Best Málfríður Anna Eiríksdóttir er lykilmaður í meistaraliði Vals.
Best Málfríður Anna Eiríksdóttir er lykilmaður í meistaraliði Vals. — Ljósmynd/Kristinn Steinn
Málfríður Anna Eiríksdóttir, leikmaður Vals, var besti leikmaðurinn í sjöundu umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta, að mati Morgunblaðsins. Málfríður Anna fékk tvö M hjá Morgunblaðinu fyrir frammistöðu sína í leik Vals gegn Þór/KA á…

Málfríður Anna Eiríksdóttir, leikmaður Vals, var besti leikmaðurinn í sjöundu umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta, að mati Morgunblaðsins.

Málfríður Anna fékk tvö M hjá Morgunblaðinu fyrir frammistöðu sína í leik Vals gegn Þór/KA á þriðjudagskvöldið þar sem hún var frábær í bæði vörn og sókn á miðsvæðinu. Leiknum lauk með naumum sigri Vals, 1:0, en það var Þórdís Elva Ágústsdóttir sem skoraði sigurmarkið á 54. mínútu.

Málfríður Anna, sem er 25 ára gömul, lék sinn 110. leik í efstu deild gegn Þór/KA í vikunni en hún hefur skorað tvö mörk í efstu deild.

Hún er uppalin hjá Val á Hlíðarenda og lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir félagið í september árið 2013, þá 15 ára gömul, þegar hún kom inn á sem varamaður gegn Þrótti úr Reykjavík í úrvalsdeildinni.

Hún var að glíma við meiðsli á síðustu leiktíð og lék því ekkert með Valskonum þegar liðið varð bæði Íslands- og bikarmeistari en Málfríður Anna á að baki 9 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands.

Málfríður Anna er af miklum knattspyrnuættum en faðir hennar er Eiríkur Sigurðsson og móðir hennar er Guðrún Sæmundsdóttir, fyrrverandi landsliðskona í knattspyrnu. Guðrún lék allan sinn feril með Val og þá á hún að baki 36 A-landsleiki þar sem hún skoraði fjögur mörk.

Yngri systur Málfríðar, þær Hlín, Arna og Bryndís, eru allar knattspyrnukonur og hafa allar verið samningsbundnar Val á einhverjum tímapunkti. Hlín lék með Val frá 2015 til ársins 2020 og á að baki 80 leiki í efstu deild og 33 mörk. Þá á hún að baki 24 A-landsleiki þar sem hún hefur skorað fjögur mörk en hún er samningsbundin Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni í dag. Arna, sem er samningsbundin Val, á að baki 19 leiki með Val í efstu deild en hún er á láni hjá FH í Bestu deildinni í dag. Bryndís er einnig samningsbundin Val en hún á láni hjá HK í 1. deildinni í dag.

Auk Málfríðar Önnu fengu þær Shaina Ashouri úr FH og Sif Atladóttir úr Selfossi, báðar tvö M fyrir frammistöðu sína í 7. umferðinni. Þær eru báðar í úrvalsliði umferðarinnar. Ashouri er í liðinu í þriðja sinn, eins og Taylor Ziemer, leikmaður Breiðabliks, og þá er Sif einnig í liðinu í annað sinn eins og Málfríður Anna. Þróttararnir Katie Cousins og Ólöf Sigríður Kristinsdóttir eru einnig í liðinu í annað sinn.