Kristinn Jens Sigurþórsson
Kristinn Jens Sigurþórsson
„... deilur, átök og illindi koma svo sannarlega við sögu þar sem Kristján Björnsson á í hlut og eru fjölmörg dæmi um það.“

Kristinn Jens Sigurþórsson

Vígslubiskupinn í Skálholti, Kristján Björnsson, fer mikinn þessa dagana enda vígslubiskupskjör fram undan. Tvær greinar eftir hann í Morgunblaðinu nú í maí undirstrika það auk þess sem blaðið tók við hann stutt viðtal með fyrirsögninni „Alltaf gaman að skrifa söguna“. Fyrri greinin ber yfirskriftina „Kirkjan snýst um líf fólks og trú“ og fjallar um hvernig vígslubiskup vill sækja forskrift að kirkjustarfi til Svíþjóðar. Segir hann þá sænsku hafa skýra framtíðarsýn og hafa unnið þrotlaust að markmiðum sínum. Segist vígslubiskup skrifa nánar um efnið og verður fróðlegt að fá þá umfjöllun fram.

Umdeildur vígslubiskup

Í seinni greininni, sem heitir „Skálholtsdómkirkja eins og sjálfsmynd kirkju og kristni“, nefnir vígslubiskup til sögunnar ástandið í Skálholti og segir m.a. að sumar kirkjuklukkur þar hafi verið hættar að hringja og að „sprunga“ hafi verið komin „þvert um hægri arm Drottins“ á altaristöflunni. Óafvitandi er hann að lýsa með myndrænum hætti því andlega ástandi innan þjóðkirkjunnar sem undirritaður hefur því miður kynnst.

Vígslubiskup vitnar einnig í Salómon konung og hefur eftir honum að „deilur“ séu „eins og sífelldur þakleki“. Er biblíukunnátta biskups óburðug því ekki verður fundinn sá staður í Biblíunni þar sem deilum er líkt við þakleka. Hins vegar má finna tvö vers í Orðskviðunum þar sem þrasgjörnum konum er líkt við slíkan leka. Líklega er hér á ferðinni sá fótaskortur á tungu sem jafnan er kenndur við Freud og má geta sér til að deilur séu vígslubiskupi ofarlega í huga. Er það ekki að ófyrirsynju, því deilur, átök og illindi koma sannarlega við sögu þar sem Kristján Björnsson á í hlut og eru fjölmörg dæmi um það. Sjálfur er hann svo meðvitaður um hve umdeildur hann er að í Morgunblaðsviðtalinu bendir hann fólki á að það hafi nú „þennan glugga“ sem kosningin er til að setja fram „ávirðingar á biskup“. Er nýmæli að sjá biskup kalla eftir slíku og er hér að nokkru orðið við áskorun hans. Þá er einnig til þess að horfa að þjóðkirkjan er að landslögum lýðræðisleg stofnun og þarf sem slík að þola opinbera umfjöllun. Verða þessi skrif að skoðast í því ljósi.

Skýrslutaka fyrir Héraðsdómi

Vegna plássleysis verður hér látið nægja að vísa til fjölda þeirra presta og starfsmanna, sem undirrituðum er kunnugt um að hafi þurft að líða fyrir ófagmennsku Kristjáns og óheilindi: Tveir samstarfsprestar hans í Vestmannaeyjum, þrír í Skálholti, tveir starfsmenn biskupsstofu, auk kollega á kirkjuþingi. Hafa m.a. verið lagðar fram formlegar kvartanir á hendur honum. Til viðbótar má nefna ómálefnalega og miskunnarlausa aðkomu vígslubiskupsins að málum fyrrverandi sóknarprests í Grensáskirkju, sem og að málum er snúa að undirrituðum og hefur að hluta verið stefnt fyrir dómstóla. Munu þau fá umfjöllun síðar, en að þessu sinni verður látið nægja að taka fram að við skýrslutöku fyrir Héraðsdómi Suðurlands hinn 18. mars 2021 sagði vígslubiskupinn ósatt hátt í 20 sinnum. Er um mjög alvarlegt brot að ræða. Einnig kom fram með mjög skýrum hætti við skýrslutökuna hve illa vígslubiskup setur sig inn í þau mál sem honum eru falin til úrlausnar, en honum hafði verið fengið umboð bæði biskups Íslands og kirkjuráðs til að fjalla um djúpstæð ágreiningsmál. Hefur framganga vígslubiskups haft alvarlegar afleiðingar fyrir undirritaðan. Eftirfarandi tilvitnun í skýrsluna undirstrikar hvernig Kristján Björnsson hefur rækt skyldur sínar, en hér er að finna hans eigin orð:

„Lögmaður undirritaðs: Hversu vel þekktir þú til ágreiningsefna á þessum tíma, þegar þú færð þetta umboð?

Kristján Björnsson: Ekki mjög mikið annað en bara það sem ég hafði frétt svona út undan mér og varðar ekki þetta tímabil.

Lögmaður undirritaðs: Þú hafðir sem sagt ekkert kynnt þér það neitt sérstaklega hvernig staðan á þessum málum var eða neitt slíkt?

Kristján Björnsson: Ja, við skulum bara … Nei ég hafði ekki kynnt mér það neitt. Ég hafði ekki farið neitt ofan í nein gögn um það …“

M.ö.o. þá hafði vígslubiskupinn Kristján Björnsson ekki kynnt sér þau mál sem honum hafði verið falið að leysa. Kjörmenn Skálholtsstiftis mættu einnig kynna sér hvers vegna Kristján Björnsson lét sig skyndilega hverfa frá störfum í Vestmannaeyjum, þar sem hann hafði þjónað sem sóknarprestur um árabil.

Einungis 18 tilnefningar af 200

Margir hafa undrast hvers vegna sitjandi vígslubiskup í Skálholti, Kristján Björnsson, fékk ekki fleiri en 18 tilnefningar þeirra 67 er tóku þátt í tilnefningu til vígslubiskupskjörs. Hefði við venjulegar kringumstæður mátt ætla að sitjandi biskup nyti mun meira trausts. Niðurstaðan verður enn einkennilegri þegar horft er til þess að hverjum og einum sem tilnefnir er heimilt að tilgreina allt að þrjú biskupsefni, en ætla má að tilnefningar hafi verið um 200 talsins. Vígslubiskup komst hins vegar ekki á blað hjá 49 manns eða u.þ.b. 73% þeirra sem tilnefndu. Verður að telja augljóst að þeir vilji alls ekki að Kristján Björnsson verði áfram í Skálholti. Er það eitt og sér athyglisvert og ætti að vekja kjörmenn stiftisins til rækilegrar umhugsunar.

Höfundur er síðasti sóknarpresturinn sem sat Saurbæ á Hvalfjarðarströnd.