Landbúnaður Verð á innlögðu dilkakjöti til bænda hækkar í haust.
Landbúnaður Verð á innlögðu dilkakjöti til bænda hækkar í haust. — Morgunblaðið/RAX
Hörður Vilberg hordur@mbl.is SS hefur nú ákveðið að afurðaverð til sauðfjárbænda verði hækkað í haust um 18% fyrir innlagt dilkakjöt og um 12% fyrir fullorðið fé. Í fyrstu viku sláturtíðar eru einnig greidd 15% til viðbótar en slátrun hjá SS hefst 6. september. Steinþór Skúlason, forstjóri fyrirtækisins, segir að verð á sauðfjárafurðum sé aðeins ákveðið einu sinni á ári, ólíkt verðlagningu á öðrum afurðum sem framleiddar eru í hverjum einasta mánuði. „Þá breytist verð oftar.“ Líta þurfi til lengra tímabils við framleiðslu á lambakjöti en á nautakjöti, svínakjöti og hrossakjöti.

Hörður Vilberg

hordur@mbl.is

SS hefur nú ákveðið að afurðaverð til sauðfjárbænda verði hækkað í haust um 18% fyrir innlagt dilkakjöt og um 12% fyrir fullorðið fé. Í fyrstu viku sláturtíðar eru einnig greidd 15% til viðbótar en slátrun hjá SS hefst 6. september. Steinþór Skúlason, forstjóri fyrirtækisins, segir að verð á sauðfjárafurðum sé aðeins ákveðið einu sinni á ári, ólíkt verðlagningu á öðrum afurðum sem framleiddar eru í hverjum einasta mánuði. „Þá breytist verð oftar.“ Líta þurfi til lengra tímabils við framleiðslu á lambakjöti en á nautakjöti, svínakjöti og hrossakjöti.

Erfið staða sauðfjárbænda

Steinþór segir að við ákvörðunina sé horft til stöðu sauðfjárbænda. „Það liggur fyrir að það er búinn að vera verulegur samdráttur í framleiðslu þeirra og ýmislegt bendir til að hann sé jafnvel að aukast. Það vantar eitthvað upp á afkomuna til að menn sjái sér hag í því að vera með sauðfé.“ Steinþór segir að SS muni jafnframt greiða 5% til viðbótar fyrir allt afurðainnlegg árins 2023.

Verð á kjötvörum hækkar

Forstjóri SS segir að verðlagning til neytenda sé annað mál en hækkunin muni klárlega hafa áhrif á verðlagningu á kjötvörum. „Það er ekki augljóst hver þau verða en við metum það svo að það sé ekki grundvöllur fyrir því að velta allri þessari hækkun til neytenda.Það er ekki óeðlilegt ef litið er til baka um eitt ár að það verði einhver hækkun í 10% verðbólgu.“ Steinþór segir þó að ekki sé búið að taka ákvörðun um hækkanir á vörum til neytenda en bændur kalli oft eftir því að verð sé birt tímanlega þannig að það sé gert núna. „Það verður að koma í ljós hvað aðrir gera, hvort þetta verður endanlegt verð eða ekki. Auðvitað átta sig allir á að staðan á markaði er mjög viðkvæm upp á verðbreytingar. Eftir sem áður verður að vera grundvöllur fyrir framleiðslunni.“

Norðlenska tilkynnti um 15% hækkun að lágmarki á meðalafurðaverði til bænda undir lok apríl. Ásgeir Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að verðið muni hækka um 5% umfram verðlagsþróun frá síðustu sláturtíð. Norðlenska er dótturfélag Kjarnafæðis Norðlenska og sér um slátrun en undir það heyra einnig Norðlenska matborðið og SH afurðir. „VIð fögnum því fyrir hönd bænda að fleiri afurðastöðvar komi fram með verð snemma, “ segir Ásgeir Torfi.

KS hefur ekki tekið ákvörðun um verðlagningu til bænda í haust að sögn Ágústs Andréssonar, forstöðumanns kjötafurðastöðvar KS. „Það líður að því að það verði farið í það.“ Fyrirtækið leggi upp með að greiða sambærilegt verð og aðrir á markaðnum.