Færeyjar Vél Atlantic Airways á flugvellinum í Vogum.
Færeyjar Vél Atlantic Airways á flugvellinum í Vogum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Færeyjar voru í gær kynntar sem nýr áfangastaður hjá Icelandair. Flogið verður fimm til sex sinnum í viku frá 1. maí og út október á næsta ári. Flogið er í morgunflugi frá Keflavíkurflugvelli og mun áfangastaðurinn því tengjast leiðakerfi Icelandair í Keflavík

Færeyjar voru í gær kynntar sem nýr áfangastaður hjá Icelandair. Flogið verður fimm til sex sinnum í viku frá 1. maí og út október á næsta ári. Flogið er í morgunflugi frá Keflavíkurflugvelli og mun áfangastaðurinn því tengjast leiðakerfi Icelandair í Keflavík.

Icelandair og færeyska flugfélagið Atlantic Airways hafa einnig undirritað viljayfirlýsingu um samstarf. Segir í tilkynningu Icelandair að mikil tækifæri liggi í að bjóða viðskiptavinum félaganna tengingar á milli Færeyja og áfangastaða Icelandair í Evrópu og Norður-­Ameríku. Um er að ræða svipað samstarf um sammerkt flug, eins og Icelandair á við Turkish Airlines og Jet Blue í Bandaríkjunum. Farþegar geta þá bókað tengiflug á milli félaganna á einum miða og innritað farangur sinn alla leið.

Haft er eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair, að Færeyjar séu vaxandi áfangastaður og félagið hafi fundið fyrir miklum áhuga á flugi þangað. Tengsl Færeyinga og Íslendinga hafi alltaf verið mikil og von Icelandair sé sú að með aukinni ferðatíðni muni þau tengsl og samvinna styrkjast enn frekar. Icelandair sé að endurvekja samstarf sitt við Atlantic Airways frá árum áður.

Jóhanna á Bergi, forstjóri Atlantic Airways, segir það hlutverk félagsins að tengja Færeyjar við umheiminn.