— Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga og BSRB skiptust á skeytum í gær. Enginn fundur hefur verið boðaður í kjaradeilunni og verkfall um 2.500 félagsmanna BSRB heldur áfram í 29 sveitarfélögum

Forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga og BSRB skiptust á skeytum í gær. Enginn fundur hefur verið boðaður í kjaradeilunni og verkfall um 2.500 félagsmanna BSRB heldur áfram í 29 sveitarfélögum. Mótmælt var fyrir utan bæjarskrifstofur Kópavogs í gær og á myndinni til hliðar má meðal annars sjá leikskólabörn sem hoppuðu í pollum meðan á mótmælunum stóð.

Samband íslenskra sveitarfélaga hafnaði því í yfirlýsingu í gær að misrétti sé beitt þegar kemur að launum fólks fyrir sömu störf. Sambandið segir BSRB hafa hafnað tilboði um launahækkanir frá 1. janúar 2023 árið 2020 og sem hefðu þá tryggt sömu laun fyrir sömu störf milli sveitarfélaga frá þeim tíma. „Nú sækir BSRB leiðréttingu á mistökum sínum af mikilli hörku á sveitarfélögin með víðtækum verkfallsaðgerðum og ásökunum um að sveitarfélög mismuni starfsfólki í launum. Starfsfólki er talin trú um að vinnuveitendur þeirra mismuni þeim og sýni lítilsvirðingu. Sveitarfélögin eru útmáluð í afar ódrengilegri auglýsingaherferð sem slæmir vinnuveitendur. Ekkert er fjær sanni.“

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, vill ekki kannast við að núverandi staða sé upp komin vegna þess að BSRB hafi gert þau mistök að hafna góðu boði. Kjarni málsins sé sá að innan sveitarfélaga fái fólk ólík laun fyrir sambærileg eða sömu störf.