Iðnaðarsvæði Kísilver PCC er með starfsemi á Bakka en markmiðið með Grænum iðngarði á Bakka er að nýta úrgang fyrirtækja sem auðlind.
Iðnaðarsvæði Kísilver PCC er með starfsemi á Bakka en markmiðið með Grænum iðngarði á Bakka er að nýta úrgang fyrirtækja sem auðlind. — Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson
Kári Freyr Kristinsson karifreyr@mbl.is „Samfélagið þarf að fylgja með í svona uppbyggingu,“ segir Karen Mist Kristjánsdóttir, verkefnastjóri Græns iðngarðs á Bakka við Húsavík, en öflugir innviðir séu mikilvægir til þess að byggja upp sterkan grænan iðngarð.

Kári Freyr Kristinsson

karifreyr@mbl.is

„Samfélagið þarf að fylgja með í svona uppbyggingu,“ segir Karen Mist Kristjánsdóttir, verkefnastjóri Græns iðngarðs á Bakka við Húsavík, en öflugir innviðir séu mikilvægir til þess að byggja upp sterkan grænan iðngarð.

Nú stendur yfir undirbúningsvinna hjá stýrihópi Græns iðngarðs á Bakka vegna innviða samfélagsins en þar sitja fulltrúar frá Norðurþingi, Landsvirkjun, umhverfisráðuneytinu, Eimi, Orkuveitu Húsavíkur auk Karenar. Vinnan snýr að því að búa innviði samfélagsins undir starfsemina sem fram á að fara í iðngarðinum. Sem dæmi nefnir Karen að íbúðarhúsnæði, leikskóla- og skólapláss verði að vera til staðar til þess að fjölskyldur geti flust á staðinn vegna iðngarðsins og hafnarstarfsemi þurfi einnig að byggja upp í takt við iðnaðinn.

Ný fyrirtæki eiga að geta komið á svæðið og hafið starfsemi strax. Ekki ætti að þurfa að eyða löngum tíma í uppbyggingu eftir að þau koma á svæðið, segir Karen. Verkefni síðustu missera lúta að því að marka ramma utan um starfsemina og helstu áherslupunkta.

Nýta ónýttar auðlindir

Verkefnið Grænn iðngarður á Bakka snýst um að nýta úrgang sem auðlind. Úrgangur eins fyrirtækis gæti reynst dýrmæt auðlind annars fyrirtækis en það er grunnhugmyndafræðin bak við grænan iðngarð. Þar geti orðið til tenging milli fyrirtækja svo þau geti auðveldlega nýtt úrgang hvers annars til eigin starfsemi.

Hún segir fyrstu verkefni þeirra felast í því að taka til eftir fyrirtækin sem eru nú þegar á Bakka og í kringum Húsavík. Verið sé að skoða hvaða úrgang fyrirtækin losi og hvernig sá úrgangur geti nýst öðrum fyrirtækjum. Dæmi um fyrirtæki sem eru á svæðinu eru PCC, Haukamýri, GPG Seafood, Norðlenska og Samherji fiskeldi en hún segir iðngarðinn ekki þurfa vera svæðisbundinn. Aðspurð segir Karen garðinn koma til með að stækka jafnt og þétt með tímanum en að það krefjist þolinmæði. Möguleikarnir séu endalausir.

Fiskeldi og koltvísýringur

Spurð um spennandi verkefni fram undan segist Karen vilja skoða hvað fellur til í fiskeldi. Í kringum Húsavík eru mörg fiskeldisfyrirtæki með starfsemi. Hún nefnir í því samhengi seyruna. Hún segir að nú sé henni hent í sjóinn en hún sé full af næringarefnum. Á sama tíma sé verið að flytja inn töluvert magn af áburði þegar hægt væri að nýta seyruna sem áburð.

Þá segir hún mikinn koltvísýring falla til á svæðinu og að nú standi yfir rannsókn hjá Landsvirkjun í samvinnu við PCC um möguleika á að framleiða rafeldsneyti. Spurð um viðskiptamódelið segir Karen það ekki vera fullmótað. Það liggi að miklu leyti hjá fyrirtækjunum að móta það. Of stífar reglur geti verið fráhrindandi en hvatar henti vel.