Ármann Ægir Magnússon fæddist á Patreksfirði 19. maí 1952. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans í Reykjavík 31. maí 2023.

Ármann Ægir ólst upp á Patreksfirði. Foreldrar hans voru Magnús Jónsson, f. 26. nóvember 1923, d. 14. maí 2011, og Sigríður Hjartardóttir, f. 6. ágúst 1921, d. 12. desember 1987. Systkini Ármanns Ægis sammæðra eru Hjörvar Þór Jóhannesson, f. 1943, d. 1989, Jóhannes Þór Jóhannesson, f. 1945, og Hrafnhildur Þór Jóhannesdóttir, f. 1947. Alsystkin Ármanns Ægis eru Þórdís, f. 1950, og Hafberg, f. 1957.

Ármann Ægir kvæntist 23. desember 1980 Rakel Mónu Bjarnadóttur sérkennara frá Hveragerði, f. 16. desember 1954. Foreldrar hennar eru Bjarni Eyvindsson, f. 3. maí 1920, d. 9. nóvember 2007, og Anna Sigrún Kjartansdóttir, f. 17. janúar 1932.

Dætur Ármanns Ægis og Rakelar Mónu eru: 1) Tinna Rán lyfjafræðingur, f. 20. nóvember 1980, gift Stefáni Jóhannssyni, f. 29. apríl 1973. Börn þeirra eru Hákon Ingi, f. 2008, og Jórunn Móna, f. 2012. 2) Bjarney Sif náms- og starfsráðgjafi, f. 29. júlí 1985, sambýlismaður hennar er Hallgrímur Brynjólfsson, f. 28. janúar 1980. Börn þeirra eru Ísak Ægir, f. 2010, Ísold Anna, f. 2015, og Matthías, f. andvana 2019, dóttir Hallgríms er Guðný Björg f. 2000.

Ármann Ægir lærði húsasmíði í Iðnskólanum á Patreksfirði og í Hveragerði hjá Bjarna tengdaföður sínum. Hann fékk síðar meistararéttindi í húsasmíði. Ármann Ægir starfaði við húsasmíðar í Hveragerði, Noregi og Selfossi áður en hann tók við sem umsjónarmaður orlofsbyggðarinnar í Ölfusborgum og gegndi því starfi þar til hann þurfti að hætta vinnu vegna veikinda. Ármann Ægir og Rakel Móna byggðu sér hús í Hveragerði og bjuggu þar stærstan hluta ævinnar.

Ármann Ægir fékk ungur mikinn áhuga á félagsmálum og tók þátt í ýmsu félagsstarfi. Hann var formaður Iðnnemasambands Íslands á námsárunum. Hann var formaður Félags byggingariðnarðarmanna Árnessýslu á árunum 1991-1995 og kom að stofnun nýs sameinaðs verkalýðsfélags iðnaðarmanna á Suðurlandi, Sunniðnar, 1995 og gegndi Ármann Ægir formennsku þess félags til 2003. Þá kom hann að stofnun Félags iðn- og tæknigreina, FIT, sem Sunniðn gekk inn í ásamt fleiri verkalýðsfélögum iðnaðarmanna. Ármann Ægir var þá kjörinn gjaldkeri FIT og gegndi hann því hlutverki til 2020. Hann sat jafnframt í miðstjórn ASÍ um árabil. Ármann Ægir hefur gegnt ýmsum öðrum stjórnarstörfum í gegnum tíðina, s.s. hjá Iðunni fræðslusetri, í lífeyrissjóðum, var fulltrúi Sjálfsbjargar í bygginga- og skipulagsnefnd Hveragerðisbæjar og lagði áherslu á aðgengi fyrir alla. Hann var alla tíð virkur í pólitísku starfi og tók þátt í starfi Alþýðubandalagsins og síðar Samfylkingarinnar, bæði á sveitarstjórnarstigi og landsvísu. Í seinni tíð kom hann að stofnun og starfi ýmissa áhugafélaga, s.s. Handverks og hugvits undir Hamri og Ljósmyndaklúbbsins Bliks.

Útför Ármanns Ægis fer fram frá Hveragerðiskirkju í dag, 9. júní 2023, klukkan 14.

Ég gleymi seint seinasta samtalinu okkar pabba, tæpri viku áður en hann kvaddi okkur. Þá var hann búinn að vera á Landspítalanum í tvo daga og ég spurði hann hvernig hann hefði það. Hann viðurkenndi fyrir mér að hann væri nú dálítið veikur. Nú færi hann bráðum „að fljúga“ eins og hann orðaði það og ég vissi hvað hann meinti, en óraði ekki á þeirri stundu fyrir að hann myndi fara svo fljótt. Í þessu sama samtali spurði hann mig hvort ég hefði farið „á fundinn“. Þarna hélt ég að pabbi væri með einhverju óráði en spurði hann hvaða fund hann væri að tala um. Hann var nú alveg með það á hreinu, íbúafundinn auðvitað sem hafði verið þennan sama dag. Þetta er svo lýsandi fyrir pabba sem var alltaf með hugann við samfélagsmálin.

Pabbi hreinlega brann fyrir félagsmálum. Hann var hugsjónamaður sem vildi réttlátara samfélag. Að við sem samfélag ættum að tryggja að öll hefðu jöfn tækifæri til að blómstra í lífinu, sama hverra manna þau væru, hverrar þjóðar eða hvaða bakgrunn þau hefðu. Á sama hátt var hann viss um að hver einasta manneskja gæti lagt sitt af mörkum á sinn hátt, myndi skipta máli. Pabbi lagði svo sannarlega sitt af mörkum. Hann var reyndar eiginlega „alltaf á fundum“ og tók þátt í ýmsum og fjölbreyttum verkefnum. Hann sá aldrei eftir tímanum sem hann varði í sjálfboðaliðastarf til þess að gera samfélagið sitt betra, hvort sem það var að koma upp nýjum leiktækjum á skólalóðinni, funda um kjarabaráttu iðnaðarmanna eða setja upp ljósmyndasýningu.

Það veit enginn hvenær hann lendir í slysi eða veikindum og gæti þurft á aðstoð samfélagsins að halda, nú eða að komast leiðar sinnar á hjólastól. Það vissi pabbi á eigin skinni og hann minnti mig oft á að það velur það enginn að vera veikur. Við eigum að tryggja að þeir veiku hafi tækifæri til þess að leggja sitt af mörkum til samfélagsins og tryggja aðgengi allra að öllum svæðum og störfum og það lagði pabbi svo sannarlega áherslu á í sínum störfum. Ekki alltaf vinsælasti maðurinn á fundum og með „leiðinlegar athugasemdir“ en þetta var löngu áður en hann sjálfur þurfti svo á hjólastól að halda. Pabbi var framsýnn og frumkvöðull. Hann sá ekki rammana sem stöðvuðu marga, þeir voru í versta falli til að brjóta þá niður. Þetta var ekkert flókið í hans huga, það þurfti bara vilja og dugnað.

Hugurinn hans var hin seinni ár langt á undan líkamlegum burðum. Hann ætlaði að halda sér við í tæknimálum og það var ekki að ræða það að fá sér takkasíma (þótt skjálfandi fingur hefðu eflaust ráðið betur við hann) þegar bæði framtíðin og nútíminn voru snjallsímar með heiminn í hendinni.

Pabbi vildi okkur dætrum sínum allt það besta, skapa tækifæri fyrir okkur til að feta okkar eigin leiðir í námi og störfum. Hann hafði alla tíð mikla trú á okkar getu og sá okkur fyrir sér sem forstjóra eða forseta og var ekkert að grínast með það. Pabbi kenndi okkur margt um lífið og honum eigum við margt að þakka. Við munum ávallt búa að því sem pabbi kenndi okkur og „taka einn pabba á þetta“ þegar á þarf að halda.

Bjarney Sif Ægisdóttir.

Fallinn er frá minn kæri tengdafaðir Ármann Ægir, jafnan kallaður Ægir innan fjölskyldunnar. Kynntumst við árið 2001 þegar við Tinna dóttir hans felldum hugi saman. Hafði ég fengið varfærin varnaðarorð frá sameiginlegum vinum um að Ægir væri ákveðinn vel og umhugað mjög um dætur sínar. Hjartað sló því heldur hraðar þegar ég var kynntur fyrir honum. Settist hann við hlið mér og tók að spyrja mig spjörunum úr. Ekki gekk samtalið verr en svo að með okkur tókst vinskapur góður.

Handlaginn var hann og félagslyndur. Þegar heilsa hans varð til þess að verk urðu treglega unnin sinnti hann félagsmálum af lífi og sál. Framlag hans á vettvangi sameiningar og eflingar stéttarfélaga var mikið og óeigingjarnt. Auk þess var hann virkur í pólitík og lá ekki á skoðunum sínum og framtíðarsýn. Þrasgjarn þótti mér hann á stundum og ekki vorum við alltaf sammála, en þar sem hann var hrekkvís húmoristi að eðlisfari var það sjálfsagt oft á tíðum útgangspunkturinn.

Gott var til hans að leita þegar framkvæmdir voru fram undan. Þó að heilsan hamlaði hans framtaki var tilsögnin ávallt til staðar. Áttum við margar góðar og eftirminnilegar stundir við þau verkefni og fyrir það verð ég ævinlega þakklátur.

Kærar þakkir fyrir allt og allt minn kæri.

Stefán Jóhannsson.

Kæri Ægir. Nú hefur þú tekið á loft og flýgur hátt. Á sama tíma og ég syrgi þig fer ég yfir í huganum allar þær minningar sem við eigum saman og ég brosi á meðan tárin renna.

Stoltur er orð sem lýsir þér mjög vel Ægir. Það er ekki ofsögum sagt að þú hafir verið stoltur af fjölskyldunni þinni. Þú varst gríðarlega stoltur af dætrum þínum og þú hafðir svo mikla trú á þeim. Að þínu mati var ekkert sem þær gátu ekki og ég er þér alveg sammála.

Þú varst duglegur að láta alla vita af því hversu stoltur þú værir af barnabörnunum þínum og það var engin breyting á trú þinni á getu þeirra frekar en getu dætra þinna. Þú nefndir öll barnabörnin fullu nafni nema hjá honum nafna þínum, hann var Ægir eða nafni en ekki Ísak Ægir. Fyrst eftir að Ísak Ægir fæddist varstu duglegur að leiðrétta mig þegar ég sagði bara Ísak en ekki Ísak Ægir. Þið nafnarnir áttuð mjög sterkt og gott samband, hann leitaði mikið til þín og þótti gott að vera hjá þér. Þú áttir sterkt samband við öll barnabörnin þín Ægir, þú kallaðir Ísold Önnu sólina þína því að það birti alltaf til þegar að hún var hjá þér. Þú og Guðný Björg áttuð í góðu sambandi og tengdust í gegnum sköpun. Þið áttuð góðar stundir saman þegar Guðný Björg teiknaði upp ketti og alls konar verur sem þú síðan sagaðir út.

Hjálpsemi lýsir þér mjög vel Ægir. Þú varst boðinn og búinn að hjálpa okkur; sama hversu lítil eða stór bónin var varst þú reiðubúinn til þess að aðstoða eins og þú gast. Í þínum huga var ekkert verkefni of stórt eða óframkvæmanlegt, það þurfti bara að leysa það. Það er lexía sem þú kenndir mér og ég mun alltaf búa að. Þú hefur hjálpað mér gríðarlega mikið Ægir og ég tel að stærsta hjálpin sem þú veittir mér hafi í raun verið setning sem hefur styrkt mig og hjálpað mér hvað mest. Ég man ekki hvenær, hvar eða við hvaða tilfelli þessi setning var sögð enda skiptir það ekki máli í stóra samhenginu. En þú sagðir við mig að það væri ekki nóg að þú tryðir á mig, ég þyrfti að trúa á mig sjálfur.

Ég get talið upp ótal fleiri minningar eða minnisstæð atvik, ég ætla að láta hér staðar numið og þakka þér kærlega fyrir vináttuna sem við áttum.

Ég verð duglegur að láta krakkana vita af því hversu magnaður og sterkur þú varst.

Við vorum rík að eiga þig að Ægir og munum búa að því alla ævi. Takk.

Hallgrímur Brynjólfsson.

Þegar sumarið er á næsta leiti og vonir okkar um bjarta, sólríka daga taka við fáum við fréttir af fráfalli Ármanns Ægis, vinar okkar og félaga.

Ármann Ægir Magnússon, fyrrverandi formaður Sunniðnar, var virkur í stofnun Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna á Suðurlandi árið 1998. Skrifstofan var og er samstarfsvettvangur Sunniðnar, Verkalýðsfélagsins Þórs og Verslunarmannafélags Suðurlands. Ármann Ægir átti sæti í stjórn þeirri sem sá um skipulagningu og framkvæmd við stofnun þessa samstarfsvettvangs og vann þar gott verk. Ármann Ægir átti sæti í stjórn ÞSS, þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna á Suðurlandi, þar til heilsunni hrakaði.

Samvinna og samstarf var ofarlega á baugi hjá Ármanni Ægi og hafði hann jafnan miklar skoðanir á málum og fylgdi þeim eftir. Félagsmál áttu hug hans allan og alltaf var hann samvinnufús, framsýnn og réttsýnn. Hann var ljúfur og góður samstarfsmaður og þótt stundum hvessti um stund á fundum þá lygndi ávallt fljótt aftur.

Ármann Ægir fór að vinna í stéttarfélagamálum árið 1991 en þá var hann kjörinn formaður Félags byggingaiðnaðarmanna í Árnessýslu. Á þeim vettvangi lauk hann starfsferli sínum, sem stjórnarmaður hjá FIT, Félagi iðn- og tæknigreina.

Mikið vatn er runnið til sjávar frá stofnun ÞSS. Barátta Ármanns hefur verið aðdáunarverð. Hann missti aldrei sjónar á baráttumálum verkalýðshreyfingarinnar hverju sinni. Hann hafði alltaf eitthvað gott fram að færa og hægt var að leita til hans fram á síðasta dag. Þegar kemur að leiðarlokum viljum við, samstarfsfólk hans og vinir, þakka fyrir samfylgdina og hans ómetanlega framlag til félagsmála hér á Suðurlandi.

Sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur til fjölskyldu kærs vinar.

Hvíl í friði.

F.h. Félags iðn- og tæknigreina, Jónína Halldóra Jónsdóttir.

F.h. VR, Gils Einarsson.

F.h. Bárunnar, stéttarfélags, Halldóra
Sigríður Sveinsdóttir,
Þór Hreinsson.