120 Arnór Þór Gunnarsson lék 120 landsleiki fyrir Íslands hönd og var meðal annars fyrirliði liðsins á HM 2021 í Egyptalandi. Landsleikirnir eru á meðal þess sem hann er hvað stoltastur af á ferlinum.
120 Arnór Þór Gunnarsson lék 120 landsleiki fyrir Íslands hönd og var meðal annars fyrirliði liðsins á HM 2021 í Egyptalandi. Landsleikirnir eru á meðal þess sem hann er hvað stoltastur af á ferlinum. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Gunnar Egill Daníelsson gunnaregill@mbl.is Arnór Þór Gunnarsson, fyrrverandi landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður Bergischer í þýsku 1. deildinni, hefur tekið ákvörðun um að leggja skóna á hilluna þegar tímabilinu í Þýskalandi lýkur um næstu helgi. Hann tekur um leið að sér nýtt starf hjá félaginu í sumar, sem annar tveggja aðstoðarþjálfara liðsins.

Handbolti

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Arnór Þór Gunnarsson, fyrrverandi landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður Bergischer í þýsku 1. deildinni, hefur tekið ákvörðun um að leggja skóna á hilluna þegar tímabilinu í Þýskalandi lýkur um næstu helgi. Hann tekur um leið að sér nýtt starf hjá félaginu í sumar, sem annar tveggja aðstoðarþjálfara liðsins.

„Það eru nokkrar ástæður fyrir því. Ég er búinn að vera mjög slæmur í mjöðm síðasta tvö og hálft ár. Fyrir tveimur og hálfu ári var ég greindur með brjóskeyðingu í hægri mjöðm og svo hefur þetta bara versnað stöðugt með tímanum. Það er ein ástæðan. Svo er maður að verða 36 ára, maður er ekkert að yngjast!

Það er eitt og hálft ár síðan ég ákvað að þetta myndi verða mitt síðasta tímabil sem atvinnumaður og sem leikmaður í handbolta yfir höfuð,“ sagði Arnór í samtali við Morgunblaðið, spurður út í ástæður þess að skórnir færu nú á hilluna.

Aðspurður hvort það hafi komið til tals að halda áfram að spila með Bergischer sagði hann: „Það er eitt og hálft ár síðan við ræddum saman um að þetta myndi verða mitt síðasta tímabil þannig að það var alveg ákveðið.

Það var gott spjall og á þeim tímapunkti kom upp sú hugmynd að ég myndi taka við starfi í þjálfarateyminu eftir að ég hætti sem leikmaður. Ég tæki þá við nýju starfi sem aðstoðarþjálfari hjá Bergischer 1. júlí.“

36 ára karl með ónýta mjöðm

Arnór, sem er 35 ára hægri hornamaður, hefur leikið í Þýskalandi undanfarin 13 ár, fyrstu tvö árin með Bittenfeld og undanfarin ellefu með Bergischer. Þar á undan lék hann með Val og uppeldisfélaginu Þór frá Akureyri hér heima. Að koma aftur heim og spila var sömuleiðis ekki í umræðunni.

„Ég hef ekki fengið neitt símtal. Ég hef stundum farið niður í Valsheimilið þegar ég er heima á Íslandi og Valsararnir vissu af þessari stöðu hjá mér allan tímann. Það var ekkert verið að hringja í mig. Svo er bara spurning hvort liðin vilji fá 36 ára gamlan karl með ónýta mjöðm!“ sagði Arnór og hló.

Hugað að þjálfun undanfarið

Samhliða því að koma inn í þjálfarateymi aðalliðsins mun hann vera aðalþjálfari 16-ára liðs Bergischer. „Við erum þrír í þjálfarateymi meistaraflokksins, aðalþjálfari og svo erum við tveir sem erum að aðstoða hann.

Svo bauðst mér að taka við 16-ára liðinu, sem mér fannst virkilega góð hugmynd af því að þá fæ ég líka tilfinningu fyrir því að stjórna liði, ekki bara að vera til aðstoðar. Ég sló til,“ sagði Arnór. Blaðamanni lék forvitni á að vita hvort það hafi blundað lengi í honum að fara í þjálfun. „Kannski ekki í eitthvað svaka langan tíma en síðustu árin hefur maður alveg hugsað út í þetta, hvað maður myndi gera eftir að leikmannaferlinum lyki.

Fyrir nokkrum árum fór ég í það að taka þjálfaragráðurnar hjá HSÍ og kláraði svo núna í janúar EHF Master Coach, sem var í samvinnu við HR og HSÍ. Ég er alveg búinn að pæla í þessu í einhvern smá tíma, ekkert í einhver 15 ár en síðustu ár,“ sagði Arnór.

Ellefu ár og verða fleiri

Hann hefur verið leikmaður Bergischer um ellefu ára skeið og er nú búinn að skrifa undir tveggja ára samning sem þjálfari hjá félaginu. Hvað veldur því að dvölin hefur verið þetta löng og lengist enn?

„Auðvitað er eðlilegt að fólk segi: „Vá hvað þú ert búinn að vera lengi í sama liðinu.“ Það eru nokkrar ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi kom ég til Bergischer árið 2012 þegar liðið var í mikilli uppbyggingu. Svo sér maður hlutina verða betri og betri og skrefin verða stærri og stærri hjá liðinu og félaginu. Þá vill maður taka þátt í því.

Auðvitað er ég búinn að fá einhver tilboð héðan og þaðan á ferli mínum en Bergischer hefur alltaf heillað meira en einhver önnur lið hérna í Þýskalandi sem hafa haft samband og eru kannski af svipuðu kalíberi og Bergischer. Þá heillaði Bergischer alltaf meira og ég sé ekki eftir einni sekúndu hérna,“ útskýrði Arnór.

Stoltur af landsleikjunum

Er hann var beðinn um að líta um öxl og nefna þá hluti sem standa upp úr á löngum og gæfuríkum ferli sagði Arnór að lokum:

„Það eru nokkrir hlutir sem maður horfir til. Þegar ég breyti og fer frá Þór til Vals og vinn Íslandsmeistaratitil og tvo bikarmeistaratitla með Valsliðinu. Svo er það rosalega stórt stökk fyrir mig að fara út til Þýskalands.

Þegar maður hugsar til baka var það ekkert auðvelt, og ekki auðvelt skref. Við kærastan að búa ung saman í Þýskalandi, annað tungumál í öðru landi þar sem við kunnum ekki tungumálið. Það var erfiður tími til að byrja með en mjög lærdómsríkur.

Svo var það að spila í fyrsta skipti í efstu deild í Þýskalandi tímabilið 2013/2014. Það var virkilega stórt fyrir mig persónulega að fá að spila á móti bestu liðum og bestu leikmönnum heims. Það var náttúrlega alveg frábær tilfinning á þeim tíma.

Svo eru það allir landsleikirnir. Það er eiginlega það sem maður horfir mest í. Ég er stoltur af því að hafa fengið að spila 120 sinnum í bláu treyjunni.“