Axel Björnsson,
jarðeðlisfræðingur og prófessor emeritus, fæddist í Reykjavík 25. september 1942. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Seltjörn 26. maí 2023.

Foreldrar hans voru hjónin Auður Axelsdóttir, húsmóðir og verslunarmaður, f. 15.4. 1920, d. 4.8. 2009, og Björn E. Kristjánsson, lögreglumaður og bæjarstarfsmaður, f. 19.8. 1920, d. 1.12. 2010.

Systir Axels er Aðalheiður Jensen, f. 12.1. 1944, búsett í Esbjerg.

Eftirlifandi eiginkona Axels er Hrefna Kristmannsdóttir, f. 20.5. 1944, prófessor emeritus.

Synir Axels og fyrri konu hans, Ástu Önnu Vígbergsdóttur, f. 12.1. 1942, eru:

1) Björn, skipulagsfulltrúi Reykjavíkurborgar, f. 16.3. 1967. Kona hans er Helga Björk Laxdal, skrifstofustjóri borgarstjórnar Reykjavíkur, f. 11.12. 1970.

Börn Björns og fyrri maka, Ólafar Jónu Tryggvadóttur, eru a) Sólrún Ásta, f. 1997, b) Steinar, f. 2000. Barn Helgu og stjúpsonur Björns er Jökull Bjarki Laxdal Jónsson, f. 1994. 2) Egill, sérfræðingur hjá Landsvirkjun, f. 3.11. 1971. Kona hans er Halla Sverrisdóttir þýðandi, f. 30.8. 1970. Börn þeirra eru: a) Silja, f. 2004, b) Styrmir, f. 2007.

Börn Hrefnu og stjúpbörn Axels eru: 1) Svanhildur Helgadóttir kennari, f. 5.1. 1971. 2) Björn Helgason kvikmyndatökumaður, f. 18.9. 1974. 3) Ásdís Helgadóttir, dósent við Háskóla Íslands, f. 5.1. 1982. Maki hennar er Elías Sigurþórsson, f. 4.5. 1977. Börn þeirra eru: a) Hrefna Sif, f. 2017, b) Helgi Þór, f. 2019.

Axel ólst upp í Reykjavík og
Kelduhverfi, en allt annað aldursár sitt dvaldi hann hjá móðurömmu sinni og móðursystkinum að Ási í Kelduhverfi og síðan öll sumur til unglingsára þar eða á Grímsstöðum á Fjöllum hjá móðursystur sinni Kristínu, sem varð hans önnur móðir.

Axel gekk í Laugarnesskóla, Gagnfræðaskóla Austurbæjar og Menntaskólann í Reykjavík þaðan sem hann lauk stúdents
prófi frá stærðfræðideild 1962. Hann nam eðlisfræði við Háskólann í Göttingen í Þýskalandi og lauk doktorsprófi þaðan 1972. Að loknu námi hóf Axel störf á jarðhitadeild Orkustofnunar sem sérfræðingur, síðar deildarstjóri jarðeðlisfræðideildar, verkefnisstjóri rannsókna og staðgengill forstjóra jarðhitadeildar. Frá 1990-1995 var hann framkvæmdastjóri vísindaráðs, sérfræðingur á Norrænu eldfjallastöðinni 1995-2000 þegar hann var skipaður prófessor við Háskólann á Akureyri í umhverfisfræðum.

Doktorsritgerð Axels var á sviði háloftaeðlisfræði, en eftir heimkomu var starfsvettvangur hans á sviði jarðhita og byggingar jarðskorpunnar, einkum rannsóknir með segul-, rafleiðni- og MT-tækni og var hann frumkvöðull í rannsóknum á því sviði. Axel var mikilvirkur í hópi þeirra vísindamanna sem
tóku þátt í að hitaveituvæða Ísland á áttunda áratug síðustu
aldar. Jafnframt var hann frábær kennari og var stundakennari við Háskóla Íslands, kenndi eðlisfræði í kennaradeild
Háskólans á Akureyri og tók þátt í að stofna þar umhverfis-
og orkusvið þar sem hann kenndi jarðhitafræði og eðlis-
fræði. Hann var ásamt Hrefnu konu sinni umsjónarmaður
jarðhitasviðs alþjóðlega meistaraskólans RES, kenndi þar og einnig allmörg námskeið erlendis á sviði jarðhita. Einnig var hann lengi kennari og umsjónarmaður jarðeðlisfræðisviðs Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Eftir Axel liggur fjöldi vísindarita, faggreina, skýrslna og alþýðlegra fræðirita. Axel gegndi fjölda trúnaðarstarfa bæði á faglegu sviði innanlands sem utan og fyrir stéttarfélög sín. Hann var m.a. formaður Jarðfræðafélags Íslands, forseti Vísindafélags Íslendinga, fulltrúi í stjórn rannsóknastofnana
Evrópusambandsins og nefnda á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Einnig sat hann í stjórnum margra erlendra fagfélaga. Eftir formleg starfs-
lok var hann ráðgjafi við ýmsar jarðhita- og jarðfræðirannsóknir, m.a. í Borgarfirði og fyrir Hitaveitu Seltjarnarness.

Axel var mikill fjölskyldumaður og lagði rækt við fjölskyldu sína, ekki síst barnabörnin og auk sinna eigin barnabarna „ættleiddi“ hann mörg önnur. Helstu áhugamál hans voru, auk rannsókna sinna, ferðalög utanlands sem innan, tónlist, ljósmyndun, saga Íslands og Norðurlanda og lestur rita um uppruna heimsins og mannkyns. Hann var fjölfróður og áhugasamur um mjög mörg málefni.

Útför hans verður gerð frá Seltjarnarneskirkju í dag, 9. júní 2023, klukkan 13. Streymt verður frá útförinni:
https://beint.is/streymi/axel

Fyrstu minningar um föður minn á ég frá háskólaborginni Göttingen í Þýskalandi þar sem hann stundaði nám um og upp úr 1970. Þar stækkaði fjölskyldan og dafnaði undir styrkri handleiðslu móður minnar. Hún sá um heimilið og okkur bræður á meðan faðir minn nam nýjustu strauma í jarðvísindum þess tíma sem hann síðar innleiddi með góðum árangri hér á landi. Ég á góðar barnsminningar frá Þýskalandi, hlý sumur, skógargöngur, héra, Laternenfest og ævintýri í hverju garðshorni. Eftir námsárin fluttist fjölskyldan í Árbæinn þar sem við bræður ólumst upp og ævintýraheimur Elliðaárdals tók á móti okkur og heimurinn stækkaði smátt og smátt.

Faðir minn bar sérstakar taugar til æskustöðvanna að Ási í Kelduhverfi þar sem hann dvaldi löngum stundum fyrstu æviárin og síðar á Grímsstöðum á Fjöllum. Staðir sem við heimsóttum margoft á yngri árum. Fjölskyldan var dugleg að ferðast um landið og minnisstæðar eru langar skröltferðir um misgóða malarvegi á gamalli Volkswagen-bjöllu vítt og breitt um landið, lítil laut og tjald. Ljósmyndun var honum ætið hugleikin og hann miðlaði þeim áhuga til okkar bræðra af mikilli list og skátaáhugann erfði ég frá honum.

Sem fræðimaður lagði faðir minn sitt á vogarskálarnar og hann vann mikið frumkvöðlastarf á fyrstu árum jarðvísindarannsókna hér á landi. Alla ævina hafði hann mikinn áhuga á náttúru og sögu Íslands, lands og þjóðar og vísindum almennt og var iðinn við að afla sér nýrrar þekkingar þar sem því varð við komið. Sá mannlegi eiginleiki sem fær fólk til að spyrja spurninga, rannsaka, grúska og uppgötva er gjöf sem leiðir til framfara, nýsköpunar og nýrrar visku. Þannig var faðir minn uppspretta ómældrar þekkingar og reynslu. Forvitni var honum eðlislæg og hann hafði óþrjótandi áhuga á að rannsaka, uppgötva og læra eitthvað nýtt, tengja saman ólíka hluti og miðla þeim áfram á skemmtilegan og fræðandi hátt. Það var því einstaklega sárt að heyra af því og síðar horfa upp á föður sinn smám saman glata þessum eiginleika sem var honum svo hjartkær og hverfa inn í huliðsheim sjúkdóms sem vísindin hafa, enn sem komið er, ekki fundið lækningu á. Hann bar sig þó vel og honum leið vel síðustu ár ævi sinnar þrátt fyrir erfiðleikana sem á dundu.

Faðir minn hafði mikið yndi af því að vera með og skemmta barnabörnunum sem hann sinnti af alúð og ævintýraheimur Húsafells var oftar en ekki leikvöllur þeirra þar sem hann átti lítið sælukot við lækinn. Hann var alltaf til staðar þegar á þurfti að halda og umhyggja fyrir fjölskyldunni, börnum og barnabörnum stóð hjartanu næst. Ungur nemur gamall temur. Eftir situr ljúfsár minning um föður og afa sem lagði sig fram um að hvetja okkur áfram, gefa af sér í verki og viti og miðla hlýju og kærleik sem við búum að um ókomna tíð.

Minning þín lifir með okkur ástkæri faðir og afi.

Björn Axelsson og fjölskylda.

Elskulegur stjúpfaðir okkar, Axel Björnsson, lést skyndilega föstudaginn 26. maí. Axel kom inn í líf okkar fyrir rúmlega þrjátíu og fimm árum. Við, óharðnaðir unglingarnir, tókum honum kannski ekki fagnandi í fyrstu, en vegna þolinmæði hans og ljúfmennsku urðum við smám saman mjög náin. Við minnumst Axels með hlýju, en hann tók þátt í uppeldi okkar og kenndi okkur ótal margt, enda afskaplega góður kennari. Við eigum margar skemmtilegar minningar um samverustundir á Látraströnd og í Húsafelli. Minnumst við sérstaklega ógleymanlegra hátíðahalda á aðventu og jólum, þar sem hann hélt í sínar hefðir með mývetnskum silungi, hákarli, hangikjöti frá Grímsstöðum og norðlenskum flatkökum, en rjúpuna hætti hann að elda sökum lítilla undirtekta annarra fjölskyldumeðlima. Hann var mikill sögumaður og var hrókur alls fagnaðar í afmælum og matarhittingi á sunnudögum, auk þess að vera mjög fær á grillinu. Þegar farið var í ferðir erlendis var hann sérlega natinn við að hafa ofan af fyrir Birni og Ásdísi, og var ansi hneykslaður þegar hann komst að því að þau höfðu aldrei farið í mínígolf, í ferð til Bandaríkjanna árið 1992. Þar að auki er okkur mjög í minni sjötíu og fimm ára afmæli móður okkar á Spáni með stórfjölskyldunni, þar sem hann naut sín vel þrátt fyrir að vera orðinn örlítið utan við sig. Þá var hann einnig mjög glaður í áttræðisafmæli sínu sem haldið var upp á tvisvar; fyrst með kökum og norðlenskum flatkökum fyrr um daginn og síðar með kvöldmat á Rauða ljóninu með nánustu fjölskyldu. Axel kenndi okkur margt, aðallega tengt bílum og öllu almennu heimilisviðhaldi. Hann var ómæld hjálp þegar kom að flutningi og standsetningu nýrra íbúða. Sem dæmi má nefna þegar Axel, ásamt móður okkar og fleirum, flísalagði baðherbergið heima hjá Svanhildi. Einnig flotuðu hann og Svanhildur svalirnar hjá henni og gekk það glimrandi vel. Þá skipti Axel, ásamt Birni, um alla ofna í íbúð Björns og hjálpuðust þeir að með ýmis verkefni á öllum heimilunum enda báðir einstaklega handlagnir. Axel hafði sérstakan og skemmtilegan húmor sem hann deildi óspart með öllum viðstöddum og allt fram á síðustu stundu. Gott dæmi er þegar hann spurði okkur hvort við hefðum pantað kvöldmat ef við áttum það til að birtast óvænt í mat. Axel var einstaklega fróður um allt milli himins og jarðar og notaði gjarnan hvert tækifæri til að fræða okkur. Við erum ákaflega þakklát fyrir að hafa kynnst Axel og munum sakna hans. Hvíl í friði elsku Axel.

Björn og Svanhildur.

Nú er elsku Axel farinn frá okkur. Það er af mjög mörgu að taka! Hann ól mig náttúrlega að miklu leyti upp, svo ótal margt sem ég hef lært af honum. Óþrjótandi þolinmæði hans í að hjálpa mér að læra eðlisfræði, stærðfræði, þýsku og dönsku í gegnum öll menntastig kom sér einstaklega vel. Ég skil enn ekki hvernig hann gat haldið það út. Mörg skemmtileg ferðalög koma upp í hugann, t.d. Flórída þegar ég var 10 ára, margar ferðir til Danmerkur (Lalandia, Legoland), Þýskaland, einnig Japan og svo þegar hann ásamt mömmu, Svanhildi og Völu kom í útskriftina mína í Santa Barbara í Kaliforníu. Svo voru margar skemmtilegar ferðir innanlands auk óteljandi ferða í bústaðinn í Húsafelli. Á söndunum ofan við Húsafell kenndi hann mér að keyra, svo þegar kom að því að taka ökutíma þurfti ég bara fjögur skipti. Axel hafði ótrúlega mikið vit á fjármálum og kenndi mér að fara sparlega með peninga og bý ég enn að því. Það var aldrei langt í húmorinn hjá honum. Ég man t.d. eftir því þegar hann gleymdi hatti í Kaliforníu og var hræddur um að brenna á skallanum en þá fann hann bara plastpoka til að nota í staðinn. Eða þegar hann sagði öllum að fyrst ég hefði fengið 10 í dönsku í 6. bekk myndi ég sjá um að tala fyrir okkur öll í Danmerkurferðinni. Hann var líka mjög handlaginn og varði mörgum stundum í að hjálpa mér að koma íbúðunum mínum í gott stand eftir að ég flutti inn. Hann var mikil barnagæla og ég held að uppáhaldshlutverkið hans í lífinu hafi verið að vera afi. Hrefna Sif og Helgi Þór eiga enda mikið eftir að sakna hans. Það er nokkuð táknrænt að áður en þau fengu að frétta af andlátinu báðu þau bæði hvort í sínu lagi um að fá að fara í heimsókn til afa eins og við vorum vön að gera á föstudögum. Síðustu árin þjáðist Axel af elliglöpum en var líkamlega sterkur og leið vel. Líkaminn gaf sig svo skyndilega nokkrum dögum fyrir andlátið og við erum þakklát fyrir að hann þurfti ekki að þjást lengi. Takk fyrir allt gamalt og gott, ég sakna þín.

Ásdís.

Axel afi smitaði mig af botnlausri forvitni um nánasta umhverfi, heiminn og vísindi almennt. Við áttum mörg sameiginleg áhugasvið og á milli okkar var alltaf sérstakur þráður. Upp úr standa löng samtöl um heima og geima og þolinmæðin sem hann sýndi barnslegum spurningum mínum um stjörnurnar og alheiminn. Mér fannst eins og hann gæfi sér allan heimsins tíma fyrir mig. Við brösuðum ýmislegt saman og oftar en ekki kom hann með einhver úrlausnarefni sem við gátum dundað okkur við að leysa saman. Við settum saman stjörnukíki, róbóta og smábíl sem keyrði fyrir eimuðu vatni, allskonar módel og hann passaði að ég hefði lesefni við hæfi um vísindi og tækni. Afi var einstaklega verklaginn og mér fannst eins og hann gæti bókstaflega allt.

Við systkinin fórum stundum tvö saman með afa og Hrefnu í Húsafell en þá var ekki setið auðum höndum og gjarnan eitthvað skemmtilegt á dagskrá. Við fórum í hellaferðir, bökuðum pönnukökur, spiluðum og áttum löng samtöl í pottinum. Ferðalögin með afa og Hrefnu voru líka eftirminnileg enda þau bæði skemmtilegir ferðafélagar. Afi hafði áhuga á fólki, hafði góða frásagnarhæfileika og var í essinu sínu þegar hann gat uppfrætt mig um eitthvað sem honum fannst skipta máli í lífinu. Mér fannst hann hafa einlægan áhuga á öllu því sem við tókum okkur fyrir hendur og hann lagði sig fram við að vera með á nótunum þegar kom að áhugamálum mínum, námi eða öðrum viðfangsefnum í lífinu.

Samtölin okkar breyttust með árunum, umræðuefnin urðu flóknari en alltaf var til staðar þessi botnlausa þolinmæði, umhyggja og þörf fyrir að fræða og aðstoða. Hin síðari ár fór heilsu hans hrakandi og smám saman fór heilabilunin að verða meira áberandi en þá skipti mig máli að reyna að endurgjalda þá umhyggju og þolinmæði sem hann hafði sýnt mér. Þó samskiptin hafi breyst upplifði ég þó alltaf þennan sterka þráð á milli okkar sem hann hafði lagt grunninn að.

Minningarnar eru margar og allar eru þær góðar. Ég er óendanlega þakklátur fyrir að hafa fengið að taka þátt í lífi þessa ógleymanlega manns. Takk fyrir allt, afi minn.

Steinar Björnsson.

Hann var fyrirmyndarfrændinn, frændinn sem bjó suður í Reykjavík og gekk í skóla fram á fullorðinsár. Sá fyrsti í minni fjölskyldu sem gekk menntaveginn, fór í langskólanám. Ég ákvað snemma að feta í fótspor hans. Þegar hann varð stúdent 1962 fórum við frændfólkið á Hólsfjöllum í ferðalag til Reykjavíkur til að vera viðstödd þessi merku tímamót. Þetta var tenging við annan heim, merkilegan fannst mér. Að sjá þetta unga fólk með hvítar stúdentshúfur á Austurvelli er ógleymanlegt. Axel fór til náms í Þýskalandi og lauk doktorsprófi í jarðeðlisfræði frá háskólanum í Göttingen. Hann hélt tryggð við slóðir móður sinnar fyrir norðan, var einn af sumargestunum. Mæður okkar voru systur, frá Ási í Kelduhverfi. Auður elsta systirin var móðir Axels, en Áslaug sú yngsta móðir mín, en systirin í miðið, Kristín, ól mig upp og tók Axel að sér um nokkurra mánaða skeið, þá ung og ógift í Ási. Var ætíð mjög kært með honum og Kristínu fóstru hans. Með okkur var eins konar fóstbræðralag þótt í aldri munaði átta árum. Axel Björnsson var fróður maður og mikill fræðari, ólatur að fræða okkur frændsystkin sín um eðli náttúrunnar. Hann var hjálpsamur og skemmtilegur. Að loknu námi vann hann við sitt fag hjá Orkustofnun og kenndi síðar við Háskólann á Akureyri. Ég minnist þess að hafa hitt hann norður í Mývatnssveit að fylgjast með Kröflueldum. Jörðin logaði um langa hríð og Axel logaði af áhuga á fyrirbærinu. Við jarðarför Kristínar fóstru okkar, fyrir þremur árum, var auðfundið að eitthvað var byrjað að láta undan í atgervi míns klára minnuga frænda. Við Guðrún sendum ástvinum hans og afkomendum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Ævar Kjartansson.

Ég var ráðinn í sumarvinnu á Jarðhitadeild Orkustofnunar haustið 1974, þá nýkominn úr Kínareisu og á leiðinni í kennslu til að borga skuldirnar. Kom við á Orkustofnun sem þá var til húsa við Laugaveg, rakst á Axel, sem ég sá þarna í fyrsta sinn, við ljósritunarvélina og falaðist eftir vinnu. Sumarfólkið var að tygja sig í haustpróf og hann réð mig strax. Þarna hófst áralöng vinátta og samstarf og þótt ég hætti að sinna jarðhitanum 1990 í tvo áratugi hittumst við endrum og sinnum. Axel var fjölfróður, kröftugur og hugmyndaríkur, jafnvel róttækur, stundum umdeildur, en reyndist mér vel í námi og starfi. Ekki var verra að Axel og Sigurlaug kona mín voru þremenningar.

Ég hélt síðan til Árósa haustið 1975 í framhaldsnám og vinnu til loka árs 1981. Axel kom nokkrum sinnum við, það voru skemmtilegar heimsóknir og mikið að gerast. Hann var fljótur að koma auga á það sem gæti gagnast við jarðhitaleit og rannsóknir heima við, s.s. þróun tækjabúnaðar, úrvinnsla gagna og túlkun. Ég flaug raunar heim með eitt forritið á gataspjöldum í tveimur kössum. Axel var vinsæll á deildinni minni í Árósum, hélt þar fyrirlestra m.a. um gosið í Kröflu sem þá var í gangi. Þar innleiddi hann ýmsar mæliaðferðir til að átta sig betur á því hvað var í gangi undir yfirborðinu. Eftir heimkomuna réð Axel mig til vinnu á Orkustofnun.

Á þessum árum, um og upp úr 1980, komu margir heim úr námi með menntun úr mismunandi umhverfi og háskólum. Fjölbreytileikinn var og er mikill styrkur. Þetta voru spennandi tímar fyrir nýútskrifaða jarðeðlisfræðinga, það var verið var að kortleggja landið og koma upp hitaveitum, auk háhitarannsókna m.a. við Kröflu, Svartsengi og Nesjavelli, og hefja boranir að undangengnum yfirborðsrannsóknum. Axel var framsýnn sem deildarstjóri og hélt vel utan um sitt fólk, skipulagði og hvatti okkur unga áhugasama fólkið til dáða. Hugmyndir og nytsemi nýrra og eldri aðferða á sviði jarðeðlisfræði voru ræddar fram og aftur og þær þróaðar; ný tæki voru hönnuð og smíðuð, úrvinnslu- og túlkunarforrit voru skrifuð. Byggt var á reynslu frumkvöðlanna: Gunnars Böðvarssonar, Guðmundar Pálmasonar og Sveinbjörns Björnssonar svo einhverjir séu nefndir. Þetta voru skemmtilegir tímar og frjóir og á margan hátt einstakir þar sem Axel gaf okkur lausan tauminn en fylgdist vel með og lagði margt gagnlegt til málanna. Auk þess var hann seigur við að læra af kollegum erlendis, miðla vitneskjunni og staðfæra upp á íslenskar aðstæður. Hann var flinkur fyrirlesari og greinarhöfundur.

Það var ánægjulegt að kynnast Axel og vinna með honum þessi ár og margt lærði ég af honum. Fjölskyldu hans sendi ég mínar bestu samúðarkveðjur.

Gylfi Páll Hersir.

Kveðja frá Rótarýklúbbi Seltjarnarness

Það var góður liðsauki sem Rótarýklúbbur Seltjarnarness fékk á 40 ára afmælisári sínu 2011 er dr. Axel Björnsson prófessor gekk til liðs við klúbbinn. Axel hafði áður um skeið verið félagi í Rótarýklúbbi Akureyrar er hann gegndi prófessorstöðu við HA.

Við ýmsir rótarýfélaga könnuðumst við Axel er hann gerðist félagi í klúbbi okkar. Hann enda virtur í háskólasamfélaginu. Doktorspróf hans frá háskólanum í Göttingen í Þýskalandi var á sviði jarðeðlisfræði og hann hafði ekki síst unnið við jarðhitaleit hér á landi. Hrefna kona hans hafði gengið til liðs við klúbbinn tíu árum áður. Þau mjög samrýnd og höfðu unnið saman á fræðasviði sínu á Akureyri.

Axel var hæglátur maður sem féll fljótt vel inn í hópinn. Vissi að Rótarý gengur m.a. út á kynningu ólíkra starfsgreina. Í grein sem ég las á dögunum eftir Axel um „Jarðhitaleit og rannsókn jarðhitasvæða með jarðeðlisfræðilegri könnun“ frá 1981 var fróðlegt að taka eftir að hann lagði áherslu á mikilvægi samvinnu fræðigreina: „Jarðeðlisfræðileg könnun er aðeins ein af mörgum aðferðum sem nota verður samhliða við jarðhitarannsóknir.“

Þessi aðferðafræðilegu orð dr. Axels eru dálítið lýsandi fyrir hann sjálfan. Margir rótarýfélagar minnast Axels heitins einkum fyrir góða fararstjórn hans og skipulag á þremur innanlandsferðum klúbbsins árin 2014 (Reykjanes), 2015 (Snæfellsnes) og 2016 (Borgarfjörður).

Axel hafði skipulagt þessar ferðir af vandvirkni. Gögn sem hann hafði útbúið fyrir ferðina um Reykjanes sýna það. Hann kallar þau „stikkorð og einföld kort“ en reyndust nákvæm leiðarlýsing með hnitmiðuðum upplýsingum um hvern áfangastað, einnig kort yfir „jarðhnik á Reykjanesskaga“ og „jarðfræðikort af Reykjanesi“. Það leyndi sér ekki að það var góður kennari sem útbúið hafði þessi gögn. Þau voru fjarri því bara jarðsaga, heldur margvíslegt efni sem endurspeglaði breitt áhugasvið hans.

Axel naut sín vel í Rótarý. Í ferð klúbbsins til Edinborgar 2017 var hann hrókur alls fagnaðar. Mér er minnisstætt eitt kvöldið í ferðinni þegar ferðalangar gerðu sér glaðan dag að þá tók Axel, söngelskur eins og hann var, eitt af sínum uppáhaldslögum, „Der Lindenbaum“ eftir Schubert. Þýska textann á því, og fleiri kærum Schubert-lögum, hafði hann á hraðbergi. Áhugi Axels var fjarri því takmarkaður við jarðeðlisfræði. Þannig kom mér þægilega á óvart þegar hann gerði í ferðinni að umtalsefni við mig upphafsorð sköpunarsögu Biblíunnar (1. Mós 1.1-3). Gaman var að upplifa að jarðeðlisfræðingur hafði íhugað þann texta og vildi heyra hvaða augum vísindaleg hebresk ritskýring liti textann.

Í Moskvuferð klúbbsins tveimur árum síðar sáust þess merki að Axel var tekinn að draga sig inn í skel. Sjúkdómur sem lék hann grátt síðustu árin var tekinn að gera vart við sig.

Rótarýfélagar minnast dr. Axels með þakklæti og virðingu og votta Hrefnu konu hans og fjölskyldunni allri innilega samúð.

Blessuð sé minning kærs félaga.

F.h. Rótarýklúbbs Seltjarnarness,

Gunnlaugur A. Jónsson.