og mögulega ekki. Ef þau ætla að fara fram á þetta við Skipulagsstofnun þá er spurning hvort að þetta sé einhliða ákvörðun hjá þeim í fyrsta lagi. Í öðru lagi þá er fjögurra ára frestur í lögunum til að melta og skoða þetta. Við höfum þá heimild til að nýta okkur fjögurra ára frestinn þó svo við förum ekki í tíu ár,“ segir Jón.

Jón og Eggert kveðast þó vera sammála sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps um að breyta þurfi skattaumgjörðinni í kringum vindorku, en Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur einmitt skipað starfshóp sem hann hefur falið að skoða skattalegt umhverfi orkuvinnslu á Íslandi.

Höf.: Inga Þóra Pálsdóttir