Flottur Fox lætur ekki sjúkdóminn stöðva sig.
Flottur Fox lætur ekki sjúkdóminn stöðva sig. — AFP/Terry Wyatt
Fáar kvikmyndir snerta jafn mikið við manni og góðar heimildarmyndir. Það var sannarlega raunin þegar ég horfði á Still, sem fjallar um afmælisbarn dagsins, leikarann ástsæla, Michael J

Gunnar Egill Daníelsson

Fáar kvikmyndir snerta jafn mikið við manni og góðar heimildarmyndir. Það var sannarlega raunin þegar ég horfði á Still, sem fjallar um afmælisbarn dagsins, leikarann ástsæla, Michael J. Fox.

Flestir þekkja til hans úr Back to the Future-myndunum og þá er flestum kunnugt um að hann hefur glímt við parkinsonsjúkdóminn í rúma þrjá áratugi.

Í myndinni er farið yfir æviskeið hans, hvernig hann skaust svakalega upp á stjörnuhimininn um miðjan 9. áratug síðustu aldar og það gífurlega áfall sem fylgdi því að greinast með það sem Fox kallaði sjálfur „gamalmennasjúkdóm“, þegar hann var einungis 29 ára gamall.

Í myndinni kemur Fox til dyranna eins og hann er klæddur; hristist stöðugt, á stundum erfitt með mál og er í sífellu að falla til jarðar og brjóta bein. Hann er hreinskiptinn, einlægur með eindæmum og svo afskaplega fyndinn.

Úr verður einstaklega falleg mynd. Fox er staðráðinn í að gefast aldrei upp, talar afar fallega um fjölskyldu sína og sérstaklega eiginkonu sína, Tracy Pollan, sem hefur staðið við bakið á honum í allan þennan tíma. Baráttuþrek hjónanna hefur valdið því að Fox stendur enn keikur, 32 árum eftir greininguna.